06.02.1953
Neðri deild: 69. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (3536)

69. mál, kaup á togurum og togveiðibát

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var í öndverðu flutt í Ed. af hv. þm. S-Þ. og var þá um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast fyrir Húsavík lán til kaupa á togara. Þessu máli var í hv. Ed. vísað til fjhn. og var þar til meðferðar. Fjhn. Ed. leitaði um það umsagnar atvinnumálanefndar ríkisins. Í áliti sínu hefur fjhn. birt umsögn atvinnumálanefndar eða hluta úr henni. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Telja má upplýst, að vélbátaútgerð frá Húsavík yfir vetrarmánuðina sé lítt framkvæmanleg, svo að nokkru nemi, nema mjög skipti um til hins betra um aflabrögð, enda hafa hinir stærri bátar Húsvíkinga flutt sig á Suðurlandsmið undanfarnar vetrarvertíðir. Afleiðingin er atvinnuleysi á Húsavík yfir þennan tíma, nema unnt reynist að fyrirbyggja það, annaðhvort með öflun hráefna úr sjónum eða með stofnun einhvers konar iðnfyrirtækja, sem fólkið gæti haft atvinnu við, meðan stærri vélbátarnir eru fjarri heimamiðum.“

Svo heldur atvinnumálanefnd áfram:

„Eins og sakir standa, er eigi unnt að benda á iðnaðarmöguleika til þess að fylla þetta stóra skarð í atvinnu Húsvíkinga. Virðist þá eigi annað úrræði fyrir hendi en að Húsvíkingar eignist umráð yfir veiðiskipi, sem sótt geti afla á fjarlægari mið og flutt hann til Húsavíkur, þótt að vetrarlagi sé, og verður að telja, að togari uppfylli bezt það hlutverk. Það er því skoðun n., að togari, sem legði afla sinn á land í Húsavík, sé líklegasta úrræðið til þess að draga úr árstíðabundnu atvinnuleysi þar.“

Af því að hér er nú skammur tími til umr., þá skal ég ekki lesa hér upp allt álit atvinnumálanefndarinnar. En ég skal nefna það, að hún kemst að þeirri niðurstöðu, að Húsvíkingar mundu eigi að siður eiga nokkuð erfitt með að nýta til frystingar afla úr togara að fullu. Og þess vegna bendir hún á það úrræði .... (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að fundartíminn er liðinn, þannig að ef hann vill koma fram brtt., þá verður hann að flytja hana.) — Ég skal þá mjög stytta mál mitt. — En atvinnumálanefnd benti á það úrræði, að annar kaupstaður á Norðurlandi yrði hér í félagi við Húsavík um togarann, og er þar sérstaklega bent á Ólafsfjörð og Dalvík. Niðurstaða þessa varð svo sú, að Ed. gekk þannig frá frv., að í því fólst ábyrgðarheimild fyrir Húsavík og fyrir Ólafsfjörð. Og ég er að skýra frá þessu áliti atvinnumálanefndar vegna þess, að á því virðist frv. vera byggt eða meginefni þess elns og það var afgr. í hv. Ed.

Nú hefur málið verið hér um stund til meðferðar í þessari hv. d., og fjhn. d. hefur haft það til meðferðar. Mér er ekki kunnugt um, að sú n. hafi rætt neitt við atvinnumálanefnd ríkisins um þetta mál. Hins vegar hafa komið fram hér í d. brtt. frá ýmsum þm. þess efnis að taka inn ábyrgð á togurum fyrir ýmsa aðra staði. Mér virðist, að þær till. hafi ekki verið á sama hátt rökstuddar eins og þær till., sem samþ. voru í Ed., þar sem ég hef þegar gert grein fyrir því, að það byggðist beinlinis á áliti atvinnumálanefndar ríkisins, sem þar var samþ. Þess vegna hef ég nú leyft mér, ásamt hv. þm. V-Húnv., að flytja hér skriflega brtt. við frv. sem er á þá leið í stuttu máli, að það verði fært í það horf aftur, að ábyrgðin verði eingöngu til togarakaupa fyrir Húsavík og Ólafsfjörð.

Ég vildi mega vænta þess, að ef þessi brtt. yrði samþ., þá yrði frv. frekar framgangs auðið heldur en í þeim búningi, sehi það nú er. Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.