05.02.1953
Sameinað þing: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3717)

159. mál, hafnarsjóður Ísafjarðar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hefði að sjálfsögðu óskað þess, að þessi till. hefði fengizt samþ. hér á Alþ. Ísafjarðarkaupstaður hefur orðið þarna fyrir miklu tjóni, og það tjón er svo stórfellt, að hafnarsjóður Ísafjarðar á erfitt með, eins og nú standa sakir, að rísa undir því fjárhagslega. Ég taldi það algera hliðstæðu við það, sem áður hefur gerzt, að þegar félitlir hafnarsjóðir hafa orðið fyrir miklu fjárhagslegu áfalli í sambandi við hafnargerðir, þá hefur í nokkrum tilfellum ríkissjóður hlaupið undir baggann, haldið gerð mannvirkja, sem fyrir skemmdum urðu, áfram og greitt það, sem kostaði að bæta skemmdirnar, án mótframlags úr héraði. Formlegast taldi ég — og það gerði ég raunar í samráði við form. fjvn. — að flytja um þetta sérstaka þáltill., svo að málið yrði rækilega kynnt þingheimi, áður en tekin yrði ákvörðun um það að hlaupa þarna undir baggann líkt og annars staðar hefur verið gert á miklu óformlegri hátt og oft og tíðum eftir á, án þess að Alþ. vissi um það fyrr en síðar.

Ísafjarðarkaupstað reið og á að geta lokið þessu mannvirki, sem nú hefur staðið yfir nokkuð á sjöunda ár, fyrir næsta sumar, með því að það hefur nú verið sótt um að byggja þýðingarmikil mannvirki fyrir atvinnulífið á Ísafirði á uppfyllingu við þennan umrædda hafnarbakka, sem fyrir skemmdunum hefur orðið. En við það, að Alþ. fæst nú ekki til þess að taka afstöðu til þessa máls, verður líklega að synja því þýðingarmikla atvinnufyrirtæki, sem þarna ætlaði að reisa mannvirki á uppfyllingunni við hafnarbakkann, um aðstöðu til þess á komandi sumri. Þetta verður afleiðingin af þessum drætti, sem á málinu verður, þó að rannsókn kunni að verða lokið fyrir 1. júlí í sumar.

Þegar það varð ljóst, að hv. fjvn. fékkst ekki til að mæla með þessari till. til samþykktar, þá sá ég ekki annað, en að næstbezti kosturinn væri sá að fylgja till. í því breytta formi, sem fjvn. gat fallizt á, sem sé, að það yrði skipuð hlutlaus n. til þess að rannsaka þessar skemmdir, sem á hafnarbakkanum hafa orðið, og orsakirnar til þeirra. Ég var sannfærður um, að það mundi koma í ljós við slíka hlutlausa rannsókn, að hafnarnefnd Ísafjarðar og trúnaðarmenn hennar hefðu í einu og öllu farið eftir fyrirmælum þeirra sérfræðinga, sem yfirstjórn verksins höfðu á hendi fyrir hönd vita- og hafnarmálastjórnarinnar, og að hafnarnefndin á Ísafirði yrði þannig á engan hátt dregin til ábyrgðar fyrir þeim skemmdum, sem orðið hafa. Og ég er sannfærður um það, hvenær sem rannsókn fer fram á þessu, að niðurstaðan hlýtur að verða sú. Þess vegna er ég ákaflega fús til þess út af fyrir sig, að afgreiðsla málsins síðar, í höndum ríkisstj. eða Alþ., verði háð slíkri niðurstöðu.

Ég skal svo ekki fara inn á efnishlið þessa máls við þessa umr. Ég hef lýst þessu máli rækilega hér við 1. umr. málsins og mun nú aðeins lýsa því yfir, að ég fellst á, að þáltill. á þskj. 261 verði vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að hún feli vitamálastjórninni að rannsaka orsakir þessara skemmda, sem þarna hafa orðið, og það, hversu mikið muni kosta að bæta skemmdirnar, og þá vænti ég þess, að Ísafjörður verði látinn fá svipaða aðstoð og aðrar hafnir hafa fengið, þegar orðið hafa stórskemmdir á hafnarmannvirkjum, sem hafnaryfirvöld viðkomandi staðar verða ekki dregin til ábyrgðar fyrir. Ég fellst sem sé á, að till. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hlutlaus rannsókn fari fram.