18.12.1952
Neðri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (3407)

188. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Pétur Ottesen):

Sjútvn. hefur flutt þetta frv. eftir ósk atvmrh. Í þessu frv. er lagt til, að sú breyt. verði gerð á l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, að ákvæði laganna taki einnig til reknetaveiða á síldveiðum. Eins og l. eru nú, þá taka þau réttindi, sem l. ákveða, eingöngu til herpinótaveiða og hringnótaveiða, en eins og kunnugt er, þá er orðin sú breyting á um síldveiðar hér við land, að nú er farið að stunda reknetaveiðar miklu meira, en áður var. Þessi veiðiaðferð hefur færzt mjög í vöxt hér við Faxaflóa á undanförnum árum, og nú á s. l. sumri jukust reknetaveiðar mjög seinni hluta veiðitímans fyrir Norður- og Austurlandi. Í hafinu austur af Íslandi voru veiðar þessar stundaðar í vaxandi mæli langt fram eftir hausti. Og sú litla raun, sem síldveiðarnar gáfu á s. l. sumri, var að langsamlega mestu leyti tengd við þær reknetaveiðar, sem stundaðar voru í hafinu austur af Íslandi. Af þessum ástæðum þykir rétt og enda nauðsynlegt, eins og nú er komið, að breyta lögunum á þann veg, að þau taki einnig til reknetaveiða. Það er sú eina breyting, sem farið er fram á með þessu frv. og gerð er grein fyrir allýtarlega í því bréfi, sem fylgir þessu frv. frá þeirri n., sem fjallar um þessi mál á vegum ríkisstjórnarinnar. — N. leggur eindregið til, að þetta frv. nái fram að ganga.