18.11.1952
Efri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (3480)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs við fyrri hluta þessarar umr., var það einkum og næstum eingöngu til þess að þakka hv. meðnm. mínum fyrir það, að þeir höfðu fallizt á þá ósk mína og till. í n., að bætt yrði í frv. sams konar heimild um ábyrgð fyrir Ólafsfjarðarkaupstað til togarakaupa eins og frv. gerir ráð fyrir að Húsavíkurkaupstað verði veitt. Nú hefur að vísu dregið úr þakklæti mínu til eins af hv. nm., þar sem hv. þm. Barð., einn af nm., boðar nú, að hann muni snúast gegn frv., ef brtt. frá honum verði ekki samþ., þó að hann hefði áður skrifað fyrirvaralaust undir nál. Eru mér þetta vonbrigði. En meiri hl. fjhn. hefur þó óbreytta afstöðu til málsins í höfuðatriðum og algerlega óbreytta afstöðu hvað snertir það atriði sérstaklega, að Ólafsfjarðarkaupstaður fylgist í þessu efni með Húsavíkurkaupstað.

Brtt. nefndarinnar í nál. viðvíkjandi Ólafsfjarðarkaupstað er tvímælalaust réttmæt. Þar eru um flest a. m. k. mjög svipaðar ástæður eins og í Húsavík og sízt minni ástæða til þess að rétta Ólafsfjarðarkaupstað hjálparhönd heldur en Húsavík. Það vita allir, að aflaleysi á báta hefur verið sameiginlegt böl í þremur landsfjórðungum undanfarið og þar á meðal og ekki hvað sízt Norðlendingafjórðungi. Þess vegna er það og af fleiri ástæðum, þó að þetta sé aðalástæðan, að það er árstíðabundið atvinnuleysi í bæjum og kauptúnum á Norðurlandi, og hefur svo verið undanfarin ár, og þetta frv. er nú einkum borið fram til þess að bæta úr því árstíðabundna atvinnuleysi. En ég held, að megi fullyrða það, að það sé enn meira um slíkt atvinnuleysi í Ólafsfirði heldur en nokkurn tíma í Húsavík og það af eðlilegum ástæðum, því að Húsavík hefur fleiri möguleika en Ólafsfjörður. Það er t. d. minni verzlun við umhverfið í Ólafsfirði, og það er minni landbúnaður í Ólafsfjarðarbæ heldur en í Húsavíkurbæ, og fleira kemur til. Aftur á móti eru möguleikar til þess að gera út togara og um hagnýtingu aflans mjög svipaðir, eftir því sem ég bezt fæ séð, á báðum þessum stöðum. Það mega heita komnar hafnir á báðum stöðunum, að minnsta kosti er þess að vænta að því er Ólafsfjörð snertir, að eftir næsta sumar verði þar komin fullgild höfn. Í Ólafsfirði er að vísu ekki síldarverksmiðja eins og í Húsavík, en þar er frystihús, þar er niðursuðuverksmiðja og fleiri tæki til þess að hagnýta afla. Ég sé því ekki annað, en að hvað það snertir séu eins miklir möguleikar í Ólafsfirði eins og annars staðar.

Í sambandi við þetta mál, sérstaklega um að bæta Ólafsfirði inn í frv., vil ég taka fram, að mér finnst alveg sjálfsagt, ef af framkvæmdum verður í þessu efni, að Dalvíkurkauptún og fleiri kauptún við Eyjafjörð fái að vera þátttakendur í fyrirtækinu með Ólafsfjarðarkaupstað. Þetta var ráðgert á meðan verið var að reyna að fá einn af þessum 10 togurum, seinni „nýsköpunartogurunum“, til þessara staða. Yrði þá það að sjálfsögðu í því formi, að hlutafélag yrði stofnað, þar sem þessi kauptún sem slík gætu verið þátttakendur og svo sennilega einstaklingar einnig.

