14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

10. mál, áburðarverksmiðja

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér vitanlega er enginn ágreiningur hér á hinu háa Alþingi um nauðsyn áburðarverksmiðjunnar. Ég veit ekki betur, en allir hv. þm. séu á einu milli um það, að hér sé um hið mesta þjóðþrifafyrirtæki að ræða, sem mjög ánægjulegt er, að í skuli hafa verið ráðizt hér á Íslandi. En einmitt vegna þess, hversu sammála menn eru um nauðsyn þessa fyrirtækis, þeim mun meiri ástæða er til þess að ræða það ýtarlega, hvort það skipulag, sem tekið hefur verið upp á rekstri og fjármálum verksmiðjunnar, sé æskilegt eða ekki. Og það er um þetta atriði, sem ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum.

Ég er þeirrar skoðunar, að á þessu áburðarverksmiðjumáli hafi verið mjög illa haldið, löggjöfin um málið sé vægast sagt óheppileg og skipulag verksmiðjunnar, sérstaklega á fjármálum hennar, sé mjög óheppilegt. Má ég minna hv. þm. á það, hvað hér er í raun og veru um að ræða? Það er gert ráð fyrir því, að áburðarverksmiðjan muni kosta uppkomin um 108 millj. kr. Þar af leggur ríkissjóður sjálfur fram 104 millj. Einkaaðilar leggja fram aðeins 4 millj., milli 3 og 4% af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Af þeim 104 millj., sem ríkið leggur fram til fyrirtækisins, leggur það aðeins 6 millj. kr. sem hlutafé, en 98 millj. kr. sem lán. Af þessum 98 millj. hefur íslenzka ríkið fengið tæpan helming, eða rúmar 40 millj. kr., sem óafturkræft framlag frá Bandaríkjunum. Hinn hlutann, tæplega 50 millj., hefur ríkisvaldið fengið sem lán. Áburðarverksmiðjan fær aftur á móti ekki þessar rúmar 42 millj. sem gjöf, heldur eru þær skoðaðar sem skuld hjá henni, þ.e.a.s., hún verður að endurgreiða í mótvirðissjóðinn þetta fé, eins og hún verður að endurgreiða hin erlendu lán.

Ríkið hefur m.ö.o. lagt fram svo að segja allan stofnkostnað áburðarverksmiðjunnar, 104 af 108 millj. Hvernig er nú háttað áhrifa valdi ríkisins á stjórn stofnunarinnar? Henni er stjórnað af 5 mönnum. Þar af hefur ríkið að vísu meiri hluta, 3 stjórnarmeðlimi, en þeir eru þó ekki kosnir af ríkisstj., valdir af ríkisstj., heldur af sameinuðu Alþingi hlutfallskosningu, þannig að vel gæti svo farið, ef þingið yrði þannig skipað, að stjórnarandstaðan fengi 1 manninn af þessum 3, að ríkisvaldið, þ.e. þeir aðilar, sem ráða ríkisvaldinu á hverjum tíma, hafi raunverulega ekki nema 2 af 5 mönnum í stjórn verksmiðjunnar. Tveir af þessum 5 mönnum eru aftur á móti kosnir af þeim einkaaðilum, sem lagt hafa fram fé til verksmiðjunnar. M.ö.o., einkaaðilar, sem leggja fram 4 millj. af 108 millj:, ráða 2/5, ráða 40% í stjórn verksmiðjunnar. Það er auðséð, að hér er einkaaðilunum, sem leggja fé fram, gefinn margfaldur áhrifaréttur á við það, sem þeim ber, miðað við sitt fjárframlag. Þessir einkaaðilar eru þrír. Kaupfélögin í landinu hafa lagt fram 2 millj., ýmsir einstaklingar hafa lagt fram 11/2 millj., en Reykjavíkurbær hefur lagt fram 1/2 millj. Og þessum þremur flokkum einkaaðila er með þessu fyrirkomulagi gefinn margfaldur áhrifaréttur á málefni verksmiðjunnar, miðað við það, sem þeir ættu að hafa að tiltölu við það fé, sem þeir hafa lagt fram.

Þetta tekur til valdaaðstöðunnar í fyrirtækinu. En athugum nú, hvernig er með fjármál þess, hver áhrif þetta kynni að hafa á fjármál fyrirtækisins í framtíðinni. Auðvitað verður ekki um það sagt með neinni vissu fyrir fram, hvort fyrirtækið muni græða eða tapa og þá hversu mikið. En það er alveg augljóst mál, að fyrirtækið þarf ekki að græða mjög verulega, miðað við væntanlega veltu þess, til þess að gróðinn, sem það safnar, nemi fljótlega 70 milljónum, eða jafnmiklu og hlutaféð. Þá hefur hlutaféð m.ö.o. tvöfaldazt, vaxið um 100%. Ef einhvern tíma kemur að því, að þessu fyrirtæki verði slitið, þá mundi slíkur gróði hafa í för með sér, að hlutaféð yrði borgað út með tvöföldu verði. Og þá hefðu auðvitað einkaaðilarnir, sem eiga 4 millj. kr. í fyrirtækinu, fengið í gróða jafnmikið og þeir upphaflega lögðu frara sem stofnfé. Í raun og veru er alveg óþarfi að bollaleggja nokkuð um það, hvað muni verða gróði fyrirtækisins í framtiðinni, vegna þess að hvað þessi fjárhagsatriði snertir höfum við miklu einfaldari og augljósari atriði við að styðjast. Í sjálfum lögum verksmiðjunnar er gert ráð fyrir því, að lagt sé í varasjóð allt að 3% af kostnaði við framleiðsluna. Í þeirri rekstraráætlun, sem fyrst fylgdi frv., þegar það fyrst var lagt fram, var gert ráð fyrir því, að varasjóðstillag verksmiðjunnar yrði 1/2 millj. á ári, 500 þús. kr. á ári. Nú verður auðvitað verðpólitík verksmiðjunnar hagað þannig, að það verði að minnsta kosti hægt að mynda þennan varasjóð. Þá sjáum við, að á 20 árum aðeins verður varasjóður verksmiðjunnar orðinn jafnmikill og hlutaféð. Þó að ekkert gerist annað, þó að fyrirtækið græði ekki neitt, ekki eyri umfram hin lögskipuðu varasjóðstillög, þá tvöfaldast hlutafé verksmiðjunnar. Ef hlutafélagínu verður slitið eftir 20 ár, þá fengju hluthafarnir útborguð sín bréf á tvöföldu nafnverði, með 100% hagnaði. Í raun og veru þarf ekki um þetta að fara fleiri orðum. Sjálf lögin fyrirskipa það, eins og frá þeim er gengið, að hlutaféð skuli tvöfaldast að verðmæti á hverjum 20 árum. Þetta er auðvitað rangt. Það, sem hér átti auðvitað að gerast, var það, að hlutafé verksmiðjunnar yrði ákveðið sem næst stofnkostnaði hennar, eða rúmar 100 millj., og þar af átti ríkið vitanlega að fá sem svarar sínu 104 millj. kr. framlagi og einstaklingar hlutafé, sem svaraði sínu 4 millj. kr. framlagi. Þá hefði 10 millj. kr. varasjóðstillag á 20 árum auðvitað ekki þýtt tvöföldun á hlutafénu, heldur vöxt á hlutafénu. um 10%. Og það er eðlilegt og réttmætt, miðað við stofnkostnað verksmiðjunnar.

Á það hefur verið bent, að það fyrirkomulag, sem hér hefur verið tekið upp, hafi þegar hlotið sína reynslu í Eimskipafélagi Íslands, vegna þess að Eimskipafélagið sé skipulagt með nokkuð svipuðum hætti. Mér finnst það vera undarlegt, ef það er vitnað í reynsluna af Eimskipafélaginn hvað þetta snertir sem eins konar fyrirmynd til eftirbreytni. Og allra undarlegast þykir mér, ef hv. Framsfl., annar núverandi stjórnarflokkur, vísar í reynsluna af Eimskipafélaginu sem eftirbreytnisverða fyrirmynd. Sannleikurinn er sá, að reynslan af Eimskipafélagínu einmitt hvað þetta snertir hefur verið afleit, og það hefur einmitt verið hv. Framsfl., sem hvað eftir annað á liðnum árum eða áratugum hefur bent á það, að þetta fyrirkomulag í Eimskipafélaginu hafi gefizt mjög illa. Og hvað eftir annað hafa merkir og ágætir framsóknarmenn rætt mjög um það, að nauðsyn bæri til þess að breyta Eimskipafélaginu í annað heppilegra og skynsamlegra form, og gagnrýnt einmitt þetta sams konar samkrull í Eimskipafélaginu og nú á sér stað í áburðarverksmiðjunni, gagnrýnt það mjög harðlega. Slíkt samkrull er aftur á móti fullkomlega eftir kokkabók Sjálfstfl., fullkomlega eftir kokkabók íhaldsins og braskaranna. Þeir vilja hafa slíkt ástand, til þess að allir reikningar séu sem óhreinastir og öll viðskipti sem óhreinust. Það er því ekkert undarlegt, þótt þeir hafi lagt það til og verið því fegnir, að þetta skipulag skuli hafa verið tekið upp að því er snertir áburðarverksmiðjuna. En furðulegt er það, ef svo er komið fyrir Framsfl., að hann fer að vísa í Eimskipafélagið, sem bann í áratugi hefur gagnrýnt, sem eftirbreytnisverða fyrirmynd fyrir stærsta og merkilegasta fyrirtæki Íslendinga, áburðarverksmiðjuna.

Það hefur verið á það bent, að hlutabréfaeign í áburðarverksmiðjunni geti ekki verið gróðavegur, það geti ekki orðið um að ræða neitt brask með hlutabréfin, vegna þess að í l. sé sett hámark fyrir arðgreiðslu af bréfunum, það megi ekki greiða af þeim hærri arð en 6%. Það vita allir, að slíkt hámark hefur verið á arðgreiðslu af hlutabréfum Eimskipafélagsins. Ríkið hefur sett það skilyrði fyrir skattfríðindum Eimskipafélagsins, að það greiði ekki af þeim nema 5% arð. En hefur þetta ákvæði þar komið í veg fyrir brask með hlutabréf Eimskipafélagsins? Það vita allir, hversu fjarri því fer. Með hlutabréf Eimskipafélagsins hefur verið braskað oft og einatt og mikið og illa. Og einmitt núna þessa dagana ganga þær sögur hér í Reykjavíkurbæ, — fullar sönnur á þeim veit ég ekki, — að verzlað hafi verið með nokkra tugi þúsunda af bréfum í Eimskipafélaginu fyrir margfalt verð, sumir segja tvítugfalt verð, aðrir segja fertugfalt verð, og aðrir nefna tölur þar á milli. M.ö.o., það getur margt orðið til þess, að braskað sé með hlutabréf í fyrirtæki, jafnvel þótt opinber takmörkun sé á arðgreiðslu af bréfunum, eins og reynslan þarna hefur greinilega sýnt. Auk þess er Eimskipafélagið orðið slíkt vandamál í þjóðfélaginu, að því félagi er óslítandi í raun og veru. Það verður ekki betur séð en Eimskipafélagið muni verða, hversu slæmt sem það er, eilíft, vegna þess að fjármál þess eru þannig, að það væri mjög erfitt að slíta því. Það kæmu upp mörg torleysanleg fjárhagsvandamál, ef félaginu yrði slítið. Það yrði þá varla komizt hjá að skenkja nokkrum fésterkum mönnum, jafnvel bröskurum, svo óheyrilega fjármuni, að það mun væntanlega engum ráðamönnum koma til hugar. En ef Eimskipafélaginu yrði einhvern tíma slitið, þá væri varla hægt að gera það öðruvísi. Það er þetta ástand, sem er auðvitað alveg óþolandi. Og það er þessi reynsla af Eimskipafélaginu, sem vissulega hefði ekki átt að verða til eftirbreytni. Það, sem einmitt hefur gerzt hér, er, að það skipulag í Eimskipafélaginu, sem sýnt hefur svo hörmulega galla sem raun ber vitni, er tekið til fyrirmyndar fyrir áburðarverksmiðjulöggjöfinni.

Ég vildi láta þessar athugasemdir koma fram, áður en þessari umr. lýkur, og endurtaka það að síðustu, þótt ég muni fylgja þessum breytingum, sem hér er um að ræða, að ég er mjög óánægður með löggjöfina um hið merka fyrirtæki áburðarverksmiðjuna og það skipulag, sem upp hefur verið tekið á fjármálum fyrirtækisins.