04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

17. mál, þingsköp Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég finn mér skylt að þakka hv. allshn. fyrir það, að hún hefur tekið þær óskir, sem ég lét í ljós við 1. umr. þessa máls, til greina, sérstaklega að því er það atriði snertir að taka þingsköpin í heild sinni til endurskoðunar og binda sig ekki eingöngu við það atriði, sem í frv. felst, sem er eingöngu um það, að þm. skuli tala úr ræðustóli vegna hinnar vélrænu upptöku á þingræðunum.

Út af þeim atriðum, sem ég hef bent sérstaklega á að ætti að breyta í þingsköpunum, þá hefur hv. nefnd að vísu ekki fyllilega tekið nema annað af þessum tveimur atriðum, sem ég benti á, til greina, sem sé það atriðið að fella niður greinina um ávörp til konungs. Aftur hefur hún ekki viljað fallast á það, sem ég hreyfði, að það mundi verða nægilegur einfaldur meiri hluti þm. eða þdm., ef í d. er, til þess að leyfa frávík frá þingsköpum. Ég er nú sömu skoðunar raunar eins og ég var við 1. umr. um þetta, að það væri eðlilegt, að meiri hluti gæti ráðið í þessu efni eins og öðru, en þegar þess er gætt, að hv. n. flytur aðrar brtt., sem að nokkru leyti koma í staðinn fyrir þetta, þá get ég vel sætt mig við hennar till. í þessu efni, því að það er tiltölulega sjaldan, þótt það komi nú fyrir, sem afbrigða er leitað að mega taka mál fyrir, sem útbýtt er á þeim sama fundi eða sama dag, og það, að fresturinn er styttur úr tveimur nóttum í eina nótt, gerir mína uppástungu við 1. umr. að minnsta kosti miklu þarfminni, heldur en ef þessi frestur hefði átt að vera eins og er í þingsköpunum nú, svo að ég get vel sætt mig við niðurstöðurnar, sem hv. nefnd hefur komizt að í þessu efni.

Í ýmsum smærri atriðum hefur n. lagfært þingsköpin, og virðist mér hennar vinna í