18.11.1952
Efri deild: 28. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (3481)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú í fyrsta lagi þakka hv. formanni n. fyrir að hafa orðið við þeirri beiðni minni að taka málið til athugunar á ný í nefndinni, og ég sé líka, að þó að ég hafi ekki náð því takmarki, sem ég ætlaðist til, þ. e. að fá hv. nefnd til að fallast á mína till. á þskj. 212, þá hefur nú við frekari umr. um þetta mál í nefndinni skotið upp þeirri hugsun hjá hv. meiri hl., að sú till., sem nefndin bar fram sameiginlega á nál., hafi ekki verið hugsuð út í æsar. Um það ber vitni brtt. meiri hl. n. á þskj. 249. Þegar því hv. frsm. og flm. frv. sagði áðan, að nefndin hefði öll verið sammála um að leggja til, að málið næði fram að ganga eins og n. gekk frá því, þegar hún samdi nál., en að síðar hefði þm. Barð. séð eftir því, hvernig hann hefði afgr. málið, eins og hann orðaði það, séð sig um hönd, þó að hann hefði ekki gert ágreining í n., þá vil ég nú benda á það, að mér sýnist, að einnig hv. meiri hl. n. hafi séð sig um hönd, þó að hann hafi hins vegar ekki að fullu og öllu viljað fallast á mínar till. í málinu. Honum virðist áreiðanlega, að sinn málstaður hafi ekki verið svo sterkur, að hann sæi ekki ástæðu til þess að víkja ofur lítið frá þeirri braut, og skal ég síður en svo áfellast það. Ég tel, að það sé hv. nm. til sóma, en ekki til vansa.

Ég hefði því ekki talið það neina goðgá, að hv. form. hefði reynt að láta brjóta þetta mál nokkru meira til mergjar heldur en gert hefur verið og þá enn frestað umr., en ég geri það ekki að till. minni. Ég skal hins vegar benda á, hvers vegna ég tel, að þetta væri rétt, en það er alveg sérstaklega vegna þess, — og það vil ég biðja hv. dm. að taka til athugunar, — að hæstv. fjmrh. hefur ekki fengizt til þess að ræða þetta mál við n., og tel ég þetta veigamikið atriði. Hæstv. ráðh. hefur ekki heldur fengizt til að vera við umr. um þetta mál hér í þessari hv. deild, þrátt fyrir það að hann hafi fengið aðvaranir um það og þrátt fyrir það að það hafi verið óskað eftir því, að hann gæfi hér yfirlýsingu í sambandi við málið, því að ég trúi hæstv. forseta fullkomlega til þess að hafa flutt þau skilaboð, enda hefur hann viðurkennt við mig, að hann hafi gert það, og það út af fyrir sig sýnir einhverja veilu í málinu. Það er einmitt ástæðan fyrir því, að ég held enn fastar við mína till., að hæstv. ráðh. vill ekki hér lýsa því yfir, hvað hann teldi að sínu leyti vera nægilega tryggingu fram yfir skipið sjálft. Ef um þetta hefðu fallið einhver orð frá hæstv. ráðh., sem ég hefði getað tekið gild á þessu stigi, þá skyldi ég hafa tekið mína till. aftur, en hæstv. ráðh. forðast alveg að koma nálægt þessu máli hér. Þó að það séu tveir af ágætustu flokksmönnum hans og stuðningsmönnum stjórnarinnar, sem bera þetta mál fram, þá skýtur hann sér samt sem áður undan þessari skyldu og undan þessari ábyrgð í sambandi við afgreiðslu málsins. Og þess vegna hélt ég nú, að jafnágætir menn eins og þessir tveir menn eru, sem standa að þessu máli, vildu meta svo mjög þennan undandrátt hæstv. ráðh. til að koma sér undan ábyrgð, að þeir vildu ekki knýja fram þennan bagga á hæstv. ráðh. gegn hans vilja, því að ég get ekki litið öðruvísi á, en hann sé andvígur því að taka við þessari löggjöf eins og hún er samkv. frv. Það er mín skoðun á málinu. Þess vegna álít ég, að það sé rétt, að hv. formaður n. taki málið til athugunar á ný. Mér er það alveg ljóst, að ef till. mín á þskj. 212 verður felld, þá mundi hver ráðh., sem væri fylgjandi þessu máli, telja sig hafa heimild til þess að krefjast ekki þeirrar ábyrgðar eða tryggingar, sem felst í till., og skjóta sér undir þann raunveruleika, að meiri hl. hv. Ed. hefði ekki viljað setja svo þung skilyrði