23.10.1952
Efri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (3539)

85. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga o. fl.

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þegar ég lagði þetta frv. inn á skrifstofu Alþ., fór ég fram á, að með grg. yrði prentuð mynd, sem sýnir, hvernig umhorfs er í reykvískri braggaíbúð á því herrans ári 1952. Þessari beiðni minni var neitað og talið, að ekki hefði áður verið gefið fordæmi um slíkar myndbirtingar sem ég fór fram á. Ég hygg þó, að þetta sé ekki alls kostar rétt. Í grg. hæstvirtra forseta var sagt, að aðeins hefðu verið birtar skýringarmyndir með fræðilegum ritgerðum og annað þess háttar. Ég minnist þess í þessu sambandi, að skömmu fyrir stríð kom hér fram á þingi frv. til l. ásamt allmikilli grg. frá núverandi landlækni, Vilmundi Jónssyni, um afkynjanir og vananir. Þeirri grg. fylgdu margar myndir, sumar litprentaðar. Meðal annars minnist ég þess, að þar voru myndir af allmörgum mannsandlitum, og tilefnið til þess að birta þau þar var, að þm. áttu að sjá út úr andlitunum, hvort þar væru vitrir menn eða heimskir, og á öðrum stað í grg. kom svo ráðningin. Að sjálfsögðu hafði sú myndbirting ekki neitt fræðilegt eða vísindalegt gildi í sjálfu sér og aðeins fram sett til þess að vekja þm. til umhugsunar, vekja athygli þeirra á vandamáli, fá þá til þess að gefa því meiri gaum. Og tilgangurinn með beiðni minni var nákvæmlega sama eðlis. Ég vildi undirstrika ástand, sem er ákaflega alvarlegt, og ég vildi, að það færi ekki fram hjá neinum hv. þm., hvað hann væri að gera, þegar hann tæki afstöðu til þess frv., sem hér er borið fram.

Það vita allir, að ástandið í húsnæðismálum er mjög alvarlegt. Rannsókn hér í Reykjavík var t. d. framkvæmd af hagfræðingi bæjarins 1948, og hún sýndi, að þá bjuggu 2.114 manns í bröggum, þar af 838 börn. Árið 1950 var sams konar rannsókn framkvæmd, og þá voru íbúarnir í bröggunum 2.210 og börnin 924. Braggabúunum hafði því fjölgað á þessu tímabill, og sú þróun hefur eflaust haldið áfram. Árið 1948 fór fram hliðstæð rannsókn í kjöllurum. Í þeim bjuggu þá 6.085 manns, og af þeim var meira en 1/4 börn, eða nánar tiltekið 27%. Trúnaðarmenn bæjarins dæmdu 38% þessara kjallaraíbúða lélegar til íbúðar og 12% mjög lélegar eða óhæfar með öllu. 20% þeirra, sem í kjöllurum bjuggu, höfðu aðeins til umráða eins herbergis ibúð. Þessar rúmar 6 þús. manna bjuggu allar í kjöllurum í trássi við l., því að 1929 voru kjallaraíbúðir bannaðar með l., og þau l. eru enn í gildi. Ótalið er, hverjir búa í hanabjálkaskonsum, skúrum og ýmsum furðulegum vistarverum.

Sérfræðingar Reykjavíkurbæjar hafa talið, að nauðsynleg byggingarþörf í Reykjavík væri ekki minni en 6–7 hundruð íbúðir á ári. Íbúðarbyggingarnar komust upp í þá tölu 1947, en síðan hefur þeim hrakað stöðugt, og síðasta ár voru byggðar aðeins 280 íbúðir í Reykjavík. Að vísu hefur vaknað nokkur áhugi fyrir byggingarmálunum hér á þingi í fyrra og í ár, og það er sjálfsagt að geta þess, að það er auðvitað framför út af fyrir sig, að fólki hefur verið leyft að byggja smáíbúðarhús af eigin rammleik. Ég vil þó ekki fara svo langt að kalla það eitthvert lofsvert afrek, því að það er svo sjálfsagt, að það ætti varla að þurfa að ræða það. Hins vegar vildi ég benda á það í því sambandi, að þetta byggingarform, slík smáíbúðarhús, sem virðist vera talið helzta bjargráðið núna, er auðvitað engin frambúðarlausn á þessum málum. Að halda því fram, að það eigi svo til að einskorða framkvæmdir einstaklinga við slíkar byggingar, en nota ekki þau stórvirku tæki, sem til eru hér í Reykjavík, til þess að koma upp stórum húsasamstæðum, er álíka viturlegt og að segja t. d. við bændur, að þeir megi ekki nota stórvirkar vinnuvélar við að slétta tún sín, heldur nota sín gömlu tól.

