13.11.1952
Neðri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

4. mál, smáíbúðabyggingar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 206 og skrifa með fyrirvara undir nál. eða áskil mér rétt til að flytja brtt. og fylgja brtt. Ég er annars sammála sjálfu aðalinntakinu í lagafrv. eins og það liggur fyrir, sem sé heimild til handa ríkisstj. til að taka allt að 16 millj. kr. að láni og endurlána það lán til smáíbúðarhúsa.

Það var nokkuð um það rætt í fjhn., hvaða aðferðir mundu verða hentugastar við að lána út þetta stórar fjárupphæðir aftur, og ég held, að mér sé óhætt að segja það, að það hafi að minnsta kosti í fjhn. verið mjög almenn skoðun, að það væri heppilegra, að einhver viðurkennd lánsstofnun, svo sem einhver bankanna, hefði með höndum útlán lánsfjárins, sem hér er rætt um. Í l. um lánadeild smáíbúðarhúsa er í 2. gr. ákveðið svo hljóðandi:

„Fela má Landsbanka Íslands eða annarri lánsstofnun, sem félmrh. semur við, stjórn, reikningshald og starfrækslu lánadeildarinnar.“

Ég álít, að þegar nú ráðh. hefur heimild til þess að fela Landsbankanum eða einhverjum öðrum banka stjórn á lánadeildinni, þá væri langeðlilegast og heppilegast, að slík heimild væri notuð, það væri sem sé alveg tryggt, að ríkisstj. gerði þetta þá, hún fæli bönkunum svona úthlutun. Nú má máske segja, að þegar sjálf l. um lánadeildina voru samþ. síðast, þá hafi nú ekki verið um svo gífurlega fjárhæð að ræða, það voru 4 millj. kr., og er það samt nokkur fjárhæð. Nú er hins vegar um það að ræða að heimila ríkisstj. að taka lán, sem er 16 millj. kr., úthluta því, og ég álít, að það væri heppilegt, að það væri gengið þannig frá þessu, að það væri alveg öruggt, að ríkisstj. bæri skylda til að fela lánsstofnun stjórnina á þessari framkvæmd. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram brtt., sem kæmi þá aftan við 2. mgr., á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skal fela lánsstofnun, er hún semur við um stjórn, reikningshald og starfrækslu deildarinnar, að hafa með höndum útlán lánsfjárins,“ og síðan hef ég bætt við: „að fengnum till. sveitarstjórnar á þeim stað, þar sem húsin eru reist, og skal sú úthlutun fara fram skv. reglugerð, er ríkisstj. setur í samræmi við l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, 4. kafla. Skal upphæð sú, er um getur í 1. mgr., lánuð út að fullu á árinu 1953.“

Fyrsta aðalatriðið í þessari brtt. er, að ríkisstj. sé, í staðinn fyrir að henni er gefin heimild til að semja við Landsbanka Íslands eða einhverja aðra lánsstofnun, lögð sú skylda á herðar. Ég álít það óviðeigandi og það muni alltaf frekar skapa óánægju, ef t.d. félmrn. sjálft er að láta einhverja og einhverja nefnd, sem það velur til þess, hafa þetta með höndum, í staðinn fyrir að láta bankana eða þá aðila, sem þannig eru vanastir að hafa þetta með höndum, sjá um þetta fyrir hönd ríkisstj.

Í öðru lagi fer brtt. fram á, að það sé beðið um tillögur sveitarstjórnarinnar á hverjum stað, þannig að sveitarstjórnir á þeim stöðum, þar sem menn eru að reyna að brjótast í þessum smáibúðarhúsum eða byggingu þeirra, láti sitt álit í ljós. Það er vitanlegt, að það er ákaflega erfitt mál að úthluta svona lánum, og maður veit, hvað það eru margir aðilar, sem allir saman hafa þarna þörf á, og hvað það er þess vegna mikil nauðsyn á, að sem gleggstar upplýsingar liggi þarna fyrir, og þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að óskað sé eftir till. sveitarstjórnarinnar og viðkomandi lánsstofnanir geti haft hliðsjón af því, vegna þess að eins og við vitum er þarna ekki um hreint verzlunarlegt atriði að ræða. Þetta er ekki lánað út frá því sjónarmiði, sem annars er fyrst og fremst vaninn í sambandi við bankalán, hver sé öruggasti borgunarmaðurinn, heldur hinu, hver hafi mesta þörf fyrir það.

Svo er í þriðja lagi þarna sú ákvörðun, í síðasta málslíð, að upphæðin, þessar 16 millj., sé lánuð út að fullu á árinu 1953, m.ö.o., að það sé tryggt nú þegar, að þessi upphæð sé notuð til fulls nú á næsta ári. Ég býst ekki við, að neinum blandist hugur um, að þörf er fyrir allt þetta fé. Það var vitanlegt, að þær 4 millj, sem lánaðar voru út síðast, gátu ekki bætt úr nema litlum hluta af þörfinni, og þess vegna held ég, að það væri nauðsynlegt að tryggja það, að þetta fé yrði allt lánað út nú á næsta ári.

Þá er enn fremur gengið út frá, að það sé sett reglugerð samkv. l., þannig að við hana geti bankarnir stuðzt eða sá banki, sem falið er að úthluta þessu. Það er mjög greinilega tekið fram og raðað niður í 6. gr. laganna, hverjir skuli fá þetta. Þar stendur, með leyfi forseta: „Eftirtaldir aðilar skulu sitja fyrir lánum til smáíbúðabygginga: 1) Barnafjölskyldur. 2) Ungt fólk, sem stofnar til hjúskapar. 3) Fólk, sem býr í heilsuspillandi húsnæði, er ekki verður útrýmt skv. 3. kafla þessara laga.“

Það þarf að vera til reglugerð um framkvæmdina á þessu, þannig að bankarnir eða viðkomandi lánsstofnanir geti haft alveg hliðsjón af þeirri reglugerð. Og ég held, að það væri þess vegna að öllu leyti í samræmi við tilgang bæði l. sjálfra og eins tilgang hæstv. ríkisstj. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að örugglega væri gengið frá þessu, og ég held, að með þessari brtt. minni ætti að vera sæmilega fyrir því séð, en sjái aðrir hins vegar betur í því, þá er ég reiðubúinn til breyt. þar á.