31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3561)

107. mál, stimpilgjald

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Um þetta frv. er það sama að segja og það frv., sem var hér til umr. næst á undan. Það er flutt af fjhn. d. eftir beiðni hæstv. fjmrh. og það án þess að n. hafi tekið afstöðu til sérstakra atriða í frv. eða frv. í heild. Ég get bætt því við frá mínu eigin brjósti, að ég tel, eins og um hitt frv., hægt að segja, að það sé til töluverðra bóta. Einkum er því þannig varið, að þó að sé hækkað á stöku stað stimpilgjaldið frá því, sem áður var, og miðað við viðbótargjaldið, sem er núna, þá er aftur allvíða fellt niður stimpilgjaldið, og það eru þau smærri gjöldin, sem litlu muna, t. d. eins og stimpilgjald á veðbókarvottorðum, sem er kr. 1,20 núna brúttó, stofngjaldið kr. 0,50, og gerir það í raun og veru miklu hægara um vik að hafa það þannig. En aftur á móti virðast mér ákvæðin í bráðabirgðaákvæðunum vera allt of hörð, þar sem gert er ráð fyrir að hafa tífalt fasteignamat einnig í sveitum, ef ekki er gefið upp söluverð eignarinnar, og einnig má svipað segja um ákvæðin í öðrum lið þessara ákvæða til bráðabirgða. En sem sagt, það verður allt til athugunar hjá n. til 2. umr. og ekki ástæða til þess, að ég geri hér frekari grein fyrir þessu frv., þar sem hæstv. fjmrh. mun gera frekari grein fyrir því nú í þetta skipti. En ég vil taka það fram, að ég tel hér eina reglu til mikilla bóta, þó að umdeilt sé, hvort fresturinn er ekki fulllangur. Áður varð að vera búið að stimpla eftir 2 mánuði stimpilskylt skjal, en nú eru þar settir 6 mánuðir. Ég tel það vafasamt, hvort þarna sé gætt meðalhófs og ekki sé fulllangur frestur settur.