fyrir ábyrgðinni. Þess vegna er tvöföld ástæða til þess nú, úr því að till. er komin fram, að samþ. hana, nema því aðeins að það felist í atkvgr. þeirra manna, sem fella till., að þeir vilji láta afhenda togara til þessara staða, þó að slík trygging sé ekki gefin sem hér um ræðir. Þess vegna missa öll orð hv. flm. um það, að ríkisstj. skuli jafnan meta tryggingarnar gildar, alveg marks, þegar það er skoðað í þessu ljósi. Það má segja, að ekki hefði verið eins mikil ástæða til þessa, ef till. hefði aldrei komið fram, en nú er hún fram komin og hefur þess utan orðið þess valdandi, að meiri hl. hv. n. hefur hallazt að hugmynd minni um meiri tryggingu, þó að hann hafi ekki viljað stíga sporið til fulls til þess að mæta þeim óskum, sem ég hef sett fram í sambandi við málið.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um það hér, hvaða rök hafa verið færð fyrir því, að sjálfsagt sé að veita Húsavík og Ólafsfirði þann stuðning, sem hér er farið fram á. Rökin hafa raunverulega verið tvenns konar. Annars vegar, að þetta sé gert vegna atvinnuhátta á stöðunum — vegna atvinnuleysis á stöðunum mætti segja, þ. e. a. s., það sé hreint atvinnubótamál. Og með tilvísun til þess og þeirra raka, sem fram voru færð í n. í sambandi við þá hlið málsins, var málið sent til atvinnumálanefndarinnar, sem hefur gefið um það sitt álit. Þegar málið var sent til n., þá var aðeins minnzt á frv. eins og það var upphaflega, en ekki þær brtt., sem síðar hafa komið fram, m. a. ekki þá brtt., sem snertir Ólafsfjörð. Ég geri alveg ráð fyrir því, að ef sú brtt. hefði einnig verið send til n., þá hefði það síður en svo orðið til þess, að hún hefði lagzt á móti frv. eða torveldað gang þess á nokkurn hátt. Ég geri ráð fyrir, að atvinnumálanefndin hefði komizt að þeirri niðurstöðu, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur haldið hér fram, að Ólafsfjörður þyrfti engu síður aðstoð en Húsavík í sambandi við atvinnumál og hefði engu síður aðstöðu til að taka á móti slíkri aðstoð eins og hér um ræðir. Ég sé því ekki ástæðu til þess að senda málið aftur til n. eða ræða við n. um málið af þeim ástæðum, að fram hafi komið þessi brtt., þó að hún verði samþykkt. Hitt er svo annað atriði, að ég veit ekki, hvort atvinnumálanefndin hefur gert sér það fyllilega ljóst, hve mikið fé þarf úr ríkissjóði til þess, að hér verði nokkur atvinnubót að, og það er það, sem skilur á milli mín og hv. flm. frv. Ég tel, að það sé mikill bjarnargreiði gerður þessum mönnum, ef þeim væri leyft og þeir aðstoðaðir til þess að kaupa togara, hvar sem hann væri keyptur, ef þeir hefðu ekki meira fé yfir að ráða og meiri tryggingar á bak við sig, en 10% af andvirði skipanna. Það má segja, að það sé annars vegar mál kaupstaðanna beggja, þegar málunum sé komið svo langt, og hins vegar hæstv. ríkisstj. að gera út um það atriði siðar. Má fullkomlega halda því fram. En endirinn skal í upphafi skoða, er gömul og góð regla. Og ég vil í sambandi við það leyfa mér að lesa hér upp nokkrar tölur í sambandi við rekstur togara, þar sem undirbyggingin hefur verið þetta veik eða litlu sterkari, en hér er gert ráð fyrir, sem ég tel að sé meginástæðan fyrir því, hvernig farið hefur um þá togaraútgerð, því að það er alveg vitanlegt, að þó að ýmsir togarar hafi borið sig í rekstri undanfarin ár, eins og hv. 1. þm. Eyf. sagði, þá er það alveg sýnilegt, að það eru fyrst og fremst þeir togararnir, þar sem aðilar hafa hætt svo að segja öllu sínu fé, en ekki fé ríkissjóðs, og hafa þar af leiðandi miklu meiri ábyrgðartilfinningu og miklu sterkari löngun til þess að láta fyrirtækið bera sig til blessunar fyrir sig og það fólk, sem þess nýtur, heldur en hinir, sem í upphafi gera kröfu til ríkissjóðs og hugsa ekkert eða lítið um, hver afleiðingin verður.

