05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (3594)

170. mál, menningarsjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er sýnilegt, að ef þetta frv. verður samþ. eins og það liggur hér fyrir, þá er fé tekið beint úr ríkissjóði samkvæmt fyrirmælum 1. gr., og er þá bundið með l., að þessi upphæð skuli ávallt greiðast til þessa verkefnis, hvernig sem háttar um hag ríkissjóðs. Ég tel þetta óheppilegt, og hefði slíkt sízt átt að koma frá hæstv. ríkisstj. sjálfri eða frá hæstv. menntmrh. Þetta er ein ástæðan fyrir því, að ég er á móti frv. eins og það er nú. En það er einnig önnur ástæða, sem gerir það að verkum, að ég er á móti frv., og það er, að því fleiri menn eða stofnanir sem eiga afkomu sína undir ágóða Áfengisverzlunarinnar, því örðugra mun reynast í framtíðinni að útrýma áfengisbölinu í landinu. Og sízt af öllu ætti hæstv. menntmrh. og stjórn Menningarsjóðs að vinna að því, að svo yrði. Og það er meginástæðan fyrir því, að ég er á móti frv. eins og það er.

Hæstv. ráðh. fór rangt með það, sem hann sagði hér áðan, að það verði fylgt sömu reglu og áður. Áður hefur þessi sjóður haft tekjur sínar af sektum í sambandi við brot á áfengislöggjöfinni, og það er allt annars eðlis heldur en hitt, að hann eigi að hafa hluta af tekjum Áfengisverzlunarinnar. (Gripið fram í.) Ja, það er ekki heldur sama stefna. Það er alveg ný stefna. Og það er einmitt þetta, sem er athugavert við það, að hér kemur nýr aðili til þess að taka upp baráttu fyrir því, að haldið sé áfram vínsölu í landinn til hagsbóta fyrir menninguna í landinu og til hagsbóta fyrir ríkissjóð, og það er það, sem ég er á móti.

Að lokinni þessari umr. óska ég mjög eftir því, að frv. verði vísað til hv. menntmn., og það alveg sérstaklega vegna þess, að það kemur fram í grg., að nm. áskilja sér rétt til að fylgja frv. eða vera á móti því eins og venja er til, þegar um flutning á frv. er að ræða fyrir hæstv. ríkisstj. Ég óska því eftir, að frv. verði vísað til n., svo að hún fái tækifæri til þess að athuga málið og gefa út um það nál. eins og hver önnur mál.