En hvað er það, sem þarf til þess, að hægt sé að byggja íbúðir? Annars vegar þarf gjaldeyri til að kaupa erlent efni, sem flytja þarf inn, hins vegar þarf vinnuafl til að nota efnið. Þetta eru ósköp hversdagsleg sannindi, en þó eru þau að verða næsta mikilvæg, eins og nú er komið í landinu. Svo að tekið sé dæmi, sem gefur nokkra hugmynd um þetta vandamál, skulum við áætla, að kostnaður við hóflega íbúð sé um 150 þús. kr. Sérfróðir menn segja mér, að erlendan kostnað megi áætla 20–25% af slíku kostnaðarverði miðað við fob.-verð. Sé reiknað út frá þessu, yrði heildarkostnaður við t. d. 600 íbúðir um 90 millj. kr., þar af erlendur kostnaður um 20 millj. Ég veit, að ég þarf ekki að segja hv. þm. frá því, að við höfum haft og höfum öll tök á að afla þess gjaldeyris, sem þarf til að byggja ekki 600, heldur 1.200 íbúðir aukalega á ári. Allir vita, hvernig gjaldeyrinum hefur verið varið undanfarið í hvers kyns óþarfa og að verulegu leyti í mjög skaðlegan innflutning, t. d. á fullunnum erlendum iðnaðarvarningi, sem auðvelt er að framleiða hér innanlands. Þessi vitleysa hefur numið tugum milljóna króna. Auk þess framleiðum við nú engan veginn það magn af útflutningsafurðum okkar, sem við höfum getu til, og hefur verið áætlað, að hægt væri að framleiða fyrir um 200 millj. meira á ári, en gert hefur verið. Það hefur verið borið við markaðsörðugleikum, en það veit þó hver maður, að auðvelt væri að selja t. d. freðfisk og fá í skiptum fyrir hann sement, timbur og annað, sem við þurfum til bygginga.

Það mun því ekki vera hægt að halda því fram með neinum rökum, að erfiðleikar séu á að flytja inn það efni, sem nauðsynlegt væri til bygginga. En hvað þá um hitt atriðið, vinnuaflið? Það veit hver þm. eins vel og ég, að vinnuafl er nægilegt á Íslandi og að atvinnuleysið hefur einmitt leikið byggingariðnaðinn hvað harðast. Það stendur þvt ekki á þeirri forsendu heldur. En hvað er þá að? Ef byggingarefni er tiltækt, ef vinnuafl er tiltækt, hvað er þá til fyrirstöðu, að verkafólkið ráðist á byggingarefnið og breyti því í hús? Ætti nokkuð að vera einfaldara og óbrotnara?

Það, sem vantar, er vilji stjórnarvaldanna. Og það viljaleysi er fært í gervi hagfræði og skrýtt hinum flóknustu tölum og skýrslum. Einn af forustumönnum Sjálfstfl., formaður Landssambands iðnaðarmanna, sagði fyrir nokkrum dögum, að til væri tvenns konar lygi: venjuleg lygi og hagfræði. Og eins og hagfræðin er nú notuð af sérfræðingum ríkisstj. er þetta því miður að verða sannleikur.

Ég skal ekki fara út í að ræða hinar furðulegu kenningar Benjamíns Eiríkssonar um efnahagsmál og annað slíkt, sem m. a. eru rökstuðningur byggingartregðunnar. En ég vildi mælast til þess við hv. alþm., að þeir hættu að bera vanhugsaða virðingu fyrir slíkum spekingum, en hefðu í staðinn í huga þau óbrotnu sannindi, sem enginn hagfræðingur getur haggað, að það er hægt að byggja hús, ef tiltækt er byggingarefni og vinnuafl, og að sú stjórn, sem ekki starfar samkvæmt svo óbrotnum meginreglum, er óstjórn. — Að svo mæltu legg ég til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.