Í sambandi við þetta skal ég benda á, að hér er í einum rekstrarreikningi rekstrarhalli á einu ári upp á rúmar 1.200 þús. kr. á einu skipi. Í öðrum er halli upp á rúmlega 1.500 þús. kr. bara á einu ári. Hér er í þeim þriðja halli upp á 22.79000 kr. árið 1951. Hér er enn halli upp á 2.837000 kr. yfir þrjú ár á einu skipi, og hér er 831.000 kr. halli á einu skipi yfir eitt ár, og hér er halli upp á 1,497 þús. á einu skipi og nærri 200 þús. á öðru skipi, einnig miðað við eitt ár, og hér er 463 þús. á einu skipi, einnig miðað við eitt ár.

Ég hygg, að þessar tölur séu nægilegar til þess að sýna, að það er engin fullkomin trygging fyrir ríkissjóð, þó að heimtað sé auk veðréttar í skipi, sem ákveðið er 90% af kaupverðinu, 500 þús. kr. til þess að mæta rekstrartapi, sem kynni að verða á skipinu. (Gripið fram í.) Já, það er eins og hæstv. forseti segir, ríkisstj. er heimilt að takmarka þetta og heimta meiri ábyrgð, en hvers vegna kemur þá ekki hæstv. ráðh. til þess að lýsa stefnu sinni hér í þessu máli, hvers vegna er hv. þm. að binda þennan bagga á flokksbróður sinn, hæstv. fjmrh., að honum óviljugum? Það hefur ekkert verið gefið upp um það hér, hvorki við n.hv. d., að hæstv. ráðh. vilji taka á móti þessu hér eða hann hafi myndað sér nokkra skoðun á því, hvaða tryggingar hann vilji krefjast. Og þegar ég sem ábyrgur þm. hef þessi gögn í höndunum, sem sýna beinlínis, að það er engan veginn öruggt fjárhagslega fyrir ríkissjóð að gefa heimild til að aðstoða neinn aðila á því sviði, sem hér er farið fram á, þá er von, að ég vilji fá einhverja tryggingu fyrir því, að það sé ekki farið út í þetta nema með meira öryggi fyrir ríkissjóð heldur en tekið er fram hér í þessu frv.

Nú má fullkomlega segja það og það með réttu, að það geti verið sjálfsagður hlutur að styðja að togaraútgerð eða öðrum atvinnumálum, þó að það kosti ríkissjóð þær upphæðir, sem ég hef hér minnzt á, en frá mínu sjónarmiði má þó aldrei ganga lengra en það, að viðkomandi aðili, hvort heldur það er einstaklingur, bæjarfélag eða hlutafélag, hafi svo mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við reksturinn, að hann missi ekki áhuga fyrir afkomunni, því að það er alveg áreiðanlegt, að afkoma þeirra togara, sem hv. 1. þm. Eyf. minntist hér á áðan, er beinlínis slík sem hún er vegna þess mikla verks, sem þeir menn hafa lagt í að stjórna fyrirtækjunum og hugsa um þessi mál, sem eiga sinna hagsmuna að gæta þar meira en nokkurt bæjarfélag hefði, ef það ætlar að fá ríkissjóð til að standa undir 90% af kaupverðinu og taka á sig þess utan alla áhættu af öllum skuldum, sem eiga forgangsrétt fyrir framan þær kröfur, sem liggja á skipunum.

Það er ekki af neinni andúð við Húsavík eða Ólafsfjörð, að ég hef sett þetta fram, heldur aðeins til þess að benda á þá hættu, sem í þessu liggur. Það hefði því ekki verið óeðlilegt, að atvinnumálanefndin hefði rætt við fjhn. út frá þessu sjónarmiði: Lítum við svo á, að þessum stöðum þurfi að hjálpa um svona og svona miklar fjárfúlgur, sem við þá einnig leggjum til að verði lagðar í togara, eða ef um það væri að ræða, þá væri hægt kannske að leggja það í önnur fyrirtæki, sem hefðu minni áhættu? — Um það skal ég ekkert segja á þessu stigi málsins, — en þær umr. hafa ekki farið fram á milli atvinnumálanefndarinnar og fjhn., eins og kunnugt er.

