16.01.1953
Neðri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (3419)

190. mál, lækkun skatta

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 491, fylgir það ýtarleg grg., að það er af þeim sökum minni ástæða til að flytja ýtarlega framsöguræðu fyrir frv. Þó skal ég víkja að ýmsum helztu meginatriðum þess nú þegar.

Á s. l. þingi fluttum við, þm. Ak. og ég, þáltill. um heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni, sem hafði stuðning hér í þinginu og var samþykkt. Kom greinilega fram við meðferð þess máls, að þm. almennt var fyllilega ljós nauðsyn þess að taka til gagngerðrar endurskoðunar skattalöggjöf landsmanna, og í því sambandi var einnig gert ráð fyrir að taka til sérstakrar meðferðar nýjan þátt þessara mála, sem ekki hafði áður sérstaklega verið rætt um, og það var tekju- og verkaskiptingin á milli sveitar- og bæjarfélaganna annars vegar og ríkissjóðs hins vegar. Skömmu eftir að þingi lauk skipaði ríkisstj. milliþn., sem var falið að vinna að þessari endurskoðun skattalöggjafarinnar og hefur unnið að henni. Hins vegar var það ljóst, þegar þetta þing kom saman, að n. var þá ekki búin að skila till. til ríkisstj., og lágu því ekki frv. fyrir eða till., þegar þingið kom saman, eins og reyndar hafði verið ráðgert., Og þegar lengra leið á þetta þing, þá var sýnt, að ríkisstj. mundi ekki flytja neinar sérstakar eða nýjar till. í þessum málum á yfirstandandi þingi. En ýmsir þm., og þ. á m. við flm. þessa máls, hv. 2. þm. Eyf. og ég, höfðum mikinn áhuga fyrir því, og lögðum við á það áherzlu innan okkar flokks, að það yrði að minnsta kosti gerð tilraun til þess að greiða fram úr þeim þáttum þessara mála til endurbóta, sem líklegt væri, að helzt mætti ná samkomulagi um og mikil nauðsyn knúði á með. Þess vegna afréðum við að flytja það frv., sem hér liggur fyrir, en má hins vegar skoðast sem bráðabirgðaúrlausn á miklu víðtækara verkefni, sem er heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar. Þetta frv. eða rökin fyrir því að taka þessa þætti út úr eru m. a. þau, að það var full ástæða til þess að ætla, að minni ágreiningur væri um þá þætti skattamálanna, sem hér eru reifaðir, heldur en um ýmsar aðrar greinar þeirra, en hins vegar var á sama tíma vitað, að mjög knýjandi þörf var fyrir að gera till. til úrbóta í skattamálunum, sem miðuðu einmitt að því að lækka skatta á einstaklingum og þá sér í lagi fjölskyldufólki, eins og þetta frv. stefnir að.

Form þessa frv. er með nokkuð sérstökum hætti, því að segja mætti, að eðlilegra hefði verið að flytja efni þess sem brtt. við gildandi lagaákvæði í þeirri skattalöggjöf, sem nú er í gildi. En sannleikurinn er sá, að það mál allt reyndist mjög flókið, þegar við athuguðum það nánar, og var einnig erfiðara að setja málið þannig fram, svo að jafnskýrt kæmi í ljós. hvaða meginbreytingar vektu fyrir okkur í þessu máli. Þá er einnig á það að líta, að ef svo reyndist, að stuðningur væri fyrir meginefni málsins í þinginu, er auðvitað hægurinn á að breyta forminu, ef það eitt teldist ákjósanlegra.

Meginefni þessa frv. er lýst í sem fæstum orðum í upphafi grg., þar sem segir, að með þessu frv. sé að því stefnt, að á tekjuskattslöggjöfinni verði nú gerðar breytingar, sem aðeins snerta einstaklinga, þ. e. a. s. ekki félög og stofnanir, og miði að því að létta skatta á hjónum og barnafjölskyldum, afnema skatta af lágtekjum, veita viss skattfríðindi í sérstæðum tilfellum, heimilisaðstoðarfrádrátt og frádrátt við stofnun heimilis, og að gera skattaálagninguna einfaldari og sanngjarnari, þ. e. a. s., umreikningur á tekjum falli niður samfara nýjum og einfaldari skattstiga.

