17.11.1952
Neðri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

10. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera viðstaddur nú frekar en vant er. Það er raunverulega það minnsta, sem hægt væri að búast við af þeim fáu af ráðherrunum, sem eitthvað láta nú til sín taka í því að reyna að svara fyrir ríkisstj., þegar um önnur eins stórmál er að ræða eins og áburðarverksmiðjuna, að þeir haldi áfram að taka eftir og taka þátt í þeim umr., sem fram fara um þessi mál, ekki sízt eftir að hæstv. viðskmrh. í sinni síðustu ræðu var nú að bera mér svona ýmislegt frekar ljótt á brýn og meðal annars, að ég talaði af lítilli þekkingu og því meira skrumi um þessi mál.

Ég hafði í minni ræðu komið nokkuð inn á að ræða um áburðarverksmiðjuna, ef hún væri skoðuð sem þess háttar einkafyrirtæki, sem hæstv. ráðh. vildi upphaflega vera láta. Og þá var nú eins og honum þætti kasta tólfunum. M.ö.o., þegar ég hélt því fram, að áburðarverksmiðjan væri ríkiseign, væri sjálfseignarstofnun, eins og stendur í 3. gr. laganna, þá bregzt hæstv. ríkisstj. reið við og segir, að þetta sé hreinasta vitleysa, auðvitað sé hún einkaeign. Þegar ég svo fer að ræða um áburðarverksmiðjuna sem einkafyrirtæki, sem ríkið að vísu eigi ofur lítið í, þá bregðast þeir enn þá reiðari við og fara nú að bregða mér um lýðskrum og annað slíkt. Yfirleitt man ég varla eftír öðrum eins dólgshætti í framkomu af hæstv. ráðh. hér á þingi eins og hæstv. viðskmrh. í þessu sambandi. Þetta er að vísu ekki í fyrsta skipti, sem það kemur fyrir, að hann raunverulega neitar að svara, þegar beðið er um upplýsingar, og ég vil aðeins nota tækifærið enn einu sinni, — ég hef gert það áður, — til þess að minna hann á það, að hann er ekki neinn herra hér yfir þingmönnum, heldur þjónn, og honum ber að gera svo vel og svara, þegar hann er beðinn um upplýsingar um ákveðna hluti. Og svo framarlega sem það er ekki gert; þá verðum við þm. að nota okkar rétt til þess að koma fram með þá hluti, sem við gjarnan vildum láta rannsaka, þegar maður getur ekki einu sinni, hvorki í fjhn. né á Alþ., þegar umr. eru, fengið fram frá ráðh. þær upplýsingar, sem maður hefur fullan rétt á að krefjast.

Út af því hins vegar, sem hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi lögunum, þá gekk hann nú inn á, að það þyrfti breytingar á l. og þau væru raunverulega óhæf eins og þau væru. Hins vegar var hv. 2. þm. Rang. að reyna að verja l. og tala um, að áburðarverksmiðjustjórnin hefði talað við færa lögfræðinga o.s.frv., og þeir færu lögfræðingar álitu, að þau væru ágæt. Það er nú undarlegt, ef ekki er hægt að fá frá lögfræðingunum svona nokkuð mismunandi álit um hlutina. Ég býst við, að það að vera lögfræðingur þýði nú ekki um leið, að það allt saman, sem einn lögfræðingur segir, sé álitið þar með óvefengjanlegur úrskurður. Og ég vil mínna hv. 2. þm. Rang. á, að það var nú lögfræðingur, sem var að tala rétt á undan honum og lýsa því, að ekki væru nú rétt góð lögin um áburðarverksmiðjuna, og það var einmitt sá lögfræðingur, sem hafði verið forsrh. í þeirri ríkisstj., sem áburðarverksmiðjulögin voru samþ. í.

Hæstv. viðskmrh. hélt því fram, að þetta fyrirkomulag viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni væri alveg fyrirmyndar fyrirkomulag, svona ætti þetta að vera, þetta væri alveg tilvalið: Fyrirtæki með 10 millj. kr. hlutafé. Ríkið á 6 millj., einstaklingar eiga 4 millj. kr. Ríkið lánar því svo 98 millj. kr., og það skalta þeir og valta með, á slæmu máli, það fara þeir með rétt eins og þeim þóknast, þessir, sem eiga 4 millj. og ráða, eins og ég mun nú sýna fram á, yfir hinum sex. M.ö.o., þetta er fyrirmyndin, sem við eigum von á, á næstunni, að Sjálfstfl. og þá að öllum líkindum Framsfl. líka fari að framkvæma í ríkisrekstri. Þetta er samtengingin á hagsmunum einstaklinganna og hagsmunum ríkisins, eða réttara sagt, þetta á að vera aðferðin til þess að gera vald ríkisins og eign ríkisins undirorpið hagsmunum nokkurra einstaklinga. Og röksemdirnar fyrir þessu hjá hæstv. viðskmrh. eru þær, að með þessu móti verði fyrirtækið miklu betur rekið. Og þá skulum við koma að því. Hann segir, að það verði miklu betur rekið, og þá ætla ég að leyfa mér að spyrja: Fyrir hvern? — Og ég verð þá að koma fram með það hér opinberlega, fyrst hæstv. viðskmrh. hefur engar upplýsingar gefið fram að þessu, hvernig það er með rekstur þessarar áburðarverksmiðju, það sem af er. Hæstv. ráðh. hefur sagt, að ríkissjóður hefði öll ráð hennar í sinni hendi. Ég er nú satt að segja ákaflega hræddur um, að það sé nú frekar einn einasti maður, sem hefur öll ráð hennar í sinni hendi. Ég á við Vilhjálm Þór. Ég er ákaflega hræddur um, að ríkissjóður hafi bara alls ekki haft rétt mikil áhrif og skipt sér sérstaklega mikið af áburðarverksmiðjunni, það sem af er. Ég er ákaflega hræddur um, að þeir aðilar, sem þar eru í stjórn, og þá fyrst og fremst þessi maður, sem ég nefndi, hafi haft þar hin raunverulegu völd og ráð. Og ég vildi leyfa mér að óska eftir, að hér verði lögð fram til fjhn. eða til Alþ. útboðin, sem fram hafa farið viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni, og tilboðin, sem borizt hafa. Svo framarlega sem ríkissjóður og þar með Alþ. á að hafa öll ráð þessarar verksmiðju í sinni hendi, þá er rétt, að við fáum þessa pappíra á borðið. Og fyrst það gengur svo erfiðlega að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðherrum og skilagreinar til fjhn. og upplýsingar um það, sem við biðjum um, þá verður maður að krefjast þess hér opinberlega á þinginu.

