04.02.1953
Neðri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (3522)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Pétur Ottesen:

Formaður fjhn., hv. þm. V-Húnv., viðhafði þau orð hér áðan, að hann sem formaður n. hefði nú síðastur yfirgefið það stóra strand, sem orðið hefði í fjhn. í þessu máli, sem vel ætti líka við, og er ekki að efa, að hann hefur gert það af björgunaráhuga, af áhuga fyrir því að bjarga mannslífum og góssi úr þessu stóra strandi.

Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við þetta frv.. sem ég hef stílað inn í brtt. 3. minni hl. fjhn., og er hún um það, að ábyrgð verði tekin fyrir Akraneskaupstað vegna kaupa á togaranum Akurey. Ég var hér í dag með brtt. við frv. um breyt. á stofnlánadeildinni, þar sem bátaútvegsmönnum var veittur gjaldfrestur á afborgunum til stofnlánadeildarinnar. Ég var með brtt., sem gekk í þá átt, að sams konar ákvæði tækju og til togaranna. Þessi brtt. var hér fyrir skömmu felld í hv. d. og þar með er þá vitanlega úr sögunni sá aðstöðuléttir, sem orðið hefði fyrir þá, sem erfiðlega gengur með togaraútgerðina, eins og er hjá sumum bæjarfélögunum. Nú hefur nokkrum bæjarfélögum verið veitt sú aðstaða, að ríkisstj. hefur verið heimilað í 22. gr. fjárl. að ganga í ábyrgð fyrir allt að 500 þús. kr. fyrir hvert skip. Það er vitað, að þessi aðstoð nær harla skammt til þess að greiða úr þeim greiðsluerfiðleikum, sem sum togaraútgerðarfélögin nú eru komin í. Og þannig er þessu háttað um Akraneskaupstað. Ég hef því leyft mér hér að bera fram brtt. um það, að hann komi undir þá ábyrgðarheimild, sem felst í þessu frv., að ríkissjóði sé heimilað að ganga í ábyrgð fyrir allt að 90% af kaupverði þeirra togara, sem þar um ræðir, bæði í frvgr. og þeim brtt., sem ég hef nú stílað mína brtt. við, og eru í rauninni fleiri rök, sem hníga undir það, að ég ber fram þessa brtt., heldur en ég hef enn talið.

Svo stóð á, þegar verið var að útdeila þeim 10 togurum, sem keyptir voru hér til viðbótar fyrir nokkrum árum, að þá hafði Akraneskaupstaður borið fram óskir um það, að hann fengi einn af þessum 10 togurum. Og sakir stóðu þannig, að samkv. þeim reglum, sem settar höfðu verið um úthlutun þessara togara, átti hann rétt á að fá einn af þessum togurum. En þessi réttur var af honum tekinn í skjóli þess, að nauðsynlegt taldist vegna atvinnuástæðna annars staðar á landinu að taka þennan togara og ráðstafa honum til annars kaupstaðar til þess að bæta úr þessum erfiðleikum. Þetta var og viðurkennt af ríkisstj. eða hæstv. forsrh., sem reifaði þessi mál eða var í andsvari fyrir þessi mál hér á Alþingi af hálfu ríkisstj., og höfðu fallið orð um það, að eðlilegt væri, að ef Akraneskaupstaður ætti þess kost að fá keyptan togara, þá nyti hann þeirra hlunninda, sem hann hafði haft rétt til að njóta, ef þessi réttur hefði ekki verið af honum tekinn. Nú bar svo að, að Akraneskaupstaður átti þess kost að fá keyptan togara héðan úr Reykjavík. En þá kom upp úr dúrnum, að Reykjavíkurbær hafði rétt á því í sambandi við aðstoð, sem hann hafði veitt við þessi kaup, að taka af skarið um það, að togarinn yrði seldur burt úr Reykjavík. Og þar með strandaði sá möguleiki. Ríkisstj. vildi ekki blanda sér inn í þetta deilumál, og þar með var úr sögunni sá stuðningur við kaupin, sem ríkisstj. hafði áður gefið vilyrði fyrir að fyrir hendi væri. Nú varð samt sem áður úr þessum kaupum. Akraneskaupstaður keypti þennan togara, en varð að fara nokkrar hliðargötur, til þess að þeim kaupum yrði komið í kring. Út úr þessu reis nokkur deila á milli Akraness og Reykjavíkurbæjar, en sú deila er nú alveg úr sögunni. Því var nefnilega þannig háttað, að þó að kaupin færu fram, þá varð togarinn eftir sem áður — eða það félag, sem að honum stóð — að eiga lögheimili hér í Reykjavík. En nú hefur án ágreinings heimilisfang hans verið flutt til Akraness, þannig að sú deila, sem reis út af kaupunum, er nú alveg úr sögunni og það mál að fullu jafnað.

Nú hef ég með skírskotun til þessa tvenns, að Akraneskaupstaður hefur nú fyrir það mikla þörf, vegna þess að erfiðlega hefur gengið með útgerð togaranna, en þeir eru hins vegar mjög sterkur þáttur í atvinnulífi kaupstaðarins, og að öðru leyti með tilliti til þessa fyrirheits, sem gefið var á sínum tíma af ríkisstj. um stuðning við kaup á þessum togara, leyft mér að bera fram þessa till. Og ég vænti þess, að þessi hv. d. liti á þörf Akraneskaupstaðar í þessu og jafnframt vilji hún staðfesta það fyrirheit, sem ríkisstj. gaf á sínum tíma um stuðning við þessi kaup. Ég legg því þessa till. mína hér fram og vænti þess, svo framarlega sem þetta mál hefur þann byr, að það verði afgr. hér í d., sem vænta má, að þá verði þessi till. mín einnig samþykkt.

Ég vil taka það fram að gefnu tilefni vegna þeirra ummæla, sem einhver hv. þm. hafði hér áðan, að þessar síðari till. mundu ef til vill verða til þess að spilla fyrir þeim, sem áður væru fram komnar, þ. e. a. s. vegna Húsavíkur og Ólafsfjarðarkaupstaðar, þá hefur vafalaust verið átt við það með þessum ummælum, að það væru þá fleiri orðnir um kaupin, svo að það gæti orðið nokkur reipdráttur um það, þar sem hér væri um að ræða kaup á togurum og flutning á milli staða hér innanlands. Þetta kemur vitanlega alls ekki til greina hvað mína till. snertir, þar sem hér er ekki um nein slík kaup eða tilfærslu að ræða.