Þegar um það er að ræða að flytja breytingar á skattalöggjöfinni, sem m. a. eiga að stefna að því að létta skattþunganum af einhverjum aðilum, verður að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir áhrifum slíkra breytinga á tekjuöflun ríkissjóðs. Í fjárlfrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir, að tekjur af tekjuskatti og eignarskatti stríðsgróðaskatti og tekjuskattsviðauka nemi um 54 millj. kr. Við höfum, flm. þessa máls, haft náið samstarf við annan fulltrúa Sjálfstfl. í skattamálanefndinni, Sigurbjörn Þorbjörnsson. Hann er mjög kunnugur hinni teknísku hlið þessara mála, en fram á síðasta ár var hann starfsmaður skattstofunnar. Höfum við látið fylgja frv. grg. hans um ýmsar teknískar hliðar þessa máls, og m. a. kemur fram af þeirri athugun, sem hann hefur framkvæmt, að það má telja líklegt, að óbreyttri tekjuskattslöggjöfinni og þar sem aðstæður í þjóðfélaginu hafa verið svipaðar á árinu 1952 eins og á næstu árum á undan, að tekjuskatturinn, sem áætlaður er 54 millj. kr., muni gefa ríkissjóði allverulega hærri upphæð. Eftir hans útreikningum virðist það vera sem næst því um 68 millj. kr. Samkvæmt því var hér um að ræða 14 millj. kr. millibil, sem mátti lækka skatta um að okkar áliti, án þess að skerða tekjuáætlun fjárlaganna. En að sjálfsögðu er ekki ástæða til þess fyrir þm.samþ. tekjuáætlun, ef þeir á sama tíma eru sannfærðir um, að hún hækki töluvert í reyndinni. Það er þess vegna, sem við bendum á, að þrátt fyrir okkar frv. og þó að það eigi að létta skattabyrðina af þeim, sem það nær til, um allt að 14 millj. kr., þá muni það ekki rýra þá upphæð, sem áætlað er að ríkissjóður fái af tekjuskattslögunum samkvæmt fjárlögunum.

Á undanförnum árum hefur það verið svo, að næstum því alltaf hefur farið fram úr áætluninni það, sem ríkissjóður hefur fengið vegna tekjuskattsins eða þeirra skatta, sem hér um ræðir, stundum um svipaða upphæð eins og hér er um að ræða og stundum miklu meira. Ef litið er á 10 síðustu ár, þá er það svo, að 1942 var áætlað í fjárlögum, að af þessum sköttum fengi ríkissjóður 3 millj. 150 þús. kr., en fékk það ár 20 millj. 471 þús. kr., m. ö. o. 17,3 millj. umfram eða 549,8% hækkun frá því, sem áætlað var. Þetta er hins vegar alveg sérstætt, því að hér eru að koma til framkvæmda ný lagaákvæði, og gerðu menn sér þá ekki grein fyrir, hvaða verkanir þau hefðu í sambandi við þær verðbreytingar, sem orðið höfðu í þjóðfélaginu á sama tíma. Þetta ár má auðvitað taka alveg út af fyrir sig, og gefur það ekki vísbendingu að öðru leyti um það, sem hér um ræðir. — Næsta ár, 1943, voru áætlaðar 23 millj. kr. Þá er nú hoppað í áætluninni úr 3 millj. upp í 23 millj., en þá fær ríkissjóður 34,8 millj., eða 11,8 millj. fram yfir áætlun, sem er 51,3% fram yfir það, sem áætlað var. — Svo kemur árið 1944, og þá mun Alþingi sennilega ekki hafa ætlað að brenna sig á því soðinu að áætla nú ekki nógu vel, og eru þá áætlaðar 32 millj., en hafði verið árið áður 34,8 millj., sem ríkissjóður fékk, en það ár fær ríkissjóður 29 millj. kr., eða 2,9 millj. minna en áætlað var, sem er minnkun frá áætluninni um 9,3%, og er það eina árið, sem ríkissjóður fær minna en það, sem áætlað var. En ég vil vekja athygli á því, að það, sem hér brást, var eingöngu stríðsgróðaskatturinn, sem var of hátt áætlaður. Tekjuskatturinn og eignarskatturinn fóru hins vegar fram úr áætlun. — 1945 voru áætlaðar 33 millj., verða 39,1 millj., þ. e. 6,1 millj. fram úr áætlun, eða 18,5%. — 1946 eru 32 millj. áætlaðar, en innheimtast 40,7 millj., þ. e. 8,7 millj. fram úr áætlun, eða 27,45%. — 1947 eru áætlaðar 38 millj., verða 49,7 millj., eða 11,7 millj. fram úr áætlun, sem nemur 30,98% umfram áætlun. — Árið 1948 eru áætlaðar 43 millj., en verða 62,2 millj., eða 19,2 millj. fram úr áætlun, sem þýðir 44,82% fram úr áætlun. Þetta ár má hins vegar líta einnig á með nokkuð sérstökum hætti, þar sem þetta er eignakönnunarárið, og við eignakönnunina komu fram miklu betri framtöl heldur en áður hafði verið, og má því taka það nokkuð út úr eins og fyrsta árið, enda er hér nærri 45% hækkun frá því, sem áætlað var í fjárlögunum. — Árið 1949 er áætlað 43 millj., en verða 51,9 millj., eða 8,9 millj. fram úr áætlun, sem er liðlega 20%. — Árið 1950 eru 42 millj. áætlaðar, sem verða 46,3, 4,3 millj. fram yfir áætlun, sem er 10,3%. — Og árið 1951 eru áætlaðar 36,2 millj., en verða 49,7 millj., sem er 13 millj. 460 þús. kr. fram úr áætlun, eða 37,13% hækkun.

Þetta hef ég viljað segja til þess að styðja þá skoðun okkar, að það sé ekki fjarri lagi, sem reiknað hefur verið út, að ætla megi, að að óbreyttum skattalögum muni tekjurnar af þeim sköttum, sem hér um ræðir, fara allverulega, við teljum 14 millj., fram úr þeirri 54 millj. kr. áætlun. sem fjárlög segja til um.

Það, sem menn hafa ekki gert sér nægjanlega grein fyrir á undanförnum árum, er, að enda þótt Alþingi hafi ekki með nýrri skattalöggjöf lagt nýja skatta á einstaklingana í þjóðfélaginu, þá hafa skattarnir stöðugt verið að hækka stórkostlega, og það er vegna þess, að dýrtíðin í landinu, hin sívaxandi dýrtíð, hefur gegnt hlutverki vaxandi skattpíningar ár frá ári. M. ö. o., eftir því sem dýrtíðin hefur vaxið, þá hefur aukizt hinn raunverulegi skattþungi þegnanna. Það hefur verið tekið tillit til dýrtíðaraukningarinnar í umreikningi á tekjum að vissu marki, en síðar hefur því sleppt og þegar kemur fram yfir þetta mark, þá hefur skattahækkunin orðið gífurleg frá því, sem áður var, þó að engar breytingar hafi orðið á sjálfri skattalöggjöfinni. Það er sýnt fram á þetta með greinilegum töflum í grg. Sigurbjörns Þorbjörnssonar, í töflu A og B, sem fylgja frv. okkar og þm. hafa aðstöðu til að átta sig fullkomlega á, og skal ég ekki fara út í þær hér. Það er líka nokkuð flókið til þess að rekja það í einstökum atriðum í framsöguræðu, en ég vil til frekari áréttingar því, sem þessar töflur sýna, benda á einstök dæmi til sönnunar því, hvernig skattarnir hafa hækkað aðeins vegna dýrtíðarinnar að óbreyttri skattalöggjöf. Þetta má sýna með því að taka sambærilegar tekjur árið 1941 og árið 1951. Árið 1941 er kaupgjaldsvísitalan að meðaltali 160 stig samkvæmt gömlu vísitölunni, og 1951 er kaupgjaldsvísitalan að meðaltali 393 stig samkvæmt gömlu vísitölunni. Sambærilegar tekjur verða þess vegna:

Ár 1941 30 þús. kr. svara til 73.687,00 árið 1951

„ „ 35 „ „ „ „ 85.968,00

„ „ 40 , „ „ 98.250,00

M. ö.,o. eiga menn eftir þessu að öðru jöfnu að vera nokkuð jafnvel stæðir með 98 þús. kr. tekjur 1951 eins og þeir voru með 40 þús. kr. tekjur 1941.

Ef við lítum svo á álagða skatta af sömu tekjum við skattlagningu 1942, þ. e. a. s. af tekjunum 1941, og við skattlagningu 1952 af tekjunum 1951 hjá einhleyping, þá kemur það þannig út, að af 30 þús. kr. tekjum átti einstaklingur að greiða 1942 2.809 kr., en af sambærilegum tekjum 1952, sem eru þá 73.650 kr., 10.999 kr. Þetta þýðir það, að af tekjum sinum 1942 greiddi einstaklingurinn í skatt 9,36%, en 1952 14,9%, sem þýðir hækkun um 59,5%. Af 35 þús. kr. tekjum 1942 greiddi einstaklingurinn 3.800 kr., en af sambærilegum tekjum 1952 16.321 kr. Hann greiddi þá 1942 10,85% af tekjum sínum í skatta, en 1952 18,98%, m. ö. o. hækkun um 74,9%, og af 40 þús. kr. tekjum greiddi einstaklingurinn 1942 4.800 kr., en af sambærilegum tekjum 1952 21.733 kr. Það þýðir 12% skatta af tekjunum 1942, en 22,12% skatta af tekjunum 1952, sem þýðir hækkun um 84,33%.

Af þessum dæmum sjá menn, hversu gífurleg skattahækkunin hefur orðið, eins og ég sagði, að óbreyttum skattalögum, en aðeins vegna hinnar geysilegu dýrtíðarhækkunar, sem orðið hefur í þjóðfélaginu.

Þetta sýnir auðvitað og sannar, hversu mikil nauðsyn það er að leiðrétta það misræmi, sem skapazt hefur, og eins og ég sagði í upphafi, að það er að öllu leyti fullkomin nauðsyn að taka skattalöggjöfina í heild til endurskoðunar, en það er þó sennilega varla nokkur þáttur þessarar löggjafar, sem er nauðsynlegra að endurskoða, heldur en skattana á fjölskyldufólki, hjónum og barnmörgum fjölskyldum, því að þar kemur hin vaxandi skattabyrði langerfiðast niður, a. m. k. þegar tekjurnar eru komnar upp úr því, sem teljast má aðeins þurftartekjur, og liggur ákaflega þungt á öllum miðlungstekjum, sem eru milli 50 og 100 þús. kr., eins og nú er með því verðlagi, sem er í þjóðfélaginu.