Hin hliðin á málinu, sem hv. flm. minntist á, er það að skapa jafnrétti á milli Húsavíkur annars vegar og annarra kaupstaða á landinu. Ég hygg, að hann hafi nokkuð oft endurtekið þessi ummæli sín og þessi rök, og hann hefur haldið því hér fram hvað eftir annað, að Húsavík sé raunverulega nú orðið eini kaupstaðurinn á landinu, sem ekki hafi fengið þessi fríðindi, en hefur þó fallizt á, að Ólafsfjörður sé einnig einn af þeim, sem ekki hafi fengið þau. En hér er um mjög mikinn misskilning að ræða. Þegar úthlutað var 32 togurunum fyrstu, þ. e. a. s. fyrri nýsköpunartogurunum. sem kallað var, þá voru ekki veitt önnur eða meiri fríðindi til kaupanda en það, sem um getur í l. um stofnlánadeildina. Þá fengu einstaklingar eða félög að láni út á ný skip 2/3 af kostnaðarverði, og út á aðrar eignir allt að 3/5. Þessir aðilar urðu, áður en þeir gátu fengið skipin, að leggja inn alla sína nýbyggingarsjóði vaxtalausa, þar til þeir tóku á móti skipunum, og þannig átti að binda allt það fé í fyrirtækjunum til tryggingar því, að þeir gætu einmitt staðið undir sínum hluta. Annað fé urðu þeir svo að leggja fram sjálfir án nokkurrar aðstoðar. En bæjarfélög gátu fengið lánað 3/4 af kostnaðinum, þ. e. 75%. Þetta eru reglurnar, sem giltu um hina fyrri nýsköpunartogara. (Gripið fram í.) Eftir hvaða l. fengu þeir það? Nei, mætti ég aðeins benda hv. þm. á það, að það er hreinn misskilningur hjá honum. Þeir hafa ekki fengið neitt í viðbót út á þau skip, sem voru afhent af fyrri flokknum. — Nú skal ég koma að síðari flokknum. Eftir að búið var að úthluta 32 togurum með þessu greiðslufyrirkomulagi, sem ég vil nú taka fram að ég var algerlega á móti á þeim tíma, að það ætti að gefa nokkuð hagstæðari greiðsluskilmála til hreppsfélaga heldur en til einstaklinga, því að ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar, að mannmargt félag, sem ekki hefur jafnsterka ábyrgðartilfinningu, eigi að fá betri kjör til þess að reka atvinnufyrirtæki heldur en fámennur hópur, sem hefur bæði þekkinguna og ábyrgðartilfinninguna. Það hefur ekkert breytzt hjá mér sú skoðun. En þetta var samþykkt á sínum tíma hér, og þeir fengu þessa aðstoð. Þegar búið var að úthluta, eins og ég sagði áðan, þessum 32 togurum eftir þessum reglum, þá var samið um 10 nýja togara til, allmiklu stærri og dýrari skip, og um þá togara sótti fjöldi manna, byggt á því, að þeir kostuðu hlutfallslega ekki meira verð, en fyrri skipin. En þegar þeim skipum var fulllokið, þá hafði orðið gengisbreyting hér í landinu, og nú var þetta verð ekki rúmar 3 millj. kr. eins og á hinum skipunum, heldur var þetta verð um 9 millj. kr. á þessum skipum, sumpart vegna þess, að skipin voru miklu stærri og meira fylgdi í raun og veru í kaupunum, því að það var nú svo, að með síðari skipin var allt látið fylgja með í kaupunum, allur útbúnaður, öll siglingatæki, sem ekki fylgdu með í fyrri skipunum, en þá voru þessi skip komin upp í 9 millj. og sum upp í 10 millj. kr. Ríkisstj. hafði þá fengið lán út á þessi skip í Englandi sem svaraði 70%, og það var látið gilda sem 1. veðréttur á þeim skipum og ríkisábyrgð með því láni. Þetta þótti ekki nóg til þess að geta komið skipunum út og komið þeim til starfrækslu hér, og var þá farin sú leið að heimila ríkissjóði að leggja til eða lána 20% af andvirði skipanna, þannig að kaupendurnir greiddu aðeins 10%, en fengju 90% lánað með ábyrgð ríkissjóðs. En hér er bara um allt annað atriði að ræða. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að mæta þeim mönnum, sem höfðu áður pantað þessi skip á allt öðru verði heldur en endanlega varð, til þess að þeir gætu haldið sér við þá samning.a, sem þeir höfðu boðizt til að gera, og hins vegar að hjálpa til þess að standa að einhverju leyti undir þeim aukna kostnaði, sem varð hér vegna þess, hversu skipin urðu miklu dýrari.

Það skal viðurkennt, að þegar þessum skipum var úthlutað, þá kom einnig til athugunar að binda þessa úthlutun að nokkru leyti við nauðsynlegar atvinnubætur á einstökum stöðum og þó sérstaklega á Ísafirði, Siglufirði og Akranesi. Það voru ekki nægilega mörg skip til þess að úthluta í alla þessa staði. Akranes fékk því ekkert af þessu og hefur þar af leiðandi ekki fengið neina aðstoð á þann hátt, sem hv. flm. minntist á, og er því einn af þeim kaupstöðum, sem ekki hafa hlotið þetta hnoss. en hann sækir einmitt nú mjög fast að fá að vera með í þessum leik, og ég er alveg viss um það, að þegar frv. kemur til hv. neðri deildar, þá mun hv. þm. Borgf. bera fram tillögu um að setja þar inn ákvæði um það, að hann njóti sömu réttinda eins og hv. flm. hefur barizt fyrir að Húsavík fengi að njóta, vegna þess að aðrir bæir hafa fengið þau. Akranes fékk einn af hinum fyrri togurum með þeirri aðstoð að fá 75% lán og tryggingu frá ríkissjóði, og það er lægri upphæð heldur en 90%, sem hér er farið fram á. Þó að 500 þús. kr. séu látnar fylgja sem trygging, þá er sú upphæð allverulega lægri heldur en hér er farið fram á. Sama má segja um Ísafjörð. Hann fékk af fyrri flokknum eitt skip með 75% tryggingu ríkissjóðs, en hann fékk þó einnig af seinni flokknum eitt skip með 90% lánum og tryggingu, en með þeim rökum, sem ég hef skýrt hér í sambandi við það mál og er byggt á allt öðru, en hér er farið fram á í þessu frv. Siglufjörður fékk hins vegar ekkert af hinum nýju skipum, en til þess að bjarga þar atvinnumálunum, sem raunverulega ekkert kom við í sambandi við úthlutun þessara skipa, var hann aðstoðaður til þess að kaupa eitt af hinum fyrra flokki, sem flutt var héðan úr Reykjavík til þess að starfrækja það á Siglufirði, og hann fékk þá aðstoð, sem hér um ræðir, og það má raunverulega segja, að það sé eini kaupstaðurinn á landinu, sem hefur fengið alveg sérstaka aðstoð, þ. e. ábyrgð á 90% af kaupverði annarra skipa heldur en þeirra, sem voru flutt ný inn í landið. Enginn annar kaupstaður á landinu hefur fengið slíka aðstoð fyrr en Siglufjörður. Og ef nú á að veita hana Ólafsfirði og Húsavík, þá sé ég ekki annað en að það sé réttmætt — og vísa þar til raka hv. flm. — að allir aðrir bæir á landinu njóti sömu hlunninda og að þeir fái þá ekki hver um sig einn togara, heldur fái þeir því fleiri togara, því fleiri menn sem eru í þeim bæjum, en eru samanlagt í Húsavík og Ólafsfirði. Að öðru leyti verður þetta ekki gert að neinu réttlætismáli, en það er það, sem hv. flm. leggur aðaláherzluna á, að það sé afgreitt héðan sem réttlætismál, og þá vænti ég þess, að hann geri sér ljóst, að hann eigi ákaflega erfitt með að neita t. d. Reykjavík um aðstoð til að kaupa a. m. k. 30 togara, ef reiknað er, að þessir tveir fái einn togara samanlagt, eða 60, ef hugsað er að láta einn í hvorn stað. En mér þætti nú gaman að sjá, hvort hv. flm. mundi í alvöru sjálfur fylgja því eða gera tilraun til þess að fá hæstv. fjmrh. til þess að fylgja því að taka ábyrgð á kaupum á 60 skipum fyrir Reykjavíkurbæ, allt að 90% af kaupverði skipanna, og engin trygging væri gefin önnur en sú, sem farið er fram á hér í þessu