29.01.1953
Sameinað þing: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þann 9. nóv. s.l. var vísað til hv. allshn. Sþ. till. frá mér og 1. landsk. varaþm. um bann við ferðum og vist erlendra hermanna utan samningssvæða.

Ég vil nú beina þeim tilmælum til hv. n., að hún afgreiði þessa till., svo að Alþ. geti tekið endanlega afstöðu til hennar, en nú liður mjög að þinglokum. N. hefur sem sagt haft till. til athugunar í rúma tvo mánuði, og verður varla annað sagt en að sýnd hafi verið sæmileg þolinmæði af hálfu okkar flm., að ekki skuli fyrr en þetta vera vakið máls á seinlæti n., og þó hafa aðrir sýnt meiri þolinmæði í þessum efnum. — Þann 22. okt. s. l., þ. e. fyrir rúmum þremur mánuðum, var vísað til allshn. till. frá hv. 8. þm. Reykv. og hv. þm. N-Þ. um sama efni, aðeins miklu vægari í ákvæðum, en þessi till. hefur n. ekki heldur afgreitt enn þá. Flm. hennar hafa sem sé tekið seinlæti n. með þögn og þolinmæði í bókstaflegri merkingu heilum mánuði lengur en við flm. hinnar till., og þykist ég vita, að hv. 8. þm. Reykv. muni ekki hafa á móti því, að ég hvetji nú n. til þess að afgreiða einnig þá till., og virðist reyndar rétt, að hún sitji fyrir till. okkar hinna, þar eð hún var flutt þetta miklu fyrr.