Ég skal svo víkja nokkuð að einstökum greinum frv. Ég hef þegar vikið að hinni fyrstu, þar sem gert er aðeins ráð fyrir því að taka til meðferðar einstaklingana, ekki félög og stofnanir o. s. frv. — Í 2. gr. er hins vegar gert ráð fyrir nýrri grundvallarreglu í löggjöfinni, þar sem í gr. segir, að skattskyldum tekjum hjóna skuli skipta til helminga og skattur reiknaður af hvorum helming um sig. Þetta mál hefur verið nokkuð á döfinni hér á þingi og utan þings á undanförnum árum og stundum verið nokkuð miklar deilur um það, hvernig haga bæri skattalöggjöf hjóna, og upphaflega held ég að deilur hafi mest risið vegna þess misræmis, sem skapaðist í skattamálum hjóna, þegar konan vann utan heimilis, og komu fyrst fram tillögur um það að taka upp sérstakar reglur um skattlagningu hjóna, þegar konan ynni utan heimilisins. Á það var þó réttilega bent, að í sjálfu sér væri vinna konunnar utan heimilisins sízt merkilegri heldur en vinna konunnar á heimilinu og með því að taka það sérstaklega fyrir og setja sérreglur um það gæti einnig skapazt misræmi, miðað við þær konur, sem ynnu sín húsmóðurstörf á heimilinu. Með því að taka skrefið til fulls og skipta tekjum hjóna stöðugt í tvennt, hvort sem konan vinnur utan eða innan heimilisins, þá er siglt fram hjá öllum ágreiningi, sem af þessu leiðir, sem ég nú var að gera grein fyrir, og sannleikurinn er sá, að það má að vissu leyti teljast réttlátt mál og grundvallarhugsunin rétt, að bæði konan og maðurinn afli teknanna til heimilisins, burt séð frá því, hvort þeirra er aflað með vinnu konunnar á heimilinu eða utan heimilisins eða beggja aðilanna á heimilinu og utan heimilisins, þannig að frá grundvallarsjónarmiði sé ekki óeðlilegt að líta á báða aðilana sem sjálfstæða skattgreiðendur, eins og 2. gr. frv. gerir ráð fyrir, og tekjum þeirra í heild sé skipt í tvo jafna hluta og skatturinn síðan reiknaður út eftir því. En á grundvelli þessarar greinar eru svo byggð að sjálfsögðu önnur ákvæði frv., bæði um persónufrádrátt og þó einkum og sér í lagi um skattstigann, sem að sjálfsögðu þarf að breytast verulega vegna þessarar grundvallarbreytingar, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé fyllilega ljóst. Við flm. erum nú einmitt þeirrar skoðunar, að það muni ekki hafa nema góð áhrif á skattaframtölin, að þáttur konunnar verði þar ríkari heldur en verið hefur, að hún komi þar fram og skrifi undir skattaframtölin með manni sínum, og sé í mörgum tilfellum líklegt til þess að hafa farsæl áhrif á fjármál hjónanna, að þau taki meiri þátt í fjármálastarfseminni og fjármálaumhugsuninni bæði, heldur en oft hefur verið og reynzt hjá hjónum. Að öllu athuguðu sýnist okkur, að það sé rétt að hníga að þessu ráði með einu eða öðru móti. Við höfum gert okkar ákveðnu tillögur um það að skipta skattskyldum tekjum hjónanna þannig, að þau að því leyti komi fram sem sjálfstæðir skattaðilar, skatturinn reiknaður af hvorum helmingi fyrir sig og svo lagður saman, þegar þeim reikningi er lokið.

3. gr. fjallar um persónufrádráttinn. Það hafa verið uppi hér till. og eru víst enn á þinginu um að hækka persónufrádráttinn. Að sjálfsögðu hefur mátt fara þá leið til þess að bæta úr þeirri gífurlegu skattahækkun, sem orðið hefur vegna dýrtíðarinnar. að hækka persónufrádráttinn og taka þá breytingu eina út af fyrir sig, því að hún hefði getað áorkað miklu. Í grg., sem fylgir frv., kemur berlega í ljós, hversu persónufrádrátturinn hefur í raun og veru rýrnað gífurlega frá því, sem hann áður var, við þær verðbreytingar, sem orðið hafa á undanförnum árum. Persónufrádrátturinn ætti að vera meira en helmingi hærri, en hann er í dag, til þess að svara til þess, sem hann var 1942. Ef tekið er kaup Dagsbrúnarverkamanns og athugað, hvað persónufrádrátturinn var og er mikill hluti af grunnlaununum, þá kemur í ljós, að við skattlagninguna 1942 hefur persónufrádrátturinn fyrir einhleypinga verið 25,86% af launum Dagsbrúnarverkamanns og fyrir hjón 51,72%, miðað við 2.400 vinnustundir. En ef þetta er borið saman við skatta 1953 af tekjunum 1952, þá kemur í ljós, að persónufrádrátturinn er 12,17% af grunnlaunum einhleypings, þegar miðað er við laun Dagsbrúnarverkamanns, þ. e. a. s. 12,17%, miðað við 25,86% 1942. Þegar tekinn er persónufrádráttur hjóna, þá er hann núna 24,35% af laununum, en var 1942 51,72% af laununum. Þetta er m. a. ein orsök þess, hversu sigið hefur á ógæfuhliðina fyrir launafólki og fjölskyldufólki sérstaklega í skattamálunum. Persónufrádrátturinn ætti að vera núna, miðað við, að hann væri sambærilegur við skattlagninguna 1942, fyrir einhleyping 8.530.38 kr. og fyrir hjón 17.060.76 kr., en er fyrir einhleyping 4.150.00 kr. og fyrir hjón 8.250 kr., m. ö. o., hann hefur rýrnað um meira en helming. Þess vegna leggjum við til í 3. gr., að persónufrádrátturinn sé hækkaður, en menn taki eftir því, að eftir þessu ætti hann að vera á hjónum, eins og ég sagði, rúmar 17 þús. kr., en við leggjum til, að hann sé 11.300 kr., og það er vegna grundvallarbreytingarinnar að skipta tekjum hjóna í tvennt og vegna þess, hvernig skattstiginn er við það miðaður. Við teljum, að það svari nokkurn veginn til þess, að persónufrádrátturinn væri umreiknaður og sá hinn sami eins og hann var 1942, að einfaldlega þá feli frv. í sér þær upphæðir persónufrádráttar, sem sambærilegar væru við persónufrádráttinn 1942, þegar hliðsjón er tekin af þeirri grundvallarbreytingu, að tekjum hjóna er skipt og skattstiganum breytt í samræmi við það.