frv. En það væri réttlætismál, og þarf ég ekki að minnast á þetta hér af því að ég sé þm. Reykv. eða ég viti ekki, að hæstv. dómsmrh. og aðrir hv. þm. Reykv. hér hafa fullkomlega komið auga á þetta réttlætisatriði, en mér þótti rétt að taka þetta fram, vegna þess að hv. flm. hefur lagt afar mikla áherzlu á þetta atriði í málinu. Ég held, að það mætti þá fara að hugsa um, hvort ekki þyrfti að leggja á nýja skatta, ef það ætti að tryggja ríkissjóði nægilegar tekjur til þess að standa undir þeim kostnaði, sem þannig gæti orðið, ef rekstur þeirra yrði ekki hagkvæmari heldur en verið hefur á þeim togurum, sem ég hef þegar bent á og sýnt fram á, að meginástæðan fyrir því er sú, að aðilarnir hafa ekki haft sömu hagsmuna að gæta í sambandi við reksturinn eins og þeir, sem hafa lagt í það meira fé.

Hv. flm. og hv. 1. þm. Eyf. hafa lagt á það mjög mikla áherzlu jafnan, að hér væri aðeins um heimild að ræða, sem ríkisstj. þyrfti ekki að nota og mundi ekki nota nema því aðeins að hún gæti fengið allar þær tryggingar, sem hún kynni að meta gildar. Ég geri ráð fyrir því, að þegar hæstv. ríkisstj. á sínum tíma hefur veitt ábyrgð fyrir hinum ýmsu lánum til eins og annars í landinu, þá hafi vakað fyrir henni á þeim tímum, að það væru nægilegar tryggingar fyrir þessum lánum, bæði í sambandi við raforkumál, hafnarmál og fleira í landinu, en það er nú þó komið svo nú, að hæstv. ráðh. hefur nýlega lagt fyrir fjvn. lista yfir 30 millj. kr., sem ríkissjóður hefur orðið að greiða sjálfur vegna þessara ábyrgða, og það er ekki sýnilegt annað en að það þurfi að taka allar þessar 30 millj. kr. inn á fjárlögin fyrr eða síðar, ef ríkissjóður ætlar ekki að verða vanskilaaðili, því að af umframtekjum er ekki hægt að greiða þessa upphæð. Það mundi hins vegar kosta mjög stóran, nýjan skatt á þjóðina. Nú hygg ég, að það sé sameiginleg skoðun mín og hv. flm., að fjárlagafrv. eins og það er nú þoli engan veginn, að bætt sé inn á það þeim 30 millj., sem hér um ræðir, og það verði því að reyna að fara einhverja aðra leið um það mál, og ég hygg, að hann sé mér líka sammála um það, að það sé ekki sæmandi hvorki honum né mér eða neinum af þeim hv. þm., sem eiga að bera ábyrgð á fjárlögunum, að skila þeim með greiðsluhalla á þessu ári eða á neinu ári, nema því aðeins að alveg sérstaklega steðji að einhver óhöpp, sem ekki er hægt að sjá á nokkurn hátt fyrir og yrði að gera út úr neyð, en þá er það ekki heldur furða, þótt bæði hann og ég setjum okkur niður til þess að athuga, hvort það sé rétt fyrir okkur að binda slíkan bagga á hæstv. ríkisstj. og ríkissjóðinn sem hér um ræðir, ef heimildin er notuð. Sé hins vegar heimildin ekki notuð, þá er hér um að ræða að ná einhverju öðru takmarki heldur en stefnt er að. En ég ætla hvorki hv. flm.hv. form. fjhn. það, að þeir séu með þetta mál sem eitthvert auglýsingamál til þess að vekja á sér athygli svona rétt fyrir kosningar, og það er einmitt vegna þess, að ég er ekki að ætla þeim það, að ég hef óskað eftir því að fá hæstv. ráðh. til viðtals í nefndinni og reyna að fá um það samkomulag við hann. en það hefur ekki fengizt, eins og hv. meðnm. mínum er vel ljóst.