Tveir hæstv. ráðh. úr Sjálfstfl., svo og hv. þm. Barð., hafa nú andmælt þessu frv. eins og það liggur fyrir með brtt. n., og þeir hafa haft hér ýmis varnaðarorð um togaraútgerð almennt, bent á hina fjárhagslegu hættu, sem togaraútgerð er samfara, o. s. frv. Ég er ekki lokaður fyrir þeim rökum, sem þeir hafa þar flutt fram. Mér finnst bara um þessa menn, að þeir átti sig fullseint á þessari hlið málsins, og vil nú aðeins minna á, að þegar mest var hér talað um svo kallaða „nýsköpun“, þá hefðu þær ræður, sem þessir tveir hæstv. ráðh. hafa haldið um þetta mál, þótt bera vott um þröngsýni og afturhald, a. m. k. ef Framsfl.-menn hefðu haldið þær þá. En þessi varnaðarorð geta að sjálfsögðu verið jafnréttmæt fyrir því.

Við fyrri hluta þessarar umr. vék hæstv. dómsmrh. að því, að það lægi fyrir Nd. frv. svipaðs efnis um togara handa Ísafirði og öðrum kauptúnum við Ísafjarðardjúp. En ég vil benda á það, sem einnig hefur komið fram hjá hv. frsm. n., að þetta frv. og það frv., sem fyrir Nd. liggur, eru ekki alveg hliðstæð. Ég veit ekki betur en að Ísafjarðarkaupstaður hafi þegar fengið togara með svipuðum hætti og hér er farið fram á. Ég sé því ekki, að Alþ. sé endilega bundið við að samþ. það frv., þó að þetta frv. yrði samþ., sem hér liggur fyrir nú í dag. Það er aðeins um það í raun og veru, að Húsavíkurkaupstaður og Ólafsfjarðarkaupstaður verði hins sama aðnjótandi eins og Ísafjarðarkaupstaður hefur nú þegar orðið.

Þá ræddi hæstv. dómsmrh. við fyrri hl. umr. nokkuð um það, hvaðan ætti að taka þessa togara, og að því er mér skildist taldi það skilyrði fyrir fylgi sínu við málið, að þeir yrðu ekki keyptir frá Reykjavík og ef til vill að þeir væru ekki keyptir frá neinum öðrum stað innanlands. Ég skal nú ekki segja um það hvað Húsavíkurkaupstaður hefur hugsað sér í þessu efni, en ég held, að ég geti fullyrt það, að Ólafsfjarðarkaupstaður hefur enga ákveðna ætlun um það enn, hvort hann muni falast eftir togara innanlands eða utan. En ef togarar eru til kaups á annað borð innanlands, sé ég ekki, að það sé neitt verra, þó að Húsavík eða Ólafsfjörður gætu fengið slíkan togara heldur en t. d. að þeir yrðu seldir burt úr landinu, og það hefur komið fyrir, að togarar hafi verið seldir héðan úr landi, þó að það hafi ekki skeð enn um þessa nýjustu togara. Það eru yfirleitt ekki fá skip, sem seld hafa verið úr landi, og ég vil undirstrika það, sem hv. frsm. n. sagði nú áðan um þetta atriði málsins, að mér er ómögulegt að sjá annað en að hæstv. ríkisstj. hafi þetta atriði í sinni hendi. Þar sem frv. er aðeins í heimildarformi til ríkisstj., þá vitanlega getur hún sett svo að segja hvaða skilyrði sem hún vill fyrir því, að heimildin verði notuð, m. a. þau, að togararnir séu fengnir frá þeim stað, sem hún hefur ekki á móti.

