03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er svo margt skrafað hér í d., að sumt fer kannske alveg fram hjá manni og sumt að nokkru leyti. Ég hef orðið var við það að, að mestu leyti fór fram hjá mér hér fyrirspurn, sem hv. þm. Barð. bar upp hérna. En ég hef aðeins þráðinn af því, og það var um það, hvað liði máli hans um nýja skipun á útvarpi og útvarpsráði, — ég man ekki nákvæmlega titilinn á því frv.

Var því frv. vísað til menntmn., og við gerðum skjótt því máli skil, nefndin, og sendum það bæði til útvarpsstjóra og útvarpsráðs og báðum um svar fyrir 24. jan. Útvarpsstjóri gerði því mjög rækileg skil. Hann sendi fyrir tiltekinn tíma svar sítt til n., og svo litlu seinna sendi hann samskonar skjal til allra þm., að ég held, hér á þinginu. Þar að auki var þetta bréf hans birt í einu af höfuðstaðarblöðunum, — getur vel verið að það hafi verið í fleirum, þó að það hafi farið fram hjá mér, svo að hann svaraði fljótt. Hans till. voru, hafi hv. þm. ekki lesið það, að frv. væri „drepið með skjótum atvikum“. Svipaður var andinn í skjali útvarpsráðs, að það vildi, held ég, ekki til langlífis það frv., ef það gengi fram. Þessi skjöl hygg ég að hv. fyrirspyrjandi hafi lesið bæði. Ég ætlaðist til þess, að hann fengi að sjá skjalið frá útvarpsráðinu. Ég man ekki betur, en ég lánaði honum það. Það var stutt, en laggott. Síðan hefur hann ekki farið þess á leit við okkur, að við skiluðum nál.

Þar að auki — ég vil segja það okkur til réttlætingar — voru komnar breytingar á útvarpið. Hann var farinn frá, sá sem svaraði bréfinu, útvarpsstjórinn, en búið að skipa nýjan útvarpsstjóra, og breyttist aðstaðan að mörgu leyti við þá skipun, að það var kominn nýr útvarpsstjóri. En frv. byggðist, ef ég man rétt, að nokkru leyti á því, að það væri ekki skipaður maður í stað útvarpsstjóra, heldur settur, en þetta kom náttúrlega heldur seint, og var það illa farið og ekki líkt hv. þm., sem er bæði skjótur og snar í snúningum, að verða þannig uppi með frv. og lenda í því að koma með það allt of seint. En ég man sem sagt ekki eftir ákveðinni ósk frá þm. um það, að við tækjum það sérstaklega fyrir. Ég hélt, að með þessari breyttu aðstöðu mundi það vera réttast, að það lognaðist út af, þar sem maður vonar, að hann hafí tækifæri til, þegar næsta þing byrjar, að koma fljótt og skjótlega með frv., sem þá kemur ekki fyrir aftan endalok þingsins eins og þetta. Þess vegna held ég, að það sé ekki rétt að fara að tefja þingið á því að setjast við nefndarstörf út af þessu, en bara muna, að seinna koma ráð og seinna koma dagar. Ég hugsa það verði, því að maður væntir þess, að hann geti með allri röggsemi barizt fyrir þessu frv. nú á næsta þingi.