05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (3615)

173. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt, enda þótt þetta frv. væntanlega fari til heilbr.- og félmn., sem ég á sæti í, að vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við þetta frv. nú þegar við 1. umr.

Eins og flm. tók fram, þá er meginefni þessa frv. það að breyta tveim tilteknum heimildarákvæðum í almannatryggingalögunum í fasta reglu, þannig að stofnunin sé skuldbundin til að greiða þá upphæð, sem þar um ræðir, hvernig sem á stendur hjá hlutaðeigandi manni.

Eins og hv. dm. og öllum er kunnugt um, þá er sú almenna regla í tryggingalögunum, að þær bætur, sem lögákveðnar eru, skuli greiddar hlutaðeigandi bótaþegum. Hins vegar, ef ástæða sé til að auka við þær upphæðir, sem l. ákveða, þá er það í heimildarformi, þannig að stjórn Tryggingastofnunarinnar getur metið það og ákveðið sumpart eftir reglum, sem ríkisstj. setur, hvort heimild þessi skuli notuð eða ekki. — Ég held því, að ef þessi tvö atriði, sem þetta frv. fjallar um, yrðu tekin úr heimildarákvæðum og breytt í fasta og lögboðna reglu, þá væri ástæða til að taka mörg fleiri heimildarákvæði l. á sama hátt.

Um 1. gr. er það að segja, að ég geri ráð fyrir, að þótt hún yrði samþ., þá mundi það því nær enga breytingu gera á framkvæmd l. Yfirleitt er framkvæmdin sú, að ef hjón eru á spítala eða elliheimili, þá er þeim greiddur tvöfaldur einstaklingslífeyrir, enda litið svo á, að þá komist þau undir ákvæði um að þurfa sérstaka hjúkrun og umönnun og því sé þá eðlilegt, að svo sé gert. Þó kann að vera, ef svo stendur á, að efnahagur hjóna er sá, að þau eiga ekki rétt til nema sáralítils lífeyris vegna efnahags, t. d. ekki nema fjórða parts af fullum lífeyri eða eitthvað slíkt, þ. e. a. s., ef þau hefðu nokkurn veginn lífvænlegar tekjur, — þá kann að vera, að í einstökum tilfellum hafi heimildarákvæðið ekki verið notað. En ég vil fullyrða, að að því er snertir 1. gr., þá má heita, að það mundi enga breytingu gera á framkvæmd laganna.

Að því aftur á móti er snertir 2. gr., gegnir nokkuð öðru máll. Á elliheimilum dvelja að sjálfsögðu bæði menn, sem geta verulega greitt fyrir sig sjálfir og hafa nokkrar tekjur, og líka þeir, sem engar tekjur hafa eða litlar umfram þá lífeyrisupphæð, sem þeir njóta frá Tryggingastofnuninni. Langflestir þeir, sem þar dvelja, fá hækkun allt að 40% — langflestir, en þó eru þar menn, sem hafa það háar tekjur, að þeir eiga ekki rétt á fullum lífeyri, kannske ekki einu sinni hálfum lífeyri og það væri að sjálfsögðu, miðað við aðra bótaþega, ekkert réttlæti í því að greiða þeim þá fullan lífeyri með 40% álagi, þó að þeir eftir ákvæðum l. hefðu ekki rétt til að fá kannske nema fjórða partinn af lífeyri. Þar er mismunað þannig, að þeim, sem betur er settur, er greitt meira en hinum, sem verr er settur.

Auk þess skal ég benda á það, að í sambandi við þá breytingu, sem gerð var á ríkisframfærslulögunum fyrir nokkru í þá átt, að nú teljast gamalmenni, sem haldin eru ellisjúkdómum, til ríkisframfærslusjúklinga, þá var samið við ríkisstj. um það, að með öllum þeim, sem undir þessi ákvæði ríkisframfærslulaganna komast og fá því ókeypis vist á sjúkrahúsi eða heilsuhæli, skyldi greiddur af tryggingarinnar hálfu lífeyrir að viðbættum 20%. Það var gert með tilliti til þess, að ýmsir þessara manna áttu kannske ekki rétt á lífeyri eða ekki nema mjög litlum. Ef þessi 2. gr. yrði samþ., þá mundi af því leiða mjög verulega röskun á framkvæmd þessa ákvæðis l., svo að ég held, að það þurfi að athugast betur en nú þegar hefur verið gert. Mér þótti rétt að benda á þetta nú þegar við þessa umr., þó að ég geri ráð fyrir, að frv. fari til heilbr.- og félmn. og verði athugað þar.