Svo að ég víki aftur að því, sem hér hefur verið sagt um þá miklu áhættu, sem því er samfara að gera út togara, þá geri ég alls ekki lítið úr því, því að mér er það ákaflega ljóst að því fylgir áhætta. Því virðist líka fylgja áhætta ekki svo lítil að gera út báta, og einkum ef sú skrúfa kaupgjalds og verðlags heldur áfram, sem verið hefur undanfarið og nú sýnist vera í uppsiglingu í enn ríkari mæli en nokkru sinni fyrr, þá er auðvitað þessi hætta mikil, og þá gæti auðvitað farið svo að lokum, að ekki einasta togaraútgerð hlyti að leggjast hér niður, heldur hvers konar atvinnurekstur. Þetta skal ég játa. En mér finnst, að það megi samt ekki miða löggjöf við þá verstu möguleika, sem fyrir kynnu að koma, frekar en t. d. það, að það getur auðvitað komið fyrir, við skulum segja á ófriðartímum, að ýmiss konar hætta steðji þá að skipum og öðrum atvinnutækjum. Það dettur engum manni í hug að miða við það, þegar þeir eru að ráðgera um það, hvort eigi að leggja í atvinnufyrirtæki eða ekki. En þó að ég geri ekki lítið úr þessu á neinn hátt, þá má þó benda á það, að þrátt fyrir allt hefur það sýnt sig, að togaraútgerð getur borið sig og að togaraútgerð hefur sums staðar borið sig allt til þessa dags. Það mun vera um það eins og í fleiru, að veldur, hver á heldur. Ég veit ekki betur, en að útgerð tveggja Akureyrartogara, sem gerðir eru út af hlutafélagi, sem bærinn á mikinn hluta í, hafi borið sig til þessa, og mér er líka kunnugt um það, að togari á Akureyri, sem er í einkarekstri, hefur líka borið sig. Það stendur nú svo einkennilega á, að eigandi togarans er sjálfur skipstjóri á honum, a. m. k. þegar mest á ríður, og hefur það áreiðanlega sitt að segja.

Þrátt fyrir það, eins og ég hef margtekið fram, að ég sé sízt að segja, að þessi varnaðarorð séu hreinar grýlur, þá finnst mér samt, að Alþ. geti samþykkt þessa heimild til hæstv. ríkisstj., því að það er þá ríkisstjórnarinnar að meta horfurnar eins og hvað annað, áður en hún veitir sína ábyrgð eða er hjálpleg um lánsfjárútvegun.

Hér hefur komið fram ósk um það frá hæstv. dómsmrh., að málinu yrði nú enn frestað við 2. umr., til þess að fjhn. gengi úr skugga um það, hvar ætti að fá þessa togara, sem hér er ráðgert að veita Húsvíkingum og Ólafsfirðingum hjálp til þess að eignast. Ég hugsa, að það verði þá að fresta málinu til næsta þings og kannske til þar næsta þings, því að ég tel það alveg óvíst og dreg það mjög í efa, að nokkur aðili, sem við þetta mál er riðinn, sé við því búinn að svara þessu nú. Að sjálfsögðu mundi þetta verða athugað og leitað tilboða o. s. frv. og það svo metið á sínum tíma. Mér finnst alveg fráleitt að ætla þingnefnd að fara að fást við þetta. Að sjálfsögðu skal ég sem formaður n. ekki skorast undan því að taka þetta til athugunar og að n. reyni að afla sér upplýsinga, ef það er þá hægt, ef meðnm. mínir óska þess, en mér lízt nú þannig á, að það yrði ekki hægt á stuttum tíma að ganga á nokkurn hátt úr skugga um það, hvar þessir togarar mundu verða keyptir. Að fara að spyrja atvinnunefndina um það, hvaða staðir hér á landi megi missa togara, það álit ég í raun og veru alveg tilgangslaust líka. Ég býst við, að fyrsta svarið yrði það, að það mætti í sjálfu sér enginn staður missa togara, ef möguleikar væru til að reka þá þar, sem þeir eru nú staðsettir. Mér finnst sem sagt þetta mál ekki liggja fyrir. Það er alls ekki komið að þessari hlið málsins, að mér finnst. Þess vegna finnst mér alveg fráleitt að fara enn að fresta þessu máli út af þessu atriði, og ég get ekki verið grunlaus um það, að slík ósk sé nú kannske fram borin til þess að koma málinu fyrir kattarnef, a. m. k. á þessu þingi, því að það er alveg auðséð, að við þessu er ekki hægt að fá fullnægjandi svar á þessu þingi — ekki sízt ef það yrði nú búið fyrir jól.