Þá er 4. gr. Hún er um skattfrelsi á lágtekjum, og höfum við sett þar það takmark, að skattur hjóna með 2 börn á framfæri og með hreinar tekjur samanlagt 30 þús. kr. eða lægri skuli falla niður og sama gildi svo um skatta annarra gjaldenda, sem greiða ættu jafnháa skatta eða lægri. Við höfum haft hjá okkur gildandi lög um lækkun skatta á lágtekjum, en bæði teljum við að allt of skammt sé með þeim gengið, og svo er á því sá meginmunur, að ef við göngum inn á þá reglu að afnema skatta á lágtekjum, eins og við leggjum til, við ákveðið mark, þá er það gífurlegur fjöldi af skattþegnunum, sem þarf ekki að greiða skatta, en greiddi áður mjög litla skatta. sem ríkissjóð munaði lítið um, en hafði mikið erfiði við að leggja á og innheimta. Þessir skattar borguðu alls ekki vinnuna og fyrirhöfnina við að leggja þá á og innheimta þá, og vinnan og innheimtan verður enn þá meiri á þessum litlu sköttum, þegar verið er að taka upp nýjar reglur um að lækka þessa lágskatta, í staðinn fyrir að taka skrefið til fulls og fella þá alveg niður, án þess að ríkissjóð muni nokkuð verulega um það.

Það mætti segja, að þessu marki, að gera lágtekjurnar skattfrjálsar, mætti að vísu ná með persónufrádrættinum, með því að hækka hann, en það er á því sá galli, að ef maður hækkar persónufrádráttinn enn þá meira, þá nær sú hækkun einnig til hærri tekna og hátekna, sem maður ekki vildi með svo háum persónufrádrætti veita þau fríðindi, sem hann mundi veita. Þess vegna er nauðsynlegt við hliðina á því að leiðrétta persónufrádráttinn að taka einnig það skref að afnema og setja ákveðin mörk um það, hvar lágtekjurnar skuli vera skattfrjálsar.

Það er nánar gerð grein fyrir því í grg. Sigurbjörns Þorbjörnssonar, útreikningum hans. hvaða tekjur, miðað við mismunandi fjölskyldustærðir, mundu verða skattfrjálsar með þessu móti, og tel ég ekki ástæðu til þess að fara að rekja það sérstaklega.