Hv. frsm. sagði hér áðan, að þess væri ekki að vænta, að fyrir lægi hér kauptilboð um ákveðið skip, hæstv. ríkisstj. og viðkomandi ráðh. yrðu að meta það á hverjum tíma, hvort þeir staðir gætu misst skipin, sem hugsað væri að taka þau frá, ef þau væru keypt innanlands. Nú vildi ég gjarnan út af þessu spyrja hv. flm.: Ætlast hann til þess, ef frv. þetta verður að lögum, að heimildin verði ekki notuð af hæstv. ríkisstj., nema hún öll sé sammála um málið? Hans orð féllu þannig, að það væri á valdi hæstv. ríkisstj. að meta tryggingarnar gildar og að hún þyrfti ekki einu sinni að framkvæma heimildina eftir löggjöfinni, þótt nægileg trygging væri fyrir hendi, heldur gæti hún einnig sett að skilyrði, að fullkomið samkomulag fengist um það, að það skerti ekki atvinnumöguleika annarra staða á landinu með því að flytja þaðan atvinnutæki. Er það hans meining og vill hann viðurkenna það, áður en atkvgr. fer fram um frv. að lokinni þessari umr., að heimildina ætti ekki að nota af hæstv. ríkisstj., nema hún sé alveg sammála öll um þessi tvö atriði, annars vegar, að tryggingin sé nægileg, og hins vegar, að það sé ekki verið að íþyngja öðrum stöðum með því að taka þaðan skip til þess að flytja þau til Húsavíkur eða Ólafsfjarðar? Ef þessi yfirlýsing kemur frá hv. þm., þá breytir það náttúrlega ákaflega mikið minni afstöðu til málsins.

Þá sagði hv. þm. einnig, að hann tryði því varla, að hæstv. ráðh. vildi banna þannig sölu innanlands með því að fylgja ekki málinu á þeim grundvelli að það væri verið að taka togara t. d. frá Reykjavík. Ég hygg, að hér sé einhver mjög mikill misskilningur hjá hv. flm., því að það tvennt er ákaflega ólíkt að banna með lögum sölu skipa frá einum stað til annars innanlands af þeim ástæðum, að það gæti torveldað atvinnubætur á einum stað, þótt það hjálpi öðrum, eða hitt, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. séu með sérstakri löggjöf að ýta undir það, að þetta verði gert, þ. e. a. s. taka á sig alla fjárhagslega ábyrgð af slíkum kaupum og sölum. Það er reginmunur hér á milli. Ég hygg, að hæstv. dómsmrh. Mundi aldrei koma til hugar að gera tilraun til þess að banna með lögum að selja togara úr Reykjavík, ef það er kaupandi að honum og hann hefur fé til þess að kaupa skipið. En það er ekki það, sem er verið að hugsa um hér. Það er verið að þiðja ríkissjóð um að leggja til ábyrgð fyrir 90% af kaupverðinu og taka á sig ábyrgð kannske á annarri jafnhárri upphæð án þess að gefa nokkra tryggingu fyrir því, að upphæðin verði greidd, og það er ákaflega mikill eðlismunur á þessum tveimur atriðum. Nú get ég þess utan upplýst það, að hverju einu einasta af þessum skipum, sem flutt voru til Reykjavíkur, var úthlutað viðkomandi aðilum með þeirri kvöð, að það yrði ekki selt úr bænum aftur, og það var þess vegna, sem Reykjavíkurbær keypti þau eða krafðist þess, að honum yrði úthlutað svo og svo mörgum skipum til þess að tryggja atvinnurekstur þeirra hér. Það er því náttúrlega engin furða, þó að hv. þm. Reykv. spyrji um það í sambandi við þessi mál, hvort það sé hugsað að kaupa skip úr Reykjavik. Ég get líka upplýst, að þessi loforð hafa verið sniðgengin. Þegar Akurey var keypt úr Reykjavík, þá var skipið ekki keypt, heldur var félagið keypt upp og skipið þannig flutt og rekstur þess allur úr Reykjavík, þó að heimilisfang skipsins sé enn Reykjavík.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að hann væri ekki að ásaka okkur neitt, sem vildum fara varlega í þessu máli, og hann gæti að mörgu leyti fallizt á þau rök, sem við hefðum fært fram „til að vörunar“, eins og hann orðaði það, en þau væru bara allt of seint fram komin. En ég vil nú benda á, að þau eru þó ekki komin það seint fram, að þau hafi ekki haft þau áhrif, að hann og aðrir hv. fjhn.-menn hafi talið ástæðu til þess að spyrna svolítið við fótum, af því að þeir hafa séð, að rökin eru rétt, þótt þau séu ekki komin fram á fyrsta stigi málsins. Ég vil hins vegar endurtaka það hér, að ég bar strax fram á fyrsta stigi umræðnanna í hv. fjhn. öll þau rök, sem ég nú er að tala fyrir hér, þó að ég hins vegar skrifaði ekki undir nál. með fyrirvara eða gæfi út sérstakt nál., og það var vegna þess að ég bjóst við því, að það væri hægt að ræða um þetta mál við hæstv. ráðh. af fullri sanngirni og með fullri ábyrgð, því að það samstarf, sem ég hef haft við hæstv. ráðh. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hefur allt verið á þann veg, að hann hefur annars vegar sýnt fulla ábyrgð í starfi sínu og ég hins vegar sýnt honum og fullan trúnað. En þegar kemur að þessu máli, þá bregzt hann alveg embættisskyldu sinni, þ. e. að koma og ræða um málið hér í deildinni, því að það er sannarlega ekki lítil ástæða fyrir hann sem fjmrh. að ræða það hér, ef hann vill bera fulla ábyrgð á afgreiðslu þess og þeim fjárlögum, sem afgreiðsla þess hefur áhrif á. Hefur hann sýnt fulla ábyrgð í miklu smærri atriðum, en hér um ræðir. Er því sannarlega full ástæða til þess að krefja hann til ábyrgðar hér í þessari hv. deild, á meðan verið er að ræða þetta stórkostlega fjárhagsmál.

Ég vil hins vegar enn, út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði hér, að það hefði áreiðanlega verið talið afturhald á nýsköpunartímunum, ef það hefðu verið haldnar slíkar ræður af framsóknarmönnum eins og við höfum haldið hér í sambandi við þetta mál, benda hv. þm. á, að í fyrsta lagi eru þau rök, sem eru færð hér, byggð á reynslunni, þeirri reynslu, að atvinnutækin þola ekki takmarkalausar kröfur. Hins vegar er það svo, eins og ég tók fram áðan, að þau skipin, sem mest hafa tapað, höfðu ekki nægilegan fjárhagsstyrkleika á bak við sig frá eigendunum sjálfum til þess að skapa nægilegan áhuga á rekstri skipanna. Ég skal í sambandi við það leyfa mér að benda hér á, ég er alveg að ljúka mínu máli. — að við höfum nú með að gera eitt fyrirtæki, sem að vísu er ekki togari, heldur annað útgerðarfyrirtæki, sem er með um 2½ millj. kr. eignir og skuldir, en hlutaféð í þessu fyrirtæki eru einar 35 þús. kr. Hvernig í ósköpunum er hægt að búast við nokkurri ábyrgð frá þeim mönnum, sem starfrækja fyrirtæki með 2½ millj. kr. eignir í höndunum og bera sjálfir ekki ábyrgð nema á einum 35 þús. kr. í rekstrinum, og fyrir það m. a. er þetta fyrirtæki komið eins og það er komið nú, að það verður að leita til ríkissjóðs, vegna þess að það hefur vantað algerlega þann fjárhagslega grundvöll til þess að starfrækja fyrirtækið annars vegar og fjárhagslega ábyrgð þeirra manna, sem reka það, hins vegar.

Ég vil svo aðeins að síðustu leyfa mér að lýsa því yfir, að vegna þeirrar tillögu, sem fram er komin á þskj. 249 frá meiri hl. n., og í trausti þess, að hv. meiri hl. n. taki málið enn til athugunar og sveigist enn meir inn á mína tillögu á þskj. 212, mun ég taka till. aftur til 3. umr. Verði mín tillaga ekki samþ. við 3. umr. eða önnur till. komin fram, sem er nær minni till. heldur en till. á þskj. 249 og þá nái fram að ganga, mun ég ekki sjá mér fært að fylgja frv. út úr deildinni, þrátt fyrir það þó að ég hafi ekki skrifað undir nál. með fyrirvara, og vísa ég þá til þess, sem ég frá upphafi hef sagt í n. og skýrt hér nú.