06.02.1953
Neðri deild: 69. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (3532)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Magnús Jónsson:

Það voru aðeins örfá orð í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram. Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að segja það, að það er að vísu mjög nauðsynlegt, eins og fram hefur komið, að þeir staðir, sem teknir hafa verið inn í þetta frv., fái aðstoð til þess að kaupa togara og jafnvel önnur skip, svo sem gert hefur verið ráð fyrir. En mér virðist málið vera komið á þann grundvöll með æ nýjum till., sem inn í það koma um ábyrgðarheimildir, að mjög sé tvísýnt um úrslit þess og eiginlega meira en tvísýnt, vegna þess að það virðist svo málum háttað, að það verði ekki tekið fyrir í hv. Ed., þótt það verði afgr. hér út úr deildinni.

Ég vil láta það koma fram hér í þessari hv. d. varðandi Ólafsfjörð, sem var tekinn inn í þetta frv. í meðferð þess í Ed. að, að minni hyggju stendur nokkuð sérstaklega á um hann. Ef til vill er hv. þm. það kunnugt, að þegar 10 togararnir síðustu voru keyptir til landsins, þá var mjög fast sótt af Ólafsfirðingum í félagsskap við Dalvíkinga að fá einn togara og það svo mjög, að þeir höfðu þegar safnað loforðum heima fyrir um nægilegt fjármagn til þess að standa undir þeirri útborgun, sem átti að vera, þ. e. a. s. 800 þús. kr., sem gert var ráð fyrir að yrði fyrsta afborgun af skipinu. Þeim var hins vegar þá synjað um að fá togara. Í stað þess voru togarar seldir nokkrum öðrum stöðum með miklu vægari kjörum, þannig að þeir þurftu ekki að borga nema lítinn hluta þessarar upphæðar, og var það þá varið á þeim grundvelli, að það væri meiri þörf, að þessir staðir fengju atvinnutæki, heldur en Ólafsfjörður og Dalvík. Ég þykist vita, að öllum hv. þm. sé kunnugt um það, að aðstaða þeirra, sérstaklega Ólafsfirðinga, er þannig, að það er algert sjávarpláss, þannig að kaupstaðurinn og íbúar hans verða að öllu leyti að byggja atvinnumöguleika sína á útgerð. Af þeirri sök er það þeim lífsnauðsyn að halda uppi sem öflugastri útgerð í bænum, sem geti verið þess umkomin að veita öllum bæjarbúum atvinnu. Það er því tvímælalaust, að það eru fáir staðir, sem til þessa hafa ekki fengið togara, sem hafa hans meiri þörf heldur en Ólafsfjörður. Af þeim sökum hefði mér fundizt eðlilegt, ef hefði verið hægt að sameinast um það hér á hinu háa Alþingi að afgr. þessar heimildir til Húsavíkur og Ólafsfjarðar, en bæta þar ekki inn í svo mörgum heimildum sem gert hefur verið og virðast, eins og ég sagði, ætla að hafa þær afleiðingar, að frv. nái ekki fram að ganga.

Ég vildi aðeins láta þessa skoðun mína koma fram hér. Ég hef hins vegar ekki viljað greiða atkv. gegn þeim heimildartill. öðrum, sem fram hafa komið, vegna þess að mér hefur virzt hugur þm. vera þannig, að það mundi fremur tefja fyrir framgangi málsins hér í þessari hv. d. heldur en greiða fyrir því, ef þær heimildir hefðu verið felldar.

Ég vil svo að lokum segja það, að þótt um það sé talað hér og t. d. af hæstv. viðskmrh., að það sé í mjög mikið ráðizt af litlum bæjarfélögum að kaupa togara, þá er það að vísu alveg rétt. En ég vil jafnframt vekja athygli á því, að sú stefna, sem upp hefur verið tekin hér á Alþingi og af hæstv. ríkisstj., — sem ég er út af fyrir sig alls ekki að lasta að gert hefur verið, en hefur þó sínar afleiðingar, — að halda áfram aðstoð við bæjarfélögin, sem fengið hafa togarana, til að tryggja það, að þau geti haldið þeim, hlýtur að sjálfsögðu að verka þannig á þau bæjarfélög, sem ella hefðu haft nokkra vantrú á getu sinni til þess að eignast slík framleiðslutæki, að þau hugsi sem svo: Ja, úr því að hinum aðilunum, sem hafa fengið tækin, er hjálpað til að halda þeim áfram, þá á það ekki að vera áhætta fyrir okkur að ráðast í slíkar framkvæmdir. — Nú er ég ekki með þessu að segja, að þetta sé heilbrigður hugsunarháttur, en engu að síður er hann til staðar. Og ég vildi nú að lokum leyfa mér að varpa fram þeirri hugmynd til athugunar fyrir hæstv. ríkisstj., ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, hvort ekki eru möguleikar til, að það verði tekið til athugunar í sambandi við þá aðstoð, sem samþykkt hefur verið hér á Alþingi til nokkurra bæjarfélaga í sambandi við togaraútgerð þeirra, að það verði sett að skilyrði fyrir þeirri aðstoð, að togarar þessir leggi að einhverju leyti upp afla sinn á fleiri stöðum til þess að fullnægja atvinnuþörf íbúa þar einnig. Að minni hyggju hefur verið nokkuð misjafnlega skipt þeim togurum, sem til landsins hafa komið, á milli kaupstaðanna. Og mér finnst ekki nema eðlilegt, að þetta atriði væri mjög tekið til athugunar. — Ég vildi aðeins varpa fram þessari hugmynd og tilmælum til hæstv. ríkisstj., en ætla ekki að öðru leyti að lengja umræðurnar.