17.11.1952
Efri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

17. mál, þingsköp Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja örfá orð um þetta mál þegar á þessu stigi, í þeirri von, að hv. n., sem fær málið til athugunar, taki þá það, sem ég hef hér að segja, til álita. Eru það ekki mörg atriði og reyndar ekki nema tvö, sem ég ætla að minnast á.

Það er ákaflega eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. batt sig eingöngu við það atriði, sem nauðsynlegt var vegna breytingar á upptöku á þingræðum, þegar hún gaf út brbl. um breytingu á þingsköpum Alþingis, því að ef það er nokkuð, sem Alþ. á fyrst og fremst að fjalla um sjálft og ætti ekki að þurfa neinnar leiðsögu hæstv. ríkisstj. um, þá eru það þess eigin þingsköp. Þess vegna hef ég ekkert við það að athuga, þó að í brbl. fælist ekkert annað, en þessi nauðsynlega breyting. Hitt er annað mál, að ég er dálítið undrandi yfir því, úr því að farið er að breyta þingsköpunum, að hv. Nd. skyldi ekki nota tækifærið til þess að gera víðtækari breytingar á þeim, heldur en brbl. gefa tilefni til.

Í hv. Nd. kom fram brtt. frá hæstv. forseta Sþ. um vissa breytingu um það, hvernig ávarpa skyldi alþingismenn. Ég fyrir mitt leyti álít, að eins og þingið er orðið nú, þá hafi þessi brtt. verið í alla staði réttmæt. En hún fékk svo lítið fylgi í hv. Nd., að það mun ekki tjóa að gera till. um það að taka hana upp aftur, að því er virðist. En ég vil leyfa mér að benda hér á tvennt, sem ég álit hvort tveggja úrelt í þingsköpunum og ætti að breyta.

Fyrst og fremst er það nú auðvitað 30. gr. þingskapanna, sem heimilar hvorri þd. um sig að senda konungi ávarp. Það er auðvitað fremur óviðkunnanlegt, úr því að verið er að breyta þingsköpunum á annað borð, að láta þetta lagaákvæði standa, þar sem við höfum engan konung lengur. Mér finnst alveg sjálfsagt að nota þetta tækifæri til að nema slíkt ákvæði úr lögum og vil beina því til hv. n. Í öðru lagi eru það ákvæðin um afbrigði frá þingsköpum, sem mér finnst fullkomin ástæða til að endurskoða. Eins og menn vita, má veita afbrigði frá þingsköpum, þ. á m. að taka mál fyrir áður, en þingsköp ætlast til, ef 3/4 deildarmanna í deildum eða í Sþ., ef málið er þar, samþykkja og ráðh. gefur samþykki sitt til. Í fyrsta lagi álit ég, að það sé nú alveg óþarft og eigi ekki við lengur að þurfa að leita samþykkis ráðh. Ég álít, að Alþingi, hvort heldur er þd. eða Sþ., eigi að vera einfært um að ákveða um það, hvort mál skuli taka fyrir, og það eigi ekkert leyfi ráðh. að þurfa að koma til nú, þegar við höfum fengið fyrir löngu þingræðisfyrirkomulag. Það er auðvitað, að þetta ákvæði stafar frá þeim tíma, þegar hér var ekki þingræði, og danska ríkisstj., sem vildi halda í sem mest völd, bæði fyrir sjálfa sig og sinn fulltrúa, setti það auðvitað inn í þingsköpin í fyrstu, að leyfi landshöfðingja þyrfti til þess, að það mætti veita afbrigði frá þingsköpum, og svo færðist þetta yfir á ráðh. Í öðru lagi er það a.m.k. hér í hv. Ed., að það er oft og tíðum fremur óþægilegt að framfylgja þessu ákvæði, því að það kemur æði oft fyrir, að enginn ráðh. er til staðar til þess að veita slík afbrigði. Þó að hæstv. dómsmrh. sé staddur hér nú og reyndar oft, þá kemur það a.m.k. æði oft fyrir, að hann er ekki, og hvað þá um hina ráðherrana, sem margir varla sjást hér nokkurn tíma. En ekki einasta það. Sumir ráðherrar hafa þann sið, að þó að þeir séu spurðir, hvort þeir leyfi afbrigði, þá anza þeir ekki eða gefa ekkert lífsmark frá sér um það, hvort þeir samþykki það eða neiti því, þannig að mér finnst það í alla staði hégómlegt að vera að hafa þetta ákvæði og þýðingarlaust.

Í öðru lagi finnst mér það ákaflega vafasamt, hvort á að áskilja þennan aukna meiri hluta til þess að mál sé tekið fyrir. Þegar frv. er borið of seint fram, þá þarf leyfi d. til þess, að það sé tekið fyrir, en það er aðeins einfaldur meiri hluti, sem þar ræður, og mér finnst engin sérstök ástæða til þess, að það þurfi 3/4 atkv. frekar til þess að leyfa að taka mál fyrir til 2. umr., skulum við segja, hafi það verið til 1. umr. daginn áður, þótt ekki sé liðinn nógu langur tími. Mér finnst, að einfaldur meiri hluti ætti þarna að nægja. Meiri hluti þings ætti að mega ráða því, eins og yfirleitt öðru, hvort mál sé tekið fyrir eða ekki, eða að öðru leyti víkið frá þingsköpum. Og ég fæ ekki séð, að þetta geti verið hættulegt. Það er nú svo ákveðið, að þetta gildi ekki um stjórnarfrumvörp, þá nægi einfaldur meiri hluti. Að sjálfsögðu má búast við því, að stjórnarfrumvörp séu betur undirbúin og oftast nær meira áríðandi, en þingmannafrumvörp, en samt sem áður held ég nú, að það sé hægt að trúa meiri hlutanum í d. eða Sþ. fyrir því að ákveða um það, hvort málið sé tekið fyrir eða ekki. Og ég veit beinlínis dæmi þess og líklegu við flestir, sem hér erum, að synjun um slík afbrigði af d. hefur beinlínis ráðið niðurlögum máls, sem mikill meiri hluti Alþ. vildi samþykkja. Það var neitað um afbrigði hér fyrir nokkru, eftir að búið var að ákveða þinglausnir, og það leiddi til þess, að málið gat alls ekki náð fram að ganga, þótt meiri hluti væri fyrir því.

Þessi atriði vildi ég nú biðja hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að taka til athugunar. Og í þriðja lagi vildi ég biðja hana þess einnig að athuga þingsköpin nánar, hvort ekki væri fleira, sem ástæða væri til að breyta í þingsköpunum, heldur en það, sem ég hef hér nefnt.