11.11.1952
Efri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (3473)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er fullkomlega rétt, að eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, virðist það hið mesta nauðsynjamál fyrir Húsavíkurkaupstað að fá aðstoð til atvinnuaukningar á staðnum, og að ýmsu leyti virðist líkleg leið í því efni sú, sem bent er á í frv., sem hér liggur fyrir. En því verður ekki neitað, að það eru fleiri staðir, sem svipað er ástatt um og með sama rétti geta vænzt aðstoðar frá ríkinu til atvinnuaukningar heima hjá sér. Hv. fjhn. hefur nú fallizt á að bæta við Ólafsfirði og veita honum kost á sömu aðstoð eins og Húsavík. Í Nd. er borið fram frv. af einum öflugasta stuðningsmanni hæstv. ríkisstj., hv. þm. N-Ísf., þess efnis, að svipuð aðstoð sé látin í té Ísafjarðarkaupstað og Bolungavík. Og ég tel víst, að áður en þessu máli lýkur, þá drífi víðar að sams konar beiðnir studdar mjög svipuðum rökum.

Ég er alveg sammála því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, að það, sem menn verða fyrst að gera sér grein fyrir í þessu sambandi, er, hvaðan skipin eiga að koma. Er ætlunin að þessir togarar, sem einstökum stöðum er hjálpað til að kaupa, séu teknir frá öðrum stöðum hér innanlands, eða er ætlunin að kaupa þá frá útlöndum? Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að sú leiðin sé miklu æskilegri að reyna að fá til viðbótar skip til að bæta úr á þessum stöðum. Í því sambandi vil ég minna á, að í hv. Nd. liggur núna frv. um togarakaup ríkisins til atvinnujöfnunar, þar sem einmitt er viðurkennd þessi þörf og jafnframt getuleysi einstakra sveitarfélaga til þess að bæta úr henni hvert um sig. Ég held því, að það væri fyllsta ástæða til þess fyrir hv. fjhn., sem sýnilega hefur áhuga á að leysa þetta mál, að taka það upp til athugunar, nema hæstv. ríkisstj., sem að mörgu leyti mætti telja eðlilegt, tæki að sér forgöngu í þessu máli, t. d. með því, eins og hæstv. dómsmrh. drap hér á áðan, sem mér virðist mjög skynsamlega mælt og athugað að almennar reglur yrðu settar um stuðning af hálfu ríkisvaldsins og aðstoð til þess að gera þeim sveitarfélögum, sem þörf er á atvinnuaukningu, fært að afla sér tækja í því skyni. En þess er varla að vænta, að þm. einstakra kjördæma sjái sér fært að bera fram till. um slíkt efni. Þess er að sjálfsögðu að vænta í því sambandi, úr því að hæstv. ríkisstj. sér og viðurkennir þessa nauðsyn, að hún taki að sér forgöngu í málinu og beiti sér fyrir því að fá almennar heimildir í þessu efni, sem hún svo að sjálfsögðu notar ekki meira en fært þykir. Það er augljóst mál, og verður að meta á hverjum tíma nauðsynina og möguleikana á hverjum stað.

Hv. frsm. virtist telja, að hér væri ekki fordæmi skapað, þó að Húsavík yrði veitt þessi aðstoð og Ólafsfirði líka, hér væri aðeins um heimild að ræða fyrir hæstv. ríkisstj. og aðrir væru þar að auki búnir að fá nokkra aðstoð í þessu efni á undan. Að því er heimildina snertir, þá hefði ég nú hugsað, að Húsvíkingum og jafnvel hv. þm. sjálfum þætti nú lítið varið í að fá þessi l., ef heimildin yrði ekki notuð, því að sjálfsögðu er það ætlun hv. þm., að þetta verði ekki aðeins skrautfjöður í hans hatt, heldur ætti það að fá frv. samþykkt hér á Alþ. að verða til gagnsemdar plássinu, þannig að það verði atvinnuaukning og skip komi til staðarins. Það vil ég ekki draga í efa að sé hans ætlun, enda erfitt fyrir ríkisstj. að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett hafa verið í l., að synja um að nota slíka heimild.

