03.11.1952
Efri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (3566)

113. mál, uppbót á sparifé

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, þá var þetta mál sett í n. 1949, og í n. voru 5 menn, skrifstofustjóri samgmrn., Páll Pálmason, Jessen skólastjóri, Þorsteinn Loftsson, sem hefur haft á hendi námskeið Fiskifélagsins, Þorsteinn Árnason og Lúther Grímsson. Þessi n. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins og gat ekki heldur komið sér saman um að skila sameiginlegu nál., svo að meiri hl. n., 3 menn, skilaði því frv., sem hér liggur fyrir. Frv. er því lagt fram í samræmi við álit meiri hl. n., þessara þriggja manna.

Því er ekki að leyna, að það er talsvert djúpstæður ágreiningur í þessu máli, sérstaklega að því er snertir sameiningu kennslunnar á einn stað, en eins og kunnugt er, fer vélakennslan nú fram bæði í vélskólanum og á námskeiðum Fiskifélagsins. Frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi að því er snertir kennslu á vegum vélskólans og Fiskifélagsins, eins og verið hefur. Fiskiþingið 1951 lagði mikla áherzlu á það, að kennslan haldi áfram á fyrsta og öðru stigi, sem kallað er, hjá Fiskifélaginu. Mun það hafa haft nokkur áhrif á það, að meiri hl. af nm. skipaðist um þetta áframhaldandi fyrirkomulag.

Í þessu frv. eru nokkrar breytingar. Höfuðbreytingin má segja að sé sú, að inntökuskilyrðum í vélskólann sé breytt þannig, að hann er opnaður fyrir þá menn, sem hafa tekið annað stigið hjá Fiskifélaginu, en það er ekki heimilt nú, og þess vegna — ef þetta yrði að lögum — ætti undanþágum í þessu efni að fækka talsvert. Þar að auki er önnur höfuðbreytingin sú, að það er gert ráð fyrir, að sett sé á stofn aukanámskeið, 7 mánaða, við vélskólann til þess að undirbúa menn, bæði þá, sem hafa verið við nám í smiðjum og í Fiskifélaginu, undir verklegt lokapróf frá skólanum. En þeir, sem lokið hafa fjögurra ára námstíma við vélsmiðjur, þurfa ekki að sækja þetta námskeið. Svo er ein breyting hér í 16. gr., að ákveðið er, að 3. stigs próf gildi fyrir vélgæzlu á 1.500 hestafla vélum á fragtskipum og 1.000 hestafla á farþegaskipum, sem er rýmkun frá því, sem áður var. Að öðru leyti held ég að ekki séu neinar meginbreytingar í frv. En eins og ég gat um í byrjun, þá er meginágreiningur um það, hvernig skuli koma vélakennslunni fyrir.

Ég hef ekki sem ráðherra tekið afstöðu til þessa máls og taldi rétt, að það færi inn í þingið eins og það kom frá meiri hl. n. og að þingið tæki sína afstöðu um það, hvernig það vildi láta koma kennslunni fyrir í framtíðinni. Ég geri ráð fyrir því, að hv. n. taki þetta til nánari athugunar, vegna þess að þetta er mál, sem þarfnast mjög gaumgæfilegrar athugunar. Það er sótt fast af báðum aðilum, þ. e. a. s. þeim aðilum, sem annars vegar vilja halda kennslunni í því formi, sem hún er nú, og hins vegar þeim, sem vilja, að kennslan sameinist á einn stað í vélskólanum. Ég verð að segja, að frá mínu sjónarmiði finnst mér eðlilegast, að öll vélfræðikennsla í landinu sé sameinuð á einn stað, og hinn rétti staður að mínu áliti er vélskólinn, sem ríkið heldur uppi. Eðlilegt er, að námið geti verið samanhangandi og í eðlilegu áframhaldi frá lægri stigum til hærri stiga. Því fyrr sem tekin er ákveðin afstaða til þessa máls og því komið í það horf, sem það á að vera í í framtíðinni, því betra.