08.12.1952
Efri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

10. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta er stjórnarfrv. og lagt fram til staðfestingar á brbl. frá 18. apríl 1952. Það er um heimild handa ríkisstj. til að taka allt að einnar millj. dollara lán, sem bandarísk stjórnarvöld veita fyrir milligöngu Export-lmport-bank með þeim kjörum, sem almennt gilda um slík lán. Bygging áburðarverksmiðjunnar og nauðsyn þeirrar byggingar hefur ekki valdið ágreiningi.

Lánsfjárþörfin er óumdeilanleg, og í annað hús virðist ekki heldur hafa verið að venda en til bandarískra stjórnarvalda. Hv. Nd. hefur fyrir sitt leyti staðfest þetta frv. Við 1. umr. hér í hv. Ed. var því vísað til fjhn. og fjhn. afgreiddi það á fundi 5. þ. m. Á þeim fundi var ekki mættur hv. 1. landsk., og get ég ekki gefið neina skýrslu um afstöðu hans. En aðrir nm. leggja einróma til, að frv. verði samþ. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um málið fleiri orð, nema nýtt tilefni komi til, en legg áherzlu á það, að n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.