16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (3602)

170. mál, menningarsjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. frsm. og hv. menntmn. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér, að hann teldi, að það væri heppilegra, að framlagið kæmi beint úr ríkissjóði, en að Menningarsjóður hefði tekjur sínar frá áfengisverzluninni, ef hægt væri að koma því þannig fyrir, og er það í fullkomnu samræmi við mína till. og umræður mínar um málið hér áður. Ég skal einnig gjarnan verða við tilmælum hv. frsm. um að taka till. aftur til 3. umr. Það, sem vakir fyrir mér, er aðeins að fá lausn málsins á sem eðlilegastan og beztan hátt, og er hér með till. tekin aftur til 3. umr. Ég vil hins vegar benda hv. frsm. á, að mér þætti ekki óeðlilegt, þegar um svo stóra upphæð er að ræða eins og hér, um 500 þús. kr., þá lægju fyrir hér hjá hv. deild nokkur gögn í sambandi við starfrækslu Menningarsjóðs. Þótt þau séu í höndum hv. frsm., þá eru þau ekki í nál., og hefði verið náttúrlega eðlilegast og æskilegast, að þau hefðu verið birt með nál„ svo að þm. hefðu getað kynnt sér þau. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að upplýsa, að bókaútgáfur núna í landinu og bókasöfn hafa upp undir 500 þús. kr. úr ríkissjóði fyrir utan þessa stofnun hér, m. a. fornritaútgáfur nokkuð, en þó hafa bókasöfnin nærri 300 þús. kr. beinan styrk og þess utan yfir 150 þús. kr. frá skemmtanaskattinum, svo að það er síður en svo, að hér sé skorið nokkuð við nögl sér í sambandi við útgáfu merkra bóka hér á landi. Auk þess gæti ég hugsað mér, að það væri meiri nauðsyn að láta einhverjar ákveðnar fúlgur til Menningarsjóðs í sambandi við ákveðin verk á vissum árum, þó að ekki sé sett fast framlag, eins og ætlazt er til hér, með lögum, en alltaf er ég til viðræðna um þessi mál við hv. n. og tek þar af leiðandi nú á þessu stigi mína tilh aftur til 3. umr.