Hv. 3. landsk. sýndi hér fram á það með tilvitnunum í lagagreinina, að bara með því að framfylgja l., þá mundi vera líklegt, að einstakir hluthafar mundu geta verið búnir að græða upp sína hluti og jafnvel meira, en það eftir til dæmis 20 ár. Ég er ákaflega hræddur um, að það kynni nú svo að fara, að þeir þyrftu sumir ekki einu sinni að biða svo lengi eftir að vera búnir að græða upp sína hluti og sitt hlutafjárframlag. En ég vil spyrja: Hefur einn af hluthöfunum í Áburðarverksmiðjunni h/f nú þegar fengið greitt meira í umboðslaun af þeim vélum, sem keyptar hafa verið inn til áburðarverksmiðjunnar, heldur en nemur hlutafjárframlaginn, sem viðkomandi hluthafi lagði fram? Það er bezt, að hér á Alþ. fari hlutirnir að koma algerlega fram í þessu sambandi um, hvað verið sé þarna að gera. Ef ráðherrarnir neita svona eins og þeir hafa gert undanfarið að svara þeim spurningum, sem þingmenn bera fram, og það er ekki hægt í nefndunum að fá upplýsingar um þá hluti, sem eru að gerast, þegar ríkið setur stórfé í fyrirtæki, þá er ekki nema eðlilegt, að við verðum að koma fram með þá hluti hér opinberlega og spyrja að því, sem við ekki getum fengið upplýsingar um í nefndum.

Ég býst við, að það þurfi fyllilega að fara að athuga, hvernig verið er að tengja saman á hendur örfárra manna hér í þjóðfélaginu svo að segja allt fjárhagslegt vald. Og þegar jafnvel sömu mennirnir, sem eru að tengja þannig allt fjárhagslegt vald þjóðarinnar undir sinni stjórn, liggja undir ákærum frá ríkinu fyrir að brjóta stórkostlega lagafyrirmæli viðvíkjandi verðlagningu, en sitja sjálfir í stjórnum voldugustu fyrirtækja landsins, fyrirtækja, sem velta hundruðum milljóna króna og eiga jafnvel og ráða yfir í stofnfé yfir hundruðum milljóna króna, sitja þar að auki í helztu stofnunum ríkisins, þá fer að verða nauðsyn hér á Alþ. að fara að spyrja að því, hvort allt vald í fjármálum og efnahagsmálum Íslands sé komið út fyrir þingveggina og hvort þingmenn geti ekki einu sinni fengið lengur að fylgjast almennilega með því, sem er að gerast með sjálf ríkisfyrirtækin, hvort það eigi að stela fyrirtækjum ríkisins af þjóðinni og setja þau undir vald örfárra manna. Það er fyllilega vert að vekja eftirtekt á því, hvað hér er að gerast. Það er eins og það sé verið að gera þetta Alþ. aftur að ráðgefandi þingi. Ráðherrarnir láta ekki svo mikið sem að sýna sig hérna. Og á sama tíma eru ránshendur látnar sópa um eignir ríkisins og tekjur almennings og lagðir tollar, sem nema tugum millj. króna, eins og bátaútvegsgjaldeyririnn, á þjóðina, án þess að nokkur lagabókstafur sé fyrir, og þegar ráðherrar eru krafðir reikningsskapar hér á Alþ. fyrir þessar aðgerðir sínar, þá neita þeir að svara og stökkva út. Ég segi þetta til þess að vekja eftirtekt á, hvert hér er komið með spillingunni og með valdaráninu í þessum efnum. Og það er svo sem auðséð líka, hvert stefnt er áfram. Ég vakti athygli á því við umr. um þessi mál í fyrra, að ef svona ætti að fara að eins og núna er, að láta áburðarverksmiðjuna, eins og ríkisstj. vill, verða eign þessa hlutafélags, í staðinn fyrir að hún ætti að vera rekstrarfélag, eins og ég álit eftir lögunum, þá mundi það þýða, þegar fram í sækti og þegar þörf væri á því að stækka þessa áburðarverksmiðju eða skapa nýjar áburðarverksmiðjur, — og við vitum það allir, að áburðarverksmiðjur eru áreiðanlega eitt af því, sem kemur til með að koma upp í mjög ríkum mæli hér á Íslandi, — þá mundi verða farið í fótspor þess, sem nú hefur verið gert, þannig að það mundi verða hægt, þó að byggð verði hér stærri verksmiðja en þessi, 6 þúsund tonna, að reyna að láta hana verða í eign einstaklinga líka, en ekki þjóðarinnar. Og ég sé, að það muni strax hafa vakað fyrir þeim, sem stofnað hafa áburðarverksmiðjuna. Í Lögbirtingablaðinu 10. marz 1951 er tilkynning um stofnun Áburðarverksmiðjunnar h/f: Þar er tekið fram, að stofnendur séu Vilhjálmur Þór forstjóri, Hofsvallagötu 1, Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, Sólvallagötu 36, Jón Jónsson framkvæmdastjóri, Ránargötu 35 A, Jón Ívarsson framkvæmdastjóri, Víðimel 42, Gunnlaugur E. Briem skrifstofustjóri, Hávallagötu 43, Pétur Guðjónsson, Brávallagötu 18, Hulda Bergþórsdóttir, Nökkvavogi 1. Síðan er tekið fram um stjórn fyrirtækisins.

Hvernig stendur nú á því, að Áburðarverksmiðjan h/f skuli vera stofnuð með þessum hætti, stofnuð eins og þetta væri eitthvert venjulegt prívathlutafélag, þar sem meira að segja þeir menn, — við skulum segja eins og Vilhjálmur Þór, — sem kosnir eru af ríkinu, verða að koma fram sem einstaklingshluthafar til þess að fullnægja skilyrðum hlutafélagalaganna, sem þýðir það, að þessir menn eru um leið hluthafar þarna sem einstaklingar? Af hverju er verið að þessu, í staðinn fyrir að ganga svoleiðis frá l. um áburðarverksmiðjuna, að það þurfi ekki að fara að stofna þetta hlutafélag, ef það á að verða í praksís eins og hvert annað firma? Sjá menn ekki, hvað þetta er óviðfelldið? Sjá menn ekki, að þetta er óþolandi — bara vegna þess, hvert hrákasmiði er á frv., þegar það er samþykkt, og því hefur verið breytt á síðustu stundu? Svo er tekið fram áfram:

„Hlutafé félagsins er 10 millj. kr. Greitt hlutafé er kr. 2.514.750.00. Hið ógreidda er kræft, hvenær sem félagsstjórnin krefst.“

Svo stendur nokkru síðar:

„Engin sérréttindi fylgja hlutunum önnur, en þau, að hluthafar eiga í hlutfalli við hlutafjáreign sína forkaupsrétt að nýjum hlutum.“

Þetta er ákaflega venjulegt í sambandi við venjuleg hlutafélög. En af hverju er þetta sett inn í fyrirtæki, sem ríkið er að stofna? Ef ríkið ætlar að koma sér upp fyrirtæki, sem væri, við skulum segja, til að vinna úr 30 þús. tonnum, á þá að fara inn á þessa sömu braut, á þá að fara að gefa þessum hluthöfum, sem ættu þarna 4 millj. kr., væru kannske búnir, ef þessi verksmiðja gengi vel, sem við vonum, að græða stórfé á því, — á þá að fara að gera þeim auðveldari hlutdeild í slíku? Bara þessi tilkynning í Lögbirtingablaðinu er eitt dæmið um það, hve óhæf þau lög eru, sem hér er um að ræða.

Þá komum við að því, hvar reglugerðin viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni sé. Hvar er reglugerðin, þar sem lagt er fyrir, að þeir þrír, sem kosnir eru af Alþingi, skuli heyra undir Alþingi eða ríkisstjórnina og verða að framfylgja fyrirmælum ríkissjóðs, eins og hæstv. viðskmrh. vildi vera láta? Ég býst við, að slík reglugerð sé ekki til. Ráðh. hefur ekki fengizt til að svara því, hvort slík reglugerð er til. Ráðh., sem segir, að ríkissjóður hafi öll völd, öll ráð þessarar verksmiðja í sínum höndum, fæst ekki til þess að gefa upplýsingar um það, hvort þeir þrír menn, sem kosnir eru af Alþ., verði að heyra undir t.d. fyrirmæli fjmrh. sem fulltrúa ríkissjóðs, ef um það er að ræða. Engin reglugerð er til um það. Engin fyrirmæli eru til um það og þess vegna aðeins það eitt, sem stendur í lögunum um það. Ég vil bara vekja eftirtekt manna á, hvernig verið er að fara með almenningseign í þessu sambandi.

Svo skal ég halda áfram viðvíkjandi því, sem hefur nú verið deilt mjög harðvítuglega á mig fyrir hér í umr., og ég skal nú sanna, að ég hafi ekki farið með neitt fleipur. Það var sagt, að það væri algerlega rangt, að það væri raunverulega um 200 millj. kr., sem ríkið hefði lagt fram af fé, til þess að þetta fyrirtæki, áburðarverksmiðjan, gæti gengið. Og hv. 2. þm. Rang. deildi mjög á mig fyrir þetta fleipur, og hæstv. viðskmrh. virtist verða hálftaugaveiklaður út af því að heyra þessa upphæð nefnda, eins og honum þætti það eitthvað lakara, að svo há upphæð skyldi vera tengd við áburðarverksmiðjuna. Ég hafði líka í þessu sambandi komið að því, að það væri á ýmsan hátt, nema vel yrði við brugðið af hálfu ríkisvaldsins, gengið mjög hart að hagsmunum neytenda. Og ég skal nú sanna mínar fullyrðingar viðvíkjandi þessu betur en ég gerði í þeirri ræðu. Því er ómótmælt, að áburðarverksmiðjan á, ettir upplýsingum ríkisstj. sjálfrar, að kosta 108 millj. kr., að einstaklingar leggja fram 4 millj., að ríkið leggur fram 104 millj. Og þó vil ég segja, að frekar er ég hræddur um, að þessi upphæð, 108 millj. kr., verði hærri, þegar búið er að reisa áburðarverksmiðjuna, heldur en að hún verði lægri. En svo skulum við athuga, hvaða hlutdeild er eðlilegt að reikna áburðarverksmiðjunni í nýju Sogsvirkjuninni, hvaða hlutdeild er eðlilegt að segja, að ríkið, a.m.k. í svipinn, leggi fram vegna áburðarverksmiðjunnar í hina nýju Sogsvirkjun. Það þótti þá fram úr hófi, að ég skyldi segja, að það væru upp undir 100 millj. kr., sem mætti áætla henni. Almenningsnotkunin, sem reiknað er með að verði, eftir að nýja Sogsvirkjunin tekur til starfa, er í kringum 188 millj. kílówattstunda. Það, sem áburðarverksmiðjunni er ætlað, er hins vegar um 130 millj. kílówattstunda. Hvað þarf til þess að framleiða 130 millj. kílówattstunda í orkuveri, sem gengur allt árið, dag og nótt, 8.600 klukkutíma? Hvað þarf stórt orkuver? Það þarf orkuver, sem framleiðir rúm 15 þúsund kílówött. M.ö.o., það þarf rétt tæpan helminginn af þeirri orku, sem nýja Sogsvirkjunin kemur til með að framleiða, til þess að framleiða þá orku, sem þarf handa áburðarverksmiðjunni, ef reiknað er í kílówattstundum. Nýja Sogsvirkjunin kostar sjálfsagt um 190 millj., og við skulum segja, að það séu öll líkindi til, að það komi til með að standast. En ef rétt tæpan helming af þeirri fjárfestingu þarf til þess að framleiða það, sem áburðarverksmiðjan annars hefði þurft, er þá ósanngjarnt að setja það fram, að það séu upp undir 100 millj. kr., t.d. milli 90 og 100 millj. kr., sem ríkið leggi í nýja fjárfestingu núna í svipinn vegna áburðarverksmiðjunnar? Ég held ekki. Ég held, að það sé alveg eðlilegt, og hitt er rétt, að áburðarverksmiðjan hefði orðið að byggja stærra orkuver, ef hún hefði ætlað að byggja orkuver handa sér. M.ö.o., það er engin spurning um það, að ríkið, þjóðfélagið í heild, er að láta í té um 200 millj. kr. í fjárfestingu nú sem stendur til áburðarverksmiðjunnar og til þess hluta af Sogsvirkjuninni, sem raunverulega þurfti að gera eða hefði ella þurft að gera vegna áburðarverksmiðjunnar.

Þá er að öðru leyti, hvort almenningur leggi ekki að sér vegna þess, að áburðarverksmiðjunni er komið upp. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að mér væri óhætt að vera alveg áhyggjulaus viðvíkjandi Reykvíkingum og Sunnlendingum yfirleitt út af rafmagnsmálum, þriðja virkjun Sogsins væri í undirbúningi. Vissi ég það áður, að hún var í undirbúningi, og ég hef nú frekar reynt að ýta undir þann undirbúning, heldur en hitt. En það er ekki nóg, að hún sé í þeim tæknilega undirbúningi, sem hún er. Það þarf meira til. Það þarf fjármagn, sem ríkisvaldið verður að tryggja, og ríkisvaldið verður að tryggja það fjármagn einmitt vegna þess sérstaklega, hvernig ríkisvaldið nú hefur knúið það fram, að svo mikið rafmagn verði tekið til handa áburðarverksmiðjunni. Ég vil í því sambandi segja: Rafmagnið, sem áburðarverksmiðjan fær, á að kosta milli 3 og 4 millj. kr., ef maður reiknar að meðaltali um 2,6 aura á kílówattstundina. Kostnaðurinn hins vegar við hina nýju virkjun Sogsins á ári verður um 15 millj. kr. Það er engum efa bundið, að með tilliti til hagsmuna áburðarverksmiðjunnar hefur verið pínt niður verðið á rafmagninu, þannig að áburðarverksmiðjan býr núna eftir þeim samningum, sem hún nú hefur fengið, við ákaflega hagstætt verð á rafmagni. Þetta verð hefur verið pínt niður með því móti, að Reykvíkingar og Sunnlendingar hafa raunverulega orðið að afsala sér öllum hagnaði, sem þeir hafa þó haft af gömlu virkjununum, til þess að það væri hægt að reikna út svona lágt verð handa áburðarverksmiðjunni, og ríkisstj. hefur, veit ég, lagt alveg gífurlega áherzlu á og þrýst skarplega á til þess að knýja það fram, að áburðarverksmiðjan fengi 15 ára samning við Sogsvirkjunina. Og ég þykist alveg vita, af hverju svona gífurleg áherzla var lögð á að pína þennan samning fram eins og hann var gerður. Það var gert vegna þess, að það þurfti að sýna bönkunum vestan hafs, Alþjóðabankanum og Import-Export-Bank, þennan samning, þannig að það væri hægt að veifa svona góðum samningi framan í þá, til þess að þeir fengjust til þess að láta lánin í té til handa áburðarverksmiðjunni, m.a. þetta lán, sem við erum að ræða um hér. Þetta þýðir m.ö.o.: Það er gengið ákaflega hart að almenningsnotkuninni hérna. Það eru knúnir fram ákaflega hagstæðir samningar fyrir áburðarverksmiðjuna um að láta henni í té rafmagn, sem er 2/3 að magni til af því, sem nýja Sogsvirkjunin framleiðir, fyrir verð, sem er aðeins fimmti hlutinn af þeim kostnaði, sem verður rekstrarkostnaður nýju Sogsvirkjunarinnar á ári, og þó væri allt þetta í lagi og hagstætt á vissan hátt fyrir Sogsvirkjunina, svo framarlega sem bara einu skilyrði er fullnægt, því skilyrði, að innan 3–4 ára væri búið að koma upp nýrri stöð, sem tekin væri til starfa, nýrri stöð, sem framleiðir 20 þús. kílówött, eða við skulum segja stöð, sem væri eins og þriðja virkjun Sogsins. Og það er að mínu áliti það, sem er það eðlilega skilyrði af hálfu Sogsvirkjunarinnar til áburðarverksmiðjunnar og ríkisvaldsins, að það sé gefin trygging fyrir þessu.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að þriðja virkjunin væri í undirbúningi. Ég vil hér koma með þá fsp. til hæstv. ríkisstj.: Er ríkisstj. reiðubúin til að tengja við það frv., sem hérna liggur fyrir, lánsheimild til þess að setja í gang þriðju virkjun Sogsins, og starfið að henni þarf þá eðlilega að hefjast næsta sumar með þeim vélum, sem nú hefur verið unnið með uppi við Írafoss? M.ö.o., það þarf þá að samþykkjast á þessu þingi lánsheimild og fjárveitingarheimild fyrir upp undir 100 millj. kr. til þriðju virkjunar Sogsins, svo framarlega sem öruggt á að vera, að það sé hægt að koma þeirri virkjun upp í siðasta lagi 1956. Svo fremi sem slíkri virkjun ekki er komið upp fyrir 1956, þá vofir ný katastrófa yfir rafmagnsmálum Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. Þá vofir sami gjaldeyrisskorturinn, sami rafmagnsskorturinn yfir eins og núna er. Þá vofir sama stöðvunin yfir í fjöldanum öllum af iðnfyrirtækjum, eins og nú er hvað eftir annað með þeirri skömmtun, sem er á rafmagninu. Og þá vofir það yfir, sem núna er staðreynd, að olíustöðin, varastöðin við Elliðaár, er látin ganga mikinn hluta sólarhringsins fyrir útlendan gjaldeyri, fyrir útlendri orku, og framleiða kílówattstundina kannske á 25–30 aura, sem sé 25-30-falt verð við það, sem áburðarverksmiðjan á að fá. M.ö.o., svo framarlega sem Sogsvirkjuninni er ekki lokið fyrir 1956, þá þýðir það, að Reykjavíkurbær verður að framleiða rafmagn handa sínum íbúum fyrir um 30 falt verð við það, sem áburðarverksmiðjan fær rafmagn fyrir í afgangsorku. Þetta er það, sem vofir yfir. Og sem stendur hefur Sogsvirkjunin enga tryggingu fyrir því, að þessi þriðja virkjun, sé hafin og komist í gang, og það er of seint að fara að rífast í þessum málum 1956, þegar skorturinn á rafmagni kemur til með annaðhvort að stöðva svo og svo mikinn hluta af öllum rekstri í Reykjavík hjá iðjuverum hér og hjá almenningi eða þá að stöðva áburðarverksmiðjuna. Ég vek eftirtekt á þessu nú, og ég kem fram með þá spurningu nú til ríkisstj., hvort hún sé reiðubúin til þess að bæta aftan við þetta frv. eða koma með í nýju frv. ákvörðun um það að heimila henni að taka þá fjárhæð að láni, sem þarf til þess að leggja í þriðju virkjun Sogsins, og ég mun, svo framarlega sem ríkisstj. þegir jafnt við þessum spurningum mínum eins og hún hefur þagað við öðrum, koma fram með till. um slíkt við 3. umr., ef ég verð ekki þá búinn að fá, hér eða annars staðar, einhverja tryggingu fyrir því, að slíkar till. komi fram með öðru móti.

Það er ekki hægt hvort tveggja í senn, að ætla að koma fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjunni úr höndum ríkisins og undir stjórn einstaklinga og vald einstaklinga og heimta um leið, að almenningur sé látinn fórna stórkostlega fyrir þessi fyrirtæki og verði að liða við það, að þau hafi komizt upp, eftir nokkur ár, svo framarlega sem ekki er undinn bugur að þriðju virkjun Sogsins, og það þarf meira til þess heldur en það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að þetta væri í undirbúningi. Þetta er lengi búið að vera í tæknilegum undirbúningi, og rannsóknir hafa lengi farið fram, og þetta hefur lengi verið rætt hjá ábyrgri stjórn Sogsvirkjunarinnar, en það, sem vantar, er lánsheimildin og fjárveitingarheimild hér frá Alþ. til þessa. Það má vera, að óvilji hæstv. viðskmrh., sem er þingmaður fyrir Reykvíkinga, að ræða þessi mál, stafi að einhverju leyti af því, að hann sjái fram á, bæði hér í Reykjavík og á Suðurlandsundirlendinu, ef svo á að fara, að áburðarverksmiðjan, ef ekki verði komið upp í tíma þriðju virkjun Sogsins, gleypi það mikið af rafmagni, að það verði farið að skammta rafmagnið enn þá harðvítuglegar, en nú er gert eða neita mönnum um að nota rafmagnið til ákveðinna hluta, eins og t.d. til hitunar, og kynda svo samtímis olíustöðina, eins og nú er gert, með þeim hrottakostnaði, sem af því leiðir.

Ég vil nú bjóða þeim hæstv. ráðh. og þm., sem hafa borið brigður á minn útreikning viðvíkjandi 200 millj. kr. fjárfestingunni, að hrekja þær tölur, sem ég nú hef sett fram, og ég býst ekki við, að þeir geti það. Það er engum efa bundið, hvaða fjárfestingu þetta heimtar. Hitt er aftur á móti alveg rétt, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að þessi virkjun áburðarverksmiðjunnar þrýstir á, hún rekur á eftir, og að því leyti er hún mjög heppileg. Hún rekur á eftir virkjununum, ef ekki á allt að lenda í öngþveiti. Hún rekur á eftir, þannig að það verður að leggja í þriðju virkjun Sogsins miklu fyrr þess vegna, og það er vissulega það góða við hana, en það er því aðeins það góða við hana, að þetta sé þá gert, að ráðizt sé í þriðju virkjun Sogsins nægilega snemma.

Þá vil ég segja aðeins nokkur orð út af sjálfum rekstrinum á áburðarverksmiðjunni. Ég setti hér fram þá ósk, hvort hægt væri að fá að sjá rekstraráætlunina eins og hún nú liti út. Það er svo sem ekki orðið við þeirri ósk, frekar en öðrum viðvíkjandi því, að þm. sjái, hvað er að gerast í þessu fyrirtæki. Nú sem stendur mun áburður erlendis kosta um 10.500 kr. tonnið. Með 6 þús. tonna framleiðslu í þessari verksmiðju mætti því ætla, að hún framleiddi áburð, sem miðað við útlent verð mundi kosta um 20 millj. kr., og það er það, sem við mundum spara þá eða afla okkur í útlendum gjaldeyri með þessari áburðarverksmiðju, sem sjálf kostar um 100 millj. kr. eða rúmlega það og krefst fjárfestingar í rafmagni upp á svipaða upphæð, en ég skal líka taka fram, að það er fjárfesting, sem er mjög æskileg, svo framarlega sem hún gengur nógu ört, en skaðleg, ef það gengur of hægt með nýjar virkjanir. Vissulega er það mjög ánægjulegt að geta sparað að kaupa áburðinn erlendis frá. Þó vil ég, út af því, hve hæstv. viðskmrh. deilir nú oft á Sósfl. og ekki sízt mig fyrir þá fjárfestingu, sem við áttum hlut að á sínum tíma, segja honum, að ólíku skynsamar var varið hvað snertir öflun erlends gjaldeyris þeim 100 millj. kr., sem settar voru í togarana hér á árunum, og ólíkt meira gefur það í gjaldeyri fyrir þjóðina. En látum það nú vera. Því var haldið fram hér af hv. 2. þm. Rang., að bændur mundu með ánægju borga hærra verð fyrir áburð úr íslenzkri áburðarverksmiðju, heldur en úr útlendum áburðarverksmiðjum. Það er nú ákaflega gott að fá þessa yfirlýsingu frá þeim þm. bænda. Ég er nú samt ekki alveg viss í, að hann tali þar fyrir munn sinna umbjóðenda um að þeir mundu borga með ánægju hærra verð. Ég veit að vísu, að íslenzka bændastéttin er ákaflega þjóðleg stétt, en að það sé alveg öruggt, að hún borgi með ánægju hærra verð fyrir íslenzkan áburð heldur en útlendan, tel ég ekki jafnvist. Og a.m.k. hef ég þá reynslu, að þeir, sem sérstaklega hafa talið sig fulltrúa bændastéttarinnar hér á þingi, vilji nú frekar reyna að telja bændur á að heimta framlög frá ríkinu með þeim hlutum, sem þeim væri gert að greiða dýrara, en þeim væri þörf á, heldur en að skora beinlínis á þá að borga með ánægju meira, en þyrfti að gera. Og ég verð að segja, að það er ekkert undarlegt, þótt íslenzk bændastétt, svo þjóðleg og hagsýn sem hún er, mundi krefjast þess af sínum fulltrúum, þegar hún færi að gera upp þessar sakir við þá, að verksmiðja, sem þeir legðu í að byggja fyrir íslenzka bændastétt, væri þannig hugsuð frá upphafi vega, að hún ætti fyllilega að geta keppt við erlendar verksmiðjur og selt íslenzkum bændum áburð ódýrari, en erlendar verksmiðjur gera, því að svo hef ég skilið baráttu íslenzkrar bændastéttar í áburðarmálunum, að sú barátta væri háð til þess að létta af þeirra herðum oki erlendra áburðarhringa, en ekki til þess að gera þá undirorpna þyngra oki, en þeir báru áður. A.m.k. var ekki úr því dregið hjá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og tímaritum þess hér á árunum, þegar áburðarhringurinn var myndaður í Þýzkalandi, hver hætta væri á ferðum fyrir hagsmuni bænda hér á þessu landi með þeirri einokun, sem undirbúin væri í áburðarmálunum, enda álít ég það sjálfsagða kröfu af hendi íslenzkrar bændastéttar, að þeir menn, sem hugsa að koma upp áburðarverksmiðju hér á Íslandi, hugsi hana þannig frá upphafi, að hún eigi að geta orðið íslenzkum bændum til hagnaðar, en ekki til tjóns. Ég vil bara minna á, ekki sízt út af þeim ádeilum, sem við sósíalistar höfum hvað eftir annað fengið hér í þinginu út af því — og nýbyggingarráð á sínum tíma — hvað við hefðum dregið áburðarverksmiðjumálið, — hvernig flana átti í þessu máli upphaflega. Þegar Vilhjálmur Þór var atvmrh. hér, þá lagði hann hér einu sinni frv. fyrir Alþ. um áburðarverksmiðju, sem átti að reisa á Akureyri og átti að framleiða 1.200 tonn af köfnunarefni. Þetta var hugsunarhátturinn hjá þeim mönnum, sem nú eru alls ráðandi í áburðarverksmiðjunni. Svona var skilningurinn á þessu. Og seinast þegar við ræddum um þetta mál hér á þinginu, þegar frv. var sett í gegn, sem nú gildir um áburðarverksmiðju, og ég benti á þetta, þá var því haldið fram af hálfu þm. og jafnvel af ráðh. Framsfl., að það hefði verið ágætt, hefði verið hægt að fara af stað með 1.200 tonna áburðarverksmiðju norður á Akureyri. Það hefði þó verið vísir.

Áburðarframleiðslan er ein af þeirri framleiðslu í veröldinni, sem er í einhverjum stærsta stíl og mest er undir yfirdrottnun einokunarinnar. Þegar þessi núverandi 6.000–7.000 tonna verksmiðja, sem nú er verið að byggja, var ákveðin með lögum hér á Alþ., þá vöruðum við sósialistar við þessu, að byggja ekki stærra frá upphafi. Og við sýndum fram á, að það væri hætta á ferðum, einmitt þegar verið væri að ráðast í stóriðju hér á Íslandi, að stíla ekki hærra í þessum efnum. Við bentum á jafnvel allt að 30 þús. tonna verksmiðju, vildum geta heimild um frá 15–30 þús. tonna verksmiðju. Við bentum á nauðsynina á virkjun Urriðafoss í Þjórsá í sambandi við þetta og lögðum fram till., sem við mæltumst til þess að yrðu af hálfu meiri hl. a.m.k. teknar til athugunar. Ég hef ekki getað fengið neinar rekstraráætlanir yfir áburðarverksmiðjuna, eins og hún nú liggur fyrir. Það er vonandi, að þessi verksmiðja geti framleitt áburð á sama verði og útlendar verksmiðjur gera og að hún geti framleitt t.d. tonnið fyrir 4.000 kr., eins og ég býst við að sé verðið erlendis. En ég vil minna á, að samsvarandi verksmiðja eins og sú, sem Sósfl. lagði til 1949, framleiðir hvert tonn a.m.k. 1.000 kr. ódýrara. Það munar það miklu á framleiðslukostnaðinum eftir því, hvort rekið er í stórum stíl eða smáum. Og hvernig stendur á því, að sá af okkur þm., sem ætti að vera kunnugastur þessum málum og sjálfur situr í stjórn áburðarverksmiðjunnar, hv. 2. þm. Rang., skuli nú vera farinn að tala um það, að íslenzkir bændur mundu með ánægju borga hærra verð fyrir áburðinn úr íslenzkri áburðarverksmiðju, nema vegna þess að hann er kannske sjálfur smeykur um, að svo kunni að fara, að áburðurinn verði ekkert ódýrari úr henni, heldur en sá útlendi?

Ég verð að segja, svo áhugasamur sem ég er og hef verið fyrir íslenzkri stóriðju og svo mikið sem ég ásamt mínum flokksbræðrum hef lagt upp úr því, að hægt væri að byrja á henni, þá þætti mér það ákaflega miður, ef fyrsta sporið á okkar braut til stóriðju gæti ekki strax sýnt þann árangur fyrir þjóðina, að hann sannaði henni yfirburði slíkrar stóriðju, sannaði henni, að hún gæti losnað undan oki og okri erlendra einokunarhringa með því að koma sér upp stóriðju sjálf. Ég vil minna á, að áður hefur verið eyðilagt fyrir okkur upphaf slíkrar stóriðju með því að byrja of smátt. Till. okkar sósíalista um 15 þús. tonna herzluverksmiðju á lýsi, sem við reyndum að framkvæma, var eyðilögð með því að koma af stað - og nota síðan sem átyllu til þess að drepa hitt — smáherzluverksmiðju, sem gat unnið úr 2.000 tonnum og sjálf borgar sig ekki núna og eigendurnir eru í vandræðum með, en er nóg til þess hins vegar, að það eyðilagði raunverulega málíð um að koma upp stórri verzluverksmiðju, sem hefði getað hert okkar lýsi og gert það alls staðar að söluhæfri vöru með góðu verði í staðinn fyrir að láta það liggja eins og það liggur núna, þannig að við erum í hreinustu vandræðum með að selja það. Þegar við hugsum um stóriðju og byrjum á stóriðju, verðum við að skilja það, sem orðið sjálft segir, að sú iðja þarf að vera í sérstaklega stórum stíl, svo framarlega sem hún á að geta borið sig fyrir þjóðina. Þess vegna er það, það lakasta, sem gert er fyrir okkur, að byrjað er á þessu of litlu, þannig að það verði tap á því og það verði til að drepa niður trúna á meira, í staðinn fyrir að byrja með það, það stórt, að það sanni alveg ótvírætt, hvílíkri gnótt auðæfa Ísland býr yfir í sínum fossum, svo framarlega sem þessi orka er hagnýtt með fyrirhyggju, en ekki flanað út í það, — með almennings hag fyrir augum, en ekki til þess að einstaklingar og einstakir aðilar geti látið greipar sópa og grætt á því. Það er allt of mikið gert að því hér — ekki sízt af hálfu hæstv. ríkisstj. að finna út í hlutina án þess að taka tillit til nokkurra ráðlegginga, án þess að gera svo mikið sem hlusta á það, sem þm. segja. Flokksvaldi ríkisstj. er vægðarlaust beitt til þess að drepa niður hverja einustu till., sem til bóta mætti verða, til þess að kæfa hverja einustu rödd, sem til viðvörunar kemur fram. Og svo er þessu valdi beitt til þess að sölsa undir sig yfirráðin yfir þeim fyrirtækjum, sem almenningur á að eiga. Þetta vald er að kæfa niður alla gagnrýni á rekstur og afskipti þess opinbera af atvinnulífinu. Með þessu móti er verið að brjóta lög og rangsnúa lögum og halda því áfram án þess að skeyta nokkurn skapaðan hlut um allar þær aðvaranir, sem fram koma hér á Alþingi, eins og gert er nú í sambandi við áburðarverksmiðjuna, í sambandi við bátaútvegsgjaldeyrinn og annað slíkt. Síðan veit ég að á að velta yfir á ríkið afleiðingunum, ef illa gengur, ef áburðarverksmiðjan skyldi ekki borga sig, en taka gróðann til einstaklinganna, svo framarlega sem vel gengur. Svona á að láta ríkið og almenning þjóna undir hagsmuni nokkurra einstaklinga, sem eru að leggja undir sig og ná yfirráðum yfir öllu fjármagni í okkar þjóðfélagi. Og mig skal ekkert undra, þótt hæstv. ráðh. þyki ekkert gaman að því að eiga að standa reikningsskap fyrir sínum gerðum hér á Alþ. og kjósi þess vegna heldur að hafa sig á brott. Það er auðséð, að hluthafarnir eiga ekki að þurfa að bíða eftir því að fá, ef áburðarverksmiðjan gengi vel og bændur borguðu með ánægju hærra verð fyrir áburðinn, heldur en hann kostar erlendis og áburðarverksmiðjan borgaði sig upp á 20 árum, — þeir eiga ekki að þurfa að bíða eftir því að fá þá 40 millj. kr. gjöf frá ríkinu í áburðarverksmiðjunni, þeir eru farnir að fá hlutina borgaða jafnvei með 100% ágóða strax. Á sama tíma er svo verið hér á Alþ. að traðka Alþ. niður. Ráðh. láta innheimta tugi millj. kr. af þjóðinni án heimilda frá Alþ., án stuðnings í l. Og ráðh. sölsa undir einstaklinga með yfirlýsingum sínum hér á Alþingi, eins og nú viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni, fyrirtæki, sem ríkið á eftir l. um áburðarverksmiðjuna, 1. –12. gr.

Ég álít, að það hneyksli, sem er að fara fram í samhandi við þessi mál, réttlæti þá hörðu ádeilu, sem ég hef hér haft í frammi út af þessum málum. Ég hef gert það vegna þess, að þess hefur ekki verið neinn kostur að fá á venjulegan hátt til okkar þm. upplýsingar um þessi mál, og hér er þó um að ræða fyrirtæki, sem ríkið og almenningur lætur raunverulega upp undir 200 millj. kr. til, sem sé langfjárfrekasta fyrirtæki, sem nokkurn tíma hefur verið lagt í á Íslandi, fyrirtæki, sem almenningur kemur til með að verða að þrengja mjög að hag sínum fyrir, svo fremi sem ekki er komið upp nú alveg á næstunni, fyrir 1956, nýrri virkjun við Sogið. Ég hef ekki getað fengið einu sinni upplýsingar í þessum umr. um, með hvaða kjörum það lán, sem frv. ræðir um, hafi verið veitt áburðarverksmiðjunni. Í lagafrv. stendur aðeins, að ríkisstj. veiti það með þeim kjörum, sem hún telji nauðsynleg, og ég man ekki eftir slíku orðalagi í sambandi við lán frá ríkinu í neinni lagahelmild, sem ég hef tekið þátt í að afgr. hér á Alþ.,ríkisstj. áskilji sér rétt til þess að mega afgreiða lán til einhvers, bara með þeim skilmálum, sem henni þykja nauðsynlegir. Ég hef þess vegna sett fram brtt. um, að lánið sé veitt aftur með þeim sömu kjörum sem það er fengið. Ég hef ekki getað í fjhn. fengið upplýsingar um það, með hvaða kjörum þetta lán var tekið. Ég hef ekki getað fengið á Alþ. upplýsingar um, með hvaða kjörum það hefur verið veitt. Svona er aftur farið að ganga fram hjá þinginu í þessum málum. Svona er farið að trampa á Alþ. Íslendinga af hálfu þeirrar ríkisstj., sem nú situr að völdum. Hins vegar eru stærri brtt., sem ég gjarnan hefði borið fram við þessa umr., en ég hef ekki viljað bera fram við þessa umr., vegna þess að ég þarf áður að geta fengið ákveðnar upplýsingar, sem ég er margbúinn að biðja um hér í þinginu, en fæ ekki enn. Ég áskil mér þess vegna rétt við 3. umr. málsins, ef þá lægi meira fyrir, að bera slíka till. fram, m.a. þá víðvíkjandi þriðju virkjun Sogsins, sem er alveg nátengd þessu máli.