15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

4. mál, smáíbúðabyggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki nema gott um þetta frv. að segja, sem hér er komið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. Það er öllum ljóst, hver þörf er á að bæta hér úr, þó að hins vegar ríkisstj. sjálf segi nú í sínum aths., að það sé eftir að koma fram með þær raunverulegu till. um, hvernig útvega skuli þetta fé. Ég mun ekki gera þetta að neinu verulegu umtalsefni hér, enda fer þetta til n., sem ég á sæti í, en ég vildi leyfa mér að óska þess, að hæstv. ríkisstj. léti, annaðhvort núna eða þá, sem er líka eins gott, nefndinni í té, eftir hvaða reglum þessu fé hafi verið úthlutað og eigi að úthlutast, því að það liggur í augum uppi, að þegar er verið að veita stórfé af hálfu Alþ. til lánastarfsemi í þjóðfélaginu, þá er ákaflega mikil nauðsyn á, að fyllilega sé tryggt, að farið sé eftir þeim tilgangi, sem fyrir löggjafanum vakir, þegar slíku fé er úthlutað, og það var mjög greinilega tekið fram í lögunum, hvernig ætti að úthluta þessu, en hins vegar hafa orðið þó nokkrar deilur um framkvæmdina. Mér þætti þess vegna ákaflega vænt um, ef hæstv. ríkisstj. léti annaðhvort núna eða þá hv. fjhn. í té þær reglur, sem fylgt hefur verið við þá úthlutun, sem þegar hefur farið fram.