06.02.1953
Neðri deild: 69. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (3528)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég held það sé nú ekki tími til almennra umr. um þetta mál. Vafalaust hafa flestallir þm. gert sér ljóst, að atvinnulífi úti um land á fjöldanum öllum af stöðum er stofnað í voða, ef ekki er hægt að fjölga þar togurum og veiðiskipum. Og möguleikinn fyrir Íslendinga á því að afla sér fleiri togara til landsins er tvímælalaust fyrir hendi, og möguleikinn til þess að reka þá er líka til, svo framarlega sem ríkisstj. lætur það afskiptalaust, að menn fái að framleiða í friði og selja út úr landinu og kaupa inn aftur í staðinn. Það er þess vegna bæði möguleiki til þess að fjölga togurum hingað til Íslands og eins að tryggja það, að fleiri togarar geti komizt út um land, eins og þörf er fyrir staðina þar, og það þó að samtímis sé fjölgað togurum hérna í Reykjavík.

Það, sem liggur fyrir okkur í sambandi við þetta mál núna, er, hvort við ætlum að koma þessu máli í gegn eða ekki. Ég kvartaði yfir því við 2. umr. þessa máls, hvað málið hefði legið lengi í fjhn. og að n. hefði ekki staðið í stöðu sinni með að afgr. þetta mál þannig, að það væri starfhæfur meiri hl., sem stæði á bak við það. Og það er slæmur verknaður gagnvart fátækum stöðum úti um allt land, sem eru að berjast fyrir því að fá togara, að leggjast þannig á málin í þinginu eins og þar var gert. Ég veit, að þetta kom til af því, að Framsfl. vildi ekki afgr. þetta mál með okkur sósíalistum í þinginu, sem var hægt. Þess vegna hefur nú verið gerð tilraun til þess að afgr. þetta mál með því að samþykkja við 2. umr. till., sem þm. og fjhn.-fulltrúar Sjálfstfl. hafa flutt. Ég álít, að það hvíli sú siðferðislega skylda á þeim, sem samþ. till. við 2. umr., að halda málinu áfram og koma því í gegn. — Nú hef ég heyrt, að Ed. hafi lokað. Ég álít, að það geti ekki gengið, að svo framarlega sem mál er samþ. hér nú við 3. umr. í síðari deild, þá sé neitað að taka það til einnar umr. í Ed. Hins vegar álít ég nauðsynlegt, að við, sem viljum reyna að koma þessu máli í gegn þannig, að það mætti verða að einhverju gagni, reynum að búa málið þannig í hendur Ed., að hún geti samþ. það. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt., sem er á þskj. 794. Ég flutti brtt. við þetta mál við 2. umr.brtt. mín kom ekki til atkv., vegna þess að önnur till. var samþykkt. Ég er hins vegar ákaflega hræddur um, eftir undirtektum Ed. undir málið þegar það var þar til umr., að eins og það liggur nú fyrir, þá séu lítil líkindi til þess, að Ed. samþykki það óbreytt. Ég veit hins vegar, að það er engin von til þess, að þetta mál gangi í gegn, svo framarlega sem á að flækja því fyrst milli deilda og síðan í Sþ. Ég vil þess vegna gera tilraun til þess, í samræmi við það, sem ég hef reynt frá upphafi í sambandi við að koma þessu máli í gegnum þingið, flytja hér brtt., sem mér þykir ákaflega líklegt að Ed. geti gengið inn á. Hún gengur ekki eins langt og sú till., sem Ed. samþykkti, en hún gengur þó nokkuð í áttina við það, þannig að þetta ætti að geta skoðazt sem sanngjörn málamiðlun, ef menn vilja reyna að koma málinu í höfn. Ég vil þess vegna leyfa mér að skora á hv. þdm. að samþykkja þessa brtt. mína og mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beiti sínum áhrifum til þess, að Ed. taki málið til einnar umr. og afgr. það. Ég hef ástæðu til þess að ætla, að með samþykkt minnar till. væri líklegt, að Ed. samþ. málið. Og ég álít það vera ákaflega illa farið og illa gert, þegar búið er að tefja mál svona lengi eins og þetta, að tefja það nú við umr. þannig, að það komist ekki til Ed., ef hægt er að knýja fram, að hún sé opnuð. Þess vegna vil ég eindregið mælast til þess, að brtt. mín á þskj. 794 verði samþ. og hæstv. forseti beiti áhrifum sínum til þess að fá Ed. opnaða, þannig að hún taki málið til einnar umr., ef okkur tekst að afgr. það nú þegar.