20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

10. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls fór ég fram á það sem frsm. fyrir minni hl. fjhn., að ríkisstj. gæfi nokkrar upplýsingar viðvíkjandi því máli, sem hér liggur fyrir. Þær upplýsingar hafa nú ekki fengizt. Hins vegar sýndi ég þá fram á, þannig að það var ekki hrakið, að sem bein afleiðing af því, að auk þeirra 104 millj. kr. að minnsta kosti, sem ríkið lætur sem framlag eða lán til áburðarverksmiðjunnar, þá er sá hluti af kostnaðinum við aðra virkjun Sogsins, sem gerir það mögulegt að áburðarverksmiðjan verði rekin, að minnsta kosti milli 90 og 100 millj., en eins og ég þá tók fram, þá má auðvitað reikna það á mjög mismunandi hátt, en það er hins vegar sú upphæð, sem hefði ella verið alveg óhjákvæmileg og raunar hærri upphæð fyrir áburðarverksmiðjuna sjálfa, ef hún hefði átt að leggja í eigin raforkuver, og eins væri ekki ósanngjarnt, miðað við það magn, sem áburðarverksmiðjan fær úr Sogsvirkjuninni, að ætla það tæpar 100 millj., sem ríkið verði að leggja í af fjárfestingum fyrr en ella vegna áburðarverksmiðjunnar. Ég kom þá fram með fyrirspurn um það, hvort ríkisstj. væri reiðubúin til að taka þeim afleiðingum af stofnun áburðarverksmiðjunnar og afleiðingum af því að verja eins miklu af orku Sogsins til hennar eins og raun ber vitni um eða samningarnir réttara sagt, — hvort ríkisstj. væri reiðubúin til að taka þeim afleiðingum af þessu að tryggja, að þriðja virkjun Sogsins gæti hafizt nú á næsta ári og yrði lokið 1950. Og ég sýndi fram á, og það veit ég að er álit allra, sem til þekkja, að svo fremi sem ekki verður ráðizt í þriðju virkjun Sogsins, þannig að hún verði tilbúin á árinu 1956, þá megi búast við ýmist mjög miklum rafmagnsskorti í Reykjavík og á Suðurlandsundirlendi, og það vita allir, hvílíkt tjón stafar af honum, eða að Reykjavíkurbær verði að reka varastöðina með útlendri orku, með olíu, og framleiða þannig rafmagn handa Reykvíkingum og fleirum fyrir um þrítugfalt verð við það, sem það ella mundi kosta, ef íslenzkri vatnsorku er beitt. Og þar sem hvort tveggja er auðvitað óviðunandi og þá ekki síður þriðji kosturinn, sem sé sá, að láta áburðarverksmiðjuna fara að draga úr sinni framleiðslu með því að fara að takmarka það rafmagn, sem hún nauðsynlega þarf að fá, þá er eina ráðið að hefja þriðju virkjun Sogsins það snemma, að hún verði til 1956, og þá þarf að hefja nú þegar allar raunhæfar aðgerðir í þessu efni. Nú stendur svo á viðvíkjandi þeim tæknilegu framkvæmdum, að allar þær vélar, sem nú hafa unnið eða verið látnar vinna við hin miklu göng undir Írafoss, eru nú að ljúka og sumpart búnar að ljúka sínu starfi, en eru hins vegar til hér á landi, og mundi vera hægt að beita þeim áfram við þau nýju göng, sem ætlunin mun vera að grafa, þegar efri fossarnir yrðu teknir. Og að öllu leyti væri auðvitað langpraktískast að geta þess vegna haldið áfram með þær vinnuvélar og — að nokkru leyti að minnsta kosti — með þá vinnuhópa, sem æfðir eru orðnir í þessu starfi, sem er mjög erfitt starf og sérstaklega hættulegt, þannig að hægt væri að halda beint áfram strax næsta sumar með þetta. Þá er enn fremur vitanlegt, að til þess að panta vélar og annað slíkt þarf að hafa þó nokkuð langan pöntunarfrest venjulega, það tekur jafnvel upp undir tvö ár að tryggja þetta, a.m.k. í ýmsum löndum. Það var alveg greinilegt t.d. síðast, þegar keyptar voru inn vélarnar, sem nú verða í vetur settar niður í Írafossstöðina, að með því að hafa svo skamman frest eins og þá var settur hvað útboð snerti á vélunum, þá verða menn yfirleitt að kaupa dýrari vélar en ella væri hægt, þannig að ef hafður er nægur fyrirvari, þá er hægt að fá vélarnar ódýrari og jafnvel oft kannske í gjaldeyri, sem aðgengilegri er,heldur en dollaragjaldeyririnn til útvegunar. Þess vegna er það að öllu leyti nauðsynlegt, að auk þess tæknilega undirbúnings, rannsókna og mælinga og jarðborana og slíks, sem þegar er hafinn viðvíkjandi að undirbúa frá hendi verkfræðinganna þriðju virkjun Sogsins, þá sé sá fjárhagslegi undirbúningur látinn fara fram í tíma.

Ég kom nú með þá fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. við 2. umr. þessa máls, hvort hún hefði hugsað sér að leggja fram á þessu þingi frv. um heimild sér til handa til fjáröflunar fyrir þriðju virkjun Sogsins. Hvað snertir virkjunina sjálfa og hennar framkvæmd, þá hefur ríkisstj. og Reykjavíkurbær eða Sogsvirkjunin heimild til þess í Sogsvirkjunarlögunum, þannig að um virkjunina sjálfa þarf ekki neina frekari heimild en þegar er í lögum. Hins vegar þarf heimild til þess að útvega það fé, sem til þessa þarf. Hæstv. ríkisstj. svaraði ekki við 2. umr. málsins þessari fyrirspurn minni. Hins vegar er það alveg óhjákvæmilegt, að það komi fram á þessu þingi, því að ég tel, að hæstv. ríkisstj. sé mér sammála um það, að það sé ekki heppilegt, ef hjá því verður komizt, að gefa stórar lánsheimildir ríkisstj. til handa út sem brbl. af hálfu hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Þess vegna er það vitanlegt, að það er nauðsynlegt að gera nú þegar gangskör að þessu máli á þessu þingi, svo framarlega sem nú á að tryggja heimild ríkisstj. til handa, til slíkrar fjáröflunar, ef verkið á að geta hafizt næsta sumar. Og þeim, sem að slíku ættu að vinna og sjá um útboð og undirbúning og annað slíkt, mundi ekki veita af að vita það nú, á meðan þetta þing stendur yfir, til þess að gera allar þær ráðstafanir, sem gera þarf. Það tekur alltaf nokkra mánuði, eins og vitanlegt er.

Þar sem nú þetta frv., sem hér liggur fyrir, um lán til handa áburðarverksmiðjunni, stendur þess vegna í beinu og rökréttu sambandi við nauðsynina á því að koma upp þriðju virkjun Sogsins, þar sem, eins og ég hef sýnt fram á, það að koma áburðarverksmiðjunni upp knýr, á að flýta miklu meira fyrir þriðju virkjuninni, heldur en ella hefði verið nauðsynlegt, og eins og ég hef margtekið fram, þá harma ég það sízt, að ýtt skuli vera þannig á eftír, að virkjað sé fljótar hér á Íslandi, með því, að áburðarverksmiðjan kemst upp. Ég harma það sízt. En það er þó því aðeins sá kostur fylgjandi því, að þessi áburðarverksmiðja sé ekki látin taka rafmagnið frá iðnaðinum og neytendum í Reykjavík og á Suðurlandsundirlendi þeim til stórkostlegs baga og til ógurlegs kostnaðar fyrir Reykjavíkurbæ og þjóðina í heild með því að verða að flytja inn dýrt erlent afl, því að það væri sama sem raunverulega, frá þjóðarhag séð, að ætla að reka verksmiðjuna með afli, sem kostar kannske 30 aura á kílówattstund, þegar áburðarverksmiðjan fær það fyrir í kringum 2 aura. Ég vil þess vegna leyfa mér að flytja hér brtt. við þetta frv., eins og ég lýsti yfir og rökstuddi að nokkru leyti við 2. umr. málsins, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Ríkisstj. er heimilt að taka að láni allt að 90 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt og endurlána Sogsvirkjuninni upphæðina til framkvæmda á fullvirkjun Sogsins með þeim kjörum, er lánið er tekið, og gegn þeim tryggingum, er ríkisstj. tekur gildar.“ Og í öðru lagi: „Fyrirsögn frv. verði svo hljóðandi: Frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku til fullvirkjunar Sogsins og vegna byggingar áburðarverksmiðju.“

Ég vil lýsa því yfir, að ég mundi ekki hafa komið með þessa till., svo framarlega sem ríkisstj. hefði gefið þá yfirlýsingu við 2. umr. málsins, að hún hefði þetta mál í undirbúningi og ætlaði sér að flytja fram einhverja till. í þessu átt á þinginu, því að ég álít að öllu leyti eðlilegt og æskilegast, að hæstv. ríkisstj. komi sjálf með slíkt, og það er einungis vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til að svara mjög eðlilegum fyrirspurnum viðvíkjandi slíku, að ég nú kem fram með þessa till. Og svo fremi sem sú yfirlýsing kemur fram frá hæstv. ríkisstj., að hún hafi í undirbúningi að leggja fyrir þetta þing frv. til laga um helmild sér til handa til fjáröflunar, lánsheimildar eða annarrar fjáröflunar, í þessu skyni, þá mun ég með ánægju taka mína brtt. til baka. En ég álít, að það sé alveg óhjákvæmilegt, og ég vil ekki hvað sízt segja það sem þm. Reykv., að ég álít, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að Reykvíkingar viti, hvar þeir standa í þessum málum. Það er nógu dýrt og nógu tilfinnanlegt fyrir Reykjavíkurbæ að hafa nú orðið að reka varastöðina — stundum næstum dag og nótt og framleiða daglangt rafmagn úr henni, eins dýrt eins og það er, þó að maður yrði ekki að upplifa það tveim, þrem árum eftir að önnur virkjun Sogsins væri fullgerð, að það væri ekki nema um tvennt að velja, að stöðva meira eða minna áburðarverksmiðjuna eða byrja aftur á því að keyra varastöðina af fullum krafti. Hins vegar er vitanlegt, að um það ástand, sem verður árið 1956 í þessum efnum, þ.e. í vetrarbyrjun 1956, er tekin ákvörðun nú. Það er ákvarðað nú, hvort þá skuli vera aftur rafmagnsskortur í Reykjavík og varastöðin rekin af fullum krafti eða þá þrengt of mikið að áburðarverksmiðjunni, eða hvort þá skuli vera lokið þriðju virkjun Sogsins, sem er hægt, ef ákvörðun er tekin um það nú að útvega fé og síðan tekst að útvega fé til þess að vinna það verk. Ég vil þess vegna eindregið æskja þess, að hæstv. ríkisstj. segi nú til um, hvað hún ætlar sér í þessum efnum. Það er ekki neitt undarlegt, þó að a.m.k. við þm. Reykv. séum nokkuð hugsandi út af þessum málum, og vil ég þá með þessum fyrirvara biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt. minni, af því að hún er bæði of seint fram komin og skrifleg, og ég skal enn fremur geta þess, að ég hefði, síður en svo nokkuð á móti því, af því að þetta er þýðingarmikil brtt. og fjhn., sem ég annars á sæti í, hefur ekki fengið hana til athugunar, að umr. væri frestað og fjhn. fengi tækifæri til þess að athuga þessa till. og enn fremur hæstv. ríkisstj. til þess að athuga, hverju hún vill svara viðvíkjandi þessu máli.