30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (3654)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi mega beina hér til hæstv. ríkisstj. einni fyrirspurn utan dagskrár.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá hefur enn þá ekki verið tilkynnt neitt um fiskverð á þessu ári. Ég vildi nú mega beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvað liði samningum hennar við útvegsmenn um fiskverð fyrir yfirstandandi ár. Nú þegar er liðinn um einn mánuður af þessu ári. Vetrarvertíðin er hafin alls staðar þar, sem fiskveiðar eru stundaðar um þetta leyti árs, og enn þá sem sagt ríkjandi það ástand, að hvorki útvegsmenn né sjómenn vita neitt um það fiskverð, sem á að gilda á þessu ári. Ég vil í þessu efni aðeins benda á það, að síðan fiskverð var síðast ákveðið — eða í byrjun ársins 1952 — þá hefur kaup hjá verkamönnum og öðrum launþegum hækkað vegna vísitöluhækkana um 10%. Hæstv. ríkisstj. hefur einnig fundið ástæðu til þess að flytja hér á Alþ. frv. til l., sem tryggja á embættismönnum og öðrum fastlaunamönnum samsvarandi launahækkun, en þessir aðilar —eins og kunnugt er — taka laun sín nokkuð eftir hækkandi vísitölu á hverjum tíma. Ef þeir menn, sem starfa á bátaflotanum í landinu, ættu að fá tilsvarandi launabætur eins og launþegar hafa nú almennt fengið fyrir samninga við ríkisstj., þá ætti fiskverðið hjá þeim að hækka um a. m. k. 10%, eða það fiskverð, sem síðast var ákveðið, kr. 1.05 fyrir kg, ætti að fara upp í kr. 1.15 á kg.

Nú sem stendur verða bátasjómenn í landinu að vinna að sínum störfum án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um fiskverð á þessu ári, og það, sem þeir heyra helzt um þetta, er það, að það séu uppi raddir hjá hæstv. ríkisstj. um það, að fiskverðið þurfi að lækka, — að laun þeirra verði beinlínis að lækka, á sama tíma sem gerðar eru hér á Alþ. ráðstafanir til þess að hækka laun t. d. embættismanna í landinu. Sömuleiðis er það kunnugt, að samningsaðill að þessu máli, eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, mun hafa sett fram kröfu um það, að það fiskverð, sem nú yrði ákveðið, yrði ekki látið ná nema yfir hluta af árinu og jafnvel ekki einu sinni alla vetrarvertíðina. Vitanlega nær slíkt ekki nokkurri átt og mundi koma mjög illa við þá sjómenn annars staðar á landinu, sem aðallega stunda fiskveiðar á öðrum tíma árs.

Ég vil nú gjarnan mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún upplýsi hér á Alþ. nokkuð um þessa samninga sína við bátaútvegsmenn um fiskverðið á þessu ári. Ríkisstj. hefur vallð þann kost að taka þessi mál að mestu út úr störfum Alþ. og fjalla þar ein um við útvegsmenn, en það virðist vera sá seinagangur á þessu nú, að af þessu geti hlotizt verulegt tjón fyrir landsmenn í heild. Ég vil líka benda hæstv. ríkisstj. á það, að nú þegar ber mjög mikið á því, að erfitt sé að fá sjómenn til starfa á bátunum, og það er ofur eðlilegt, á sama tíma sem laun allra annarra aðila í landinu fara hækkandi, ef þá á jafnvel að lækka þeirra laun eða að þeir geti ekki fengið neina vissu um það, úr hvaða fiskverði hlutur þeirra á að reiknast.

Ég vildi mjög eindregið óska eftir því, að hæstv. ríkisstj. gæfi hér nú þegar einhverjar upplýsingar um þetta mál.