En í sambandi við þetta mál langaði mig til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort ástandið hjá togaraútgerðinni væri nú ekki þannig, að hún þegar af þeim ástæðum sæi ástæðu til þess að bera einhverja till. fram sjálf í þessu efni, en ekki bíða eftir því, að dreifðar till. komi frá hinum einstöku kjördæmaþm. varðandi þetta mál. Hv. þm. N-M. skaut því hér inn, að nú væru 11 togarar undir hamrinum, og ég ætla, að hann hafi fengið þessar upplýsingar úr skýrslu hæstv. ríkisstj., sem birt hefur verið í blöðunum undanfarna daga. Það segir sig sjálft, að það hefur ekki litla þýðingu fyrir þá staði, þar sem þessi skip hafa verið starfrækt, hvað um þau verður. Stöðvast reksturinn og liggja skipin, eða verða skipin seld í burtu til annarra stöðva? Mér virðist, að hæstv. ríkisstj. geti ekki aðgerðalaust horft á þetta og látið arka að auðnu hvernig fer. Það er búið, eins og hv. flm. frv. tók fram áðan, að veita nokkrum kaupstöðum ábyrgðir í því skyni, að þeir geti aflað sér þessara skipa og þar með aukið atvinnulífið hver hjá sér. Sum þessi skip hafa verið rekin með tapi um lengri eða skemmri tíma, og virðist komið svo hjá sumum sveitarfélögum og sumum einkafyrirtækjum einnig og ekki síður, að nú sé komið í þrot. Ég fæ ekki betur séð heldur en að líklegasta leiðin í þessu efni sé sú að reyna að steypa saman í eitt félag þeim togarafyrirtækjum, hvort heldur er sveitarfélaga eða einstakra manna, sem eru komin í greiðsluþrot og ekki geta haldið starfsemi sinni áfram. Áhættan við rekstur eins togara er tiltölulega miklu meiri en ef um fleiri skip er að ræða, eins og raun sannar, því að venjulega er það svo þar, sem um fleiri skip er að ræða, að það er nokkuð misjöfn útkoman, og næst nokkurn veginn jöfnuður í gegnum það. En eitt skip, sem verður fyrir stórfelldum halla, getur orkað því, að fjárhagur lítils bæjar- eða sveitarfélags megni ekki að reisa þar rönd við — standa undir því. É,g held því, að það væri fullkomlega tilefni til þess, að hæstv. ríkisstj. athugaði. hverjar leiðir væru líklegastar til þess að halda þessum skipum í rekstri án þess að raska atvinnuhlutföllum í landinu frá því, sem nú er og leggja kapp á það að fá til landsins nokkur ný skip, sem síðar mætti nota til atvinnujöfnunar í landinu, annaðhvort þannig, að þau yrðu beinlínis gerð út af ríkinu, „eventuelt“ í félagi við einstök bæjarfélög, eða þá að þau yrðu látin til einstakra sveitarfélaga á sama hátt eins og þeir togarar, sem fyrr hafa komið. En að gera beinar ráðstafanir til þess, að eitt sveitarfélag geti fengið skip úr öðrum verstöðvum, sem hafa jafnmikla nauðsyn fyrir það og þar sem skilyrði eru ennþá lakari til rekstrarins, er óneitanlega háskaleg braut. Ég vil ekki gera lítið úr nauðsyn Húsvíkinga, og ég tel alveg eðlilegt og sjálfsagt, að þeir fái sams konar fyrirgreiðslu og stuðning eins og veitt verður öðrum sveitarfélögum, en ég vildi mjög beina því til hv. n. og hæstv. ríkisstj., ef frv. verður samþykkt, að ekki séu gerðar ráðstafanir til þess, að skipin séu tekin frá einum stað, þar sem þörf er fyrir þennan atvinnurekstur, og flutt á þá staði, sem greinir frá í þessu frv.

Mér þykir það miður, að hæstv. ríkisstj. heyrir ekki mál mitt. Ég hefði mjög gjarnan viljað heyra, hvort hún í fyrsta lagi mundi ekki vilja taka til athugunar að setja almennar reglur, eins og hæstv. dómsmrh. drap hér á áðan, um stuðning til sveitar- og bæjarfélaga í þessum efnum, sem einnig gæti náð til Húsavíkur, og í öðru lagi, hvað ríkisstj. hyggst hafast að til að afstýra stöðvun svo og svo mikils hluta togaraflotans og koma í veg fyrir, að stórfelld röskun á atvinnuháttum í einstökum byggðarlögum leiði af þessum erfiðleikum togaraútgerðarinnar?