Í 5. gr. er svo gert ráð fyrir sérstökum skattfríðindum í tvennum tilfellum. Ef gift kona vinnur utan heimilisins í fyrsta lagi, þá teljum við rétt að líta á hjónin svipað eins og tvo einstaklinga og veita fríðindi í sambandi við aðra útreikninga á persónufrádrættinum eða í hækkuðum persónufrádrætti, sem hjónin þá fá. Ástæðan til þess er sú, að með því móti þurfa hjónin að kaupa sérstaka heimilisaðstoð, sem gert er ráð fyrir að bæta þeim upp með breyttum persónufrádrætti, eins og segir í greininni. — Í öðru lagi er þarna um sérstök skattfríðindi að ræða fyrir einstæðar mæður og feður, sem eru með börn innan 16 ára aldurs á framfæri. Í slíkum tilfellum er lífsframfærið yfirleitt nokkuð erfitt fyrir aðila, og í mörgum tilfellum þarf þá að kaupa heimilisaðstoð og leggja út annan kostnað, þar sem annar makinn er fallinn frá eða nýtur ekki við lengur, og því rétt í skattalöggjöfinni að veita fríðindi í skattgreiðslum með hliðsjón af þessum sérstöku kringumstæðum hjá einstæðum mæðrum og feðrum, sem hafa börn á framfæri sínu, og leggjum við einnig til, að þau skattfríðindi séu útreiknuð í sambandi við sérstakar breytingar á persónufrádrættinum, sem hækkar í þessu tilfelli eins og greinin segir og gerð er nánari grein fyrir í grg.

Í 6. gr. leggjum við til, að það sé tekið sérstakt tillit til þess, þegar hjón stofna heimili. Fyrst og fremst vakir fyrir okkur með því að gera ungu fólki auðveldara, en verið hefur að stofna til hjúskapar. Eins og öllum er ljóst, þá verður fyrsta hjúskaparárið oft og tíðum erfitt, vegna þess að það þarf að kaupa margt til búsins, og með hliðsjón af því er gert ráð fyrir að veita sérstök skattfríðindi við stofnun heimilisins, sem við einnig leggjum til að séu reiknuð út á grundvelli persónufrádráttarins, með því að hækka persónufrádrátt einstaklinganna á því ári. sem þeir stofna til hjúskapar, reikna hjónunum þá tvöfaldan persónufrádrátt, miðað við persónufrádrátt tveggja einhleypinga, á því sama skattári, sem þau stofna til hjúskaparins. Um þetta hafa verið till. hér í þinginu og annars staðar, einmitt að greiða fyrir frumbýlingum á einn eða annan hátt, þegar þeir eru að stofna til bús og hjúskapar.

Í 7. gr. er svo gerð grein fyrir þeim skattstiga, sem við leggjum til að skattarnir séu reiknaðir eftir, miðað við þær grundvallarbreytingar, sem við áður höfum lagt til og gerð hefur verið grein fyrir. Ég vil um þetta, aðeins til frekari áréttingar, vitna til þess, sem um það segir í grg. á þessa leið, að skattstiginn miðar fyrst og fremst að lækkun skatta á fjölskyldufólki. Einnig er gert ráð fyrir lækkun skattstiga frá núgildandi lögum á tekjum yfir 68600 krónur. Við gerum ráð fyrir því í 2. gr. frv., að allur umreikningur falli niður, og hærri tekjurnar nutu ekki umreiknings áður nema að litlu leyti og voru þess vegna ósambærilegar við þær lægri. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þessi lækkun á hærri tekjum er í raun og veru ekki hugsuð frá okkur annað en formsatriði, vegna þess að á öðrum stað í frv. fellum við niður úr skattstiga sem svarar rúmlega hálfum hluta núgildandi stríðsgróðaskattstiga, en sá hluti skattsins rennur nú til bæjar- og sveitarfélaganna. Um leið og þetta er gert, er ákveðið í frv. að afnema takmörkunina á álagningu útsvara á tekjur yfir 200 þús. kr., sem áður var í lögum, og í stað þess að þessir skattgreiðendur séu taldir greiða skatt til ríkissjóðs, sem síðan er greiddur yfir til bæjar- og sveitarfélaganna eftir núgildandi reglum, er með þessari breytingu okkar veg og vanda af álagningu og innheimtunni sett yfir á bæjar- og sveitarfélögin, en ekki um að ræða neina raunverulega lækkun á heildarsköttum af þessum tekjum, þegar tekjuútsvörin eru tekin með í reikninginn. Við gerum þá ráð fyrir, að hérna opnist nýr möguleiki fyrir bæjar- og sveitarfélögin til álagningar útsvara, sem ekki var áður fyrir hendi, og mun ekki af veita.

Eftir skattstiganum hækka skattarnir á einhleypingum nokkuð, en lækka aftur verulega á fjölskyldufólkinu, eins og sýnd eru dæmi um í grg. og ég hygg ekki, að ég þurfi að gera nánari grein fyrir hér. Ég vil aðeins taka eitt eða tvö dæmi. Ef við tökum hjón með 2 börn á framfæri, þá eru þau skattfrjáls, ef þau hafa 30 þús. kr. tekjur. En af 32950 kr. tekjum hefði skattur á hjónum með 2 börn að óbreyttum lögum orðið 457 kr., en verður samkvæmt frv. 84 kr., og hjón með 2 börn á framfæri, sem hafa 36600 kr. skattskyldar tekjur, mundu að óbreyttum skattalögum eiga að greiða 639 kr., en samkvæmt frv. 152 kr.

Þá gerum við ráð fyrir því, að umreikningurinn falli niður og skattstiginn verði við það miðaður, að hvorki tekjuskattsviðaukinn né stríðsgróðaskattur reiknist við skattaálagningu á tekjur gjaldenda þeirra, sem þessi lög ná til, og eins og ég sagði áðan, að takmörk þau á útsvarsálagningu á tekjur yfir 200 þús. kr., sem sett eru í lögum frá 1942, um stríðsgróðaskatt, gildi ekki um þá gjaldendur, sem þessi lög taka til.

Svo er í 10. gr. það nýmæli, að upphæð persónufrádráttar samkvæmt 3. gr., upphæð skattfrjálsra tekna samkvæmt 4. gr. og tekjubil og skattaupphæðir samkvæmt 7. gr., sem er miðað við meðalkaupgjaldsvísitölu ársins 1952, skuli breytast til hækkunar eða lækkunar í samræmi við árlegar breytingar á meðalkaupgjaldsvísitölu. Þetta ákvæði á að miða að því, að verðbreytingar, hækkandi dýrtíð í landinu verki ekki ein út af fyrir sig sem stórkostleg skattahækkun á þegnana, þó að skattalöggjöfin að öðru leyti breytist ekki neitt, heldur að skattaálagningin að þessu leyti hreyfist til og frá eftir því, sem verðhækkanir eða verðlækkanir kunna að verða í þjóðfélaginu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð við þessa 1. umr. um þetta frv. Það er skoðun okkar flm., að öll þau atriði, sem frv. tekur til, séu sanngirnismál, og hefði verið betur, að það hefði verið búið að taka þau fyrir fyrr og leiðrétta. Það er persónuleg skoðun mín, að við hefðum getað stefnt fram hjá mörgum erfiðleikum, sem við höfum átt við í þessu þjóðfélagi og ekki sízt nú á síðasta ári, í lok ársins, ef hliðsjón hefði verið tekin af slíkum tillögum fyrr og þeim komið í framkvæmd.

Ég skal ekki víkja nánar að því, að það kemur að vísu fram í ýmsum ráðagerðum og ákvörðunum, sem gerðar voru í lok ársins, að margt, sem þar var gert í sambandi við lausn allsherjarverkfallsins, var að nokkru leyti á svipuðum grundvelli eins og sumar þeirra till., sem hér eru fram bornar. En þá er augljóst mál, að það er rétt, sem ég segi, að ef þetta mál hefði fyrr verið tekið til úrlausnar og framkvæmda, þá hefði betur farið.

Það er svo að sjálfsögðu alltaf nokkrum vanda bundið að ganga frá frv. um breytingar á skattalöggjöfinni, slíku sem þessu. Við flm. munum að sjálfsögðu taka feginsamlega öllum ábendingum og breytingum til batnaðar á þessu frv., þar sem okkur kann að hafa yfirsézt og einhverjir hlutir mega betur fara, og höfum að sjálfsögðu ekkert á móti því, þó að eitt og annað sé í þessu frv. leiðrétt, ef meginatriðum málsins er haldið óskemmdum. Ég vil alveg hafa fyrirvara um það, að okkur kunni að hafa yfirsézt í einhverju af því, sem við höfum fram sett hér tölulega, og þá erum við reiðubúnir til þess að leiðrétta það, ef grundvallarsjónarmiðin fá að haldast. Vona ég svo, að þetta frv. fái góðar undirtektir þingsins, og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjhn.