11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (3458)

63. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið samferða meðnm. mínum og hef borið fram nál. á þskj. 348, þar sem ég legg til, að frv. verði fellt. Eins og ég tek fram í þessu nál., er þetta frv. raunverulega tvíþætt. Annars vegar eru ákvæði einkaréttarlegs eðlis um samband húseiganda og leigutaka, og eru þau í fyrstu níu köflunum, að undanteknu seinna ákvæðinu í 1. gr. Þessi ákvæði álit ég að eigi fullkominn rétt á sér og séu sums staðar til bóta, sérstaklega tel ég það vera til bóta, að viðhaldsskylda er þarna sett yfir á leigutaka, sem hafa stærra húsnæði á leigu en eitt herbergi, eftir því sem n. leggur til. Auðvitað verður þetta til að lækka leiguna sem svarar viðhaldskostnaði leigusala, en ég álít, að með þessari tilhögun verði svo miklu betur farið með leiguhúsnæði, að það verði þjóðfélagslegur sparnaður að því, og að leigutaki geti í mörgum tilfellum innt af hendi viðhaldsskylduna með miklu minni kostnaði heldur en leigusali gæti gert. Ýmsar aðrar smávægilegar breyt., sem meiri hl. n. hefur lagt til í nál. á þskj. 402, get ég fallizt á, enda eru það að mestu orðalagsbreytingar, en aðrar breytingar smávægilegar. Hins vegar get ég ekki fallizt á brtt. hv. 4. landsk. þm. (StgrA) á þskj. 497, enda eru það einmitt breytingar á þeim greinum. sem ég tel að frv. bæti úr frá því réttarástandi, sem nú er.

En það, sem gerir það að verkum, að ég hef lagt til, að frv. verði fellt, er það, að í 2. málsgr. 1. gr. og 10. og 11. kafla frv. eru tekin ákvæði, sem eru gersamlega óskyld níu fyrstu köflum frv. Þar eru tekin opinber réttarleg þvingunarákvæði til þess að hefta umráðarétt manna yfir eignum sínum. Þetta getur verið fullkomlega heimilt á neyðartímum, en það er ekki svo vel um frv., að það geri ráð fyrir því, því að það segir beinlínis og án nokkurra fullnægjandi raka, að því er mér skilst, í 2. málsgr. 1. gr., að neyðarástand ríki í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri og skuli ríkja þar, skilst mér, til 14. maí 1955, og þess vegna er þessum höftum haldið til þess tíma.

Ef neyðarástand ríkir og ástæða er til að hefta meðferð manna á húsnæði sínu, — en ég tel, að stefna beri að því að upphefja þau höft, sem þegar eru fyrir, og gera menn sem frjálsasta að umráðum þessara eigna sem annarra, en ekki að auka við höftin frá því, sem nú eru gildandi lög, eins og gert er í 11. kafla laganna, — þá álít ég, að gera verði það með sérstökum ákvæðum í hvert skipti, þegar vitað er, að neyðarástand ríkir, og ekki fara harðar í sakirnar heldur en nauðsyn krefur á hverjum stað og á hverjum tíma. Að blanda saman þarna algerlega einkaréttarlegum reglum um sambandið milli leigusala og leigutaka og svo þvingunarráðstöfun gagnvart húseigendum á tímum eins og núna og gera að ákveðinni reglu í vissum kaupstöðum, tel ég, að sé að fara alveg öfuga leið við það, sem löggjafinn hefur gert, og sé óforsvaranlegt í þessu frv. Það hefði verið meira vit í því, þótt ég hafi ekki viljað leggja það til, að leggja það á vald hlutaðeigandi bæjarstjórna, hvort þær álitu, að það ástand ríki, að það sé nauðsyn á sérstökum höftum í þessum efnum, en það er ekki gert með frv., heldur er það látið gilda skilyrðislaust þennan ákveðna tíma á þessum tilteknu stöðum. Með þessu er líka verið að halda uppi meira eða minna óþörfum kostnaði. Mér er sagt, að kostnaður af húsaleigunefnd sé núna á milli 200 og 300 þús. kr. fyrir ríkissjóð á ári, og þessu er verið að halda við, án þess að upplýst sé, að nauðsyn sé á því, og eins og hv. 8. þm. Reykv. tók fram í framsöguræðu sinni, þá ganga sumar þessar greinar í þessu frv., sem lagt er til að samþ. verði, lengra í því að hefta umráðarétt manna yfir eignum sínum heldur en gildandi lög gera núna. (Gripið fram í.) Nei, þær ganga lengra. Ef maður á húsnæði núna og býr í húsinu, þá hefur hann rétt til að leigja það út sjálfur, en eftir þessu frv. er það ekki nema sama hæðin, sem hann hefur þá umráð yfir, hann verður að búa á sömu hæð. (Gripið fram í.) Það stendur þá öfugt í mér, ef það gengur ekki lengra, en samkvæmt gildandi lögum. Það má vera, að mér hafi missézt þarna, en ég held þó ekki.

Þá er verið að stinga upp á að setja upp enn þá eina stofnunina til þess að hefta umráð manna yfir húseignum sínum, og það er þessi húsaleigumiðstöð, sem á að svipta þá að miklu leyti rétti til að velja úr hópi þeirra leigutaka, sem þeim kunna að bjóðast í sambandi við leiguhúsnæði. Það mun ekki ofsagt af því, að húseigendur hér á landi eru þeir menn, sem löggjafinn hefur að sumu leyti — bæði á ófriðarárunum og eftir ófriðinn fyrri og á seinni styrjaldarárunum og eftir hann — lagt einna mest höft á af öllum þegnum hér á landi og farið einna harkalegast með. Jafnframt er talað um húsnæðisleysi, og sjálfsagt þarf að byggja sem allra mest af góðu húsnæði og menn að reyna að koma sér upp húsi yfir höfuðið. En það er sannarlega ekki til þess að ýta undir menn með að koma upp húsum yfir sjálfa sig og ef til vill að festa peninga sína til þess að byggja hús til að leigja þau út, ef umráðaréttur þeirra yfir þessum eignum á að vera miklu takmarkaðri en yfir öðrum eignum. Ástandið hefur verið þannig undanfarið vegna hins mjög mikla og óeðlilega aðstreymis hingað til Reykjavíkur, að það hafa verið nokkur húsnæðisvandræði og mikil stundum. En ég man eftir því, að fyrir síðustu heimsstyrjöldina var þetta alveg öfugt. Þá stóðu leiguíbúðir iðulega auðar hér, — svona 200–300 íbúðir, og var byggt jafnvel heldur meira, en fólksfjöldinn jókst í Reykjavík. Þetta hefur breytzt núna vegna aðstreymisins, eins og ég sagði áður, og vegna þeirra hafta, sem sett hafa verið á fjárfestingu, en nú er aftur straumurinn að breytast þannig, að það er byggt það mikið, sérstaklega af smáíbúðum, að það má búast við, að þetta sé að komast og komist alveg á næstunni í normalt horf. Og ég held. að það sé þjóðfélaginu fyrir beztu í þessu eins og öðru, að sem mest frelsi ríki á venjulegum tímum og að löggjafarvaldið sé ekki að búa til að óþörfu höft á menn. Það er nóg fyrir af þeim samt, þegar varla er unnt að hreyfa sig án einhverra hafta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, en ég leyfi mér að leggja til, þar sem ekki fékkst samkomulag við meðnm. mína um að fella ákvæði 2. málsgr. 1. gr. og 9. og 10. kafla úr lögunum, að frv. verði fellt, en ef það skyldi fara gegnum 2. umr., þá áskil ég mér rétt til að koma með brtt. við 3. umr. um að fella þessi ákvæði niður.