17.11.1952
Efri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (3574)

148. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Er það á þskj. 233. Efni frv. er það, eins og í grg. segir, að heimila giftri konu, er aflar heimili sínu skattskyldra tekna, að draga frá skattskyldum tekjum heimilisins upphæð, sem svarar til kostnaðar við að hafa ráðskonu eða aðra hjálp til að annast heimilisstörfin. Upphæð þessa á að miða við það, hvað laað kostar í kaupgjaldi, fæði og húsnæði að hafa ráðskonu á helmilinu, og er ætlazt til, að reiknað sé með árskostnaði, ef konan vinnur fullt ársstarf. En ef konan vinnur ekki fullt ársstarf, þá er ætlazt til, að frádráttur þessi sé í hlutfalli við þann tíma, sem það tekur konuna að afla þeirra tekna, sem heimilinu eru reiknaðar.

Það skal strax tekið fram til skýringar, að frádráttur sá, sem ætlazt er til að veittur sé samkv. frv. þessu, er ekki við það miðaður, að um sannanleg útgjöld sé að ræða, heldur er ætlazt til, að hann sé veittur án þess, að nokkur sönnun liggi fyrir um það, hvaða kostnaður hefur verið greiddur eða hvort nokkur beinn kostnaður hefur verið greiddur vegna tekjuöflunar konunnar. Þetta mundi vera í samræmi við það, sem nú á sér stað með frádrátt vegna barna. Sá frádráttur er veittur án þess, að fyrir liggi nokkur vitneskja um það, á hvern hátt börnin eru framfærð, aðeins er vitað, að þau þurfa á framfærslu að halda. Þetta er líka í samræmi við það, sem ætíð hefur átt sér stað, að heimilinu sé leyft að hafa skattfrjálsa vinnu einnar konu. Að vísu hefur á bak við þau fríðindi legið sú hugsun, að vinna konunnar á heimilinu sé verðlítil. En nú er sá skilningur að verða æ útbreiddari, að vinna konunnar á heimilinu sé verðmæt og að hún eigi að metast eftir því.

Þetta frv. styðst við þá skoðun, að þótt vinna konunnar á heimilinu skapi ekki raunverulegar tekjur, þá skapi hún verðmæti, sem eigi að meta. Og þegar litið er á það, hve vægilega hefur verið farið með heimilin við álögur skatta, þá sést, að núverandi fyrirkomulag, sem tekur af heimilunum þann rétt að hafa vinnu einnar konu skattfrjálsa; brýtur í bága við það, sem ætíð hefur verið talið sjálfsagt í þessu efni. Þetta vil ég biðja þá hv. n., sem fær frv. til meðferðar, að íhuga vandlega, því að þetta er sjónarmið, sem ekki hefur verið nægilega túlkað, en er ef til vill grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði, þegar athuguð eru skattamál heimilanna. M. ö. o., löggjafinn hefur talið rétt að veita heimilunum sérstaka vernd að því er skattalögin snertir með því að leggja ekki skatta á þau verðmæti, sem vinna einnar konu skapar heimilinu. En við breyttar aðstæður hefur verið horfið frá þessu upprunalega og eðlilega sjónarmiði, þannig að heimilin verða að greiða skatt af vinnukonu, ef hluti af henni aflar heimilinu beinna tekna, og það þótt þær tekjur fari til þess að greiða fyrir önnur verðmæti, sem vinna konunnar á heimilinu hefði skapað, ef orka hennar hefði ekki farið til tekjuöflunarinnar. Ég vek athygli á því, að þessi frádráttur á aðeins að miðast hlutfallslega við það, hvað það kostar að láta vinna heimilisstörfin. Þetta frv. ætti ekki, ef það yrði að l., að verða erfitt í framkvæmd, þar sem skýrslur vinnuveitendanna segja til um þann vikna- og mánaðafjölda, sem konan vinnur að beinni tekjuöflun, og þá jafnframt ef um ársstarf er að ræða.

Eins og kunnugt er, situr nú að störfum mþn. í skattamálum, sem vinnur að endurskoðun skattalaganna. Mér er ekki fullkunnugt um það, hvort nú á þessu þingi megi vænta tillagna n., en hitt mun mega fullyrða, að ekki verði á þessu þingi gengið frá nýjum skattalögum. Með frv. þessu er farið fram á lítils háttar lagfæringu á skattgreiðslum heimilanna, sem ekki mundi hafa veruleg áhrif á heildarupphæð skatttekna ríkisins. Leyfi ég mér því að vænta þess, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi, bæði vegna þess, að hér er aðeins um smávægilega leiðréttingu að ræða, og svo vegna hins, að ef frv. yrði samþ., þá fengist á því reynsla, hvernig framkvæmd samkvæmt því gæfist, og væri hægt að byggja á þeirri reynslu, er hv. Alþ. tekur skattamálin til endanlegrar meðferðar. — Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjhn.