06.02.1953
Neðri deild: 69. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (3533)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál er eiginlega dreifbýlismál, eins og mörg mál, sem koma fyrir Alþingi, eru kölluð. Ég vil geta þess, að þegar ákveðið var að byggja seinni togarana, þessa 10, þá sótti Þingeyrarhreppur um einn þeirra. Hann fékk litla áheyrn hjá ríkisstj. og enga að endingu. Það skal játað, að við vorum ekki tilbúnir með fullkomin fjárframlög á þeim tíma, sem endanlega var ákveðið um þau. Það má segja, að við höfum þess vegna orðið af nýsköpunartogara.

Þannig er nú háttað um Vestfirði, eins og hv. þdm. er kunnugt, að bátaútgerð er útilokuð eins og nú er komið. Þess vegna höfum við horfið að því að leita á náðir ríkisstj. og Alþingis, og við gerðum það sérstaklega árin 1950 og 1951 að leita á náðir þeirra um hjálp til kaupa á gömlum togurum. Flateyringar og Þingeyringar hafa rekið þessa tvo togara nú í tæpt ár. og það hefur reynzt erfitt. Ef um það væri að ræða að hverfa að því ráði að fá nýrri togara eða nýsköpunartogara, eins og einn hv. þm. gat um áðan og kom fram með sem sína hugmynd, þá væri það nauðsyn fyrir þessi þorp. Ég vil þess vegna flytja hér fyrir þorpin í Vestur-Ísafjarðarsýslu, öll þrjú, till. um það, að á eftir 3. tölulið 1. málsgr. 1. gr. frv. bætist nýr töluliður, svo hljóðandi:

„Fyrir Þingeyrar-, Flateyrar- og Suðureyrarhreppa til kaupa á einum nýsköpunartogara.“ Ég tel, að ef einhverjir ættu að fá togara af nýrri gerð, þá væru engir betur komnir að þeim togurum en einmitt Vestfjarðaþorpin. Það er vitanlegt mál, að mestur hluti togaraaflans fæst út af Vestfjörðum, á svo kölluðum Halamiðum. Það sagði einn þekktur útgerðarmaður fyrir nokkrum árum, að enda þótt Landsbankinn væri tómur, þá væri bankinn suður af Reykjanesi alltaf auðugur. Það má til sanns vegar færa, að bankinn hérna fyrir sunnan hefur alltaf verið auðugur. Ég tel, að við Vestfirðingar eigum annan slíkan banka, sem alltaf hefur reynzt auðugur af verðmætum til hagsbóta fyrir land og lýð. Ég tel og hef alltaf talið, að það hafi verið misráðið, að fram hjá Vestfjörðunum var gengið þegar nýsköpunartogurunum var útdeilt um landið, og m. a. af þeim ástæðum, sem ég hef getið um, að fiskimið togaranna eru fyrst og fremst út af Vestfjörðum. Þess vegna tel ég, að ef hefja ætti nýjar framkvæmdir í byggingu togara nú á næstunni eða dreifa togurunum frá þeim stöðum, sem þeir nú eru á, þá væru engir staðir betur fallnir til þess að taka við þeim, en einmitt Vestfirðirnir, og ég vil beina því eindregið til hv. Alþingis, að það hlynni fyrst og fremst að þeim stöðum, sem næstir eru beztu togaramiðum landsins. Ef ætlunin er að hefjast að nýju handa í þessu efni, sem ég tel að væri eðlilegt, þ. e. að byggðir væru nokkrir nýsköpunartogarar með dieselvélum, sem ég tel vera einu skipin, sem til mála getur komið að byggja í framtíðinni, þá ættu Vestfirðingar fyrstir að fá þá. Ég skal játa, að ég tel jafnhliða, að það væri eðlilegt, að á næsta þingi, því að þessu þingi er að verða lokið, yrði athugað, hvort Alþingi sæi sig ekki knúið til að hefja ríkisútgerð á togurum úti um land, vegna þess að fjármagn er ekki til í hinum smærri þorpum til þess að halda útgerð þar gangandi. Og ekki hefur enn þá verið séð fyrir því í bönkum landsins, að þeir hjálpuðu sem skyldi togaraútgerð í smærri þorpum. Ef ekki er séð fyrir þessu í bönkunum, þá er það knýjandi nauðsyn, að ríkisvaldið sjál þessum þorpum farborða einmitt með ríkisútgerð togara.