21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

10. mál, áburðarverksmiðja

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég gat nú því miður ekki komið á fund hv. fjhn., sem haldinn var í morgun, þegar rædd var brtt. á þskj. 267, sem var nánast vísað þangað undir umr. í gær. En um brtt. sjálfa ætlaði ég ekki að tala, en ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að ég hefði skrifað undir nál. varðandi frv. það, sem hér liggur fyrir, með fyrirvara, og gerði ég þá grein fyrir mínum fyrirvara, að ég væri frv. sjálfu samþykkur og vildi staðfesta heimild brbl. um að veita áburðarverksmiðjunni það lán, sem þar er gert ráð fyrir og mun vera búið að framkvæma. Hins vegar flutti ég þá fram nokkrar athugasemdir út af l. um áburðarverksmiðjuna og benti á, að það væri brýn þörf endurskoðunar á þeim l. og að einmitt lánveiting til áburðarverksmiðjunnar gæfi tilefni til þess, að það færi fram endurskoðun á l. um áburðarverksmiðjuna.

Ég er áfram sömu skoðunar og ég lýsti yfir þá og þarf ekki að endurtaka þau rök, sem ég flutti undir þeirri umr. málsins, enda hefur verið undir þau tekið og þau einnig borin fram af öðrum hv. þm. og sýnt fram á, svo að ekki verður um villzt, að með breyt. þeirri, sem gerð var á frv. á sínum tíma í Ed., var skotið inn í nýjum ákvæðum um stofnun hlutafélags í kringum verksmiðjuna, sem gerir það að verkum, að rammi hinnar upprunale2u löggjafar, eins og hún var hugsuð, hefur raskazt. Og það ber að mínu viti brýna nauðsyn til þess, að þessi löggjöf verði endurskoðuð, hvort sem sú endurskoðun leiddi þá til þess, að l. væri breytt í upprunalegt horf, eða þá haldið fast við að lögbinda áfram þá breyt. l., sem gerð var með brtt., sem samþ. var í Ed. um heimild til þess að mynda um verksmiðjuna hlutafélag, en ef það yrði álitið rétt af meiri hluta Alþingis að halda því skipulagi, þá þyrftu l. samt breyt. við, svo að þau væru eins og vera ætti.

Ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að rökunum fyrir þessu. Mér virðast þau liggja svo í augum uppi. Þm. þurfa ekki annað, en lesa lögin sjálf til þess að sjá, hversu þessu er háttað. Þess vegna finnst mér eðlilegt að flytja nú í sambandi við þetta frv. brtt., sem ég, með leyfi hæstv. forseta, skal lesa upp, en flutt er skriflega og ég mun afhenda hæstv. forseta og biðja hann um að leita afbrigða um, að hún megi koma hér til atkvæða og umr. undir þessari umr. málsins. Brtt. hljóðar þannig:

„Á eftir 1. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Endurskoða skal l. nr. 40 23. maí 1949, um áburðarverksmiðju, og þeirri endurskoðun lokið, áður en reglulegt Alþingi 1953 kemur saman.“

Þetta er í framhaldi af mínum áskilnaði í sambandi við löggjöfina, eins og hún er í dag, og tel ég nauðsynlegt, að þessi endurskoðun fari fram. Það er heldur ekkert óvanalegt í íslenzkri löggjöf, að sett séu ákvæði, eins konar ákvæði til bráðabirgða, um að ákveðin löggjöf skuli endurskoðuð innan tiltekins tíma, og þess vegna finnst mér það líka rökrétt, að það sé í sambandi við þetta frv. Þó að það sé aðeins um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna byggingar áburðarverksmiðju, þá snertir þetta svo mjög rekstur fyrirtækisins og skipulag þess eftir gildandi l., að ég tel nauðsyn á, að þessi endurskoðun fari fram. Leyfi ég mér því að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. og bið um, að hann leiti afbrigða fyrir því, að hún megi koma til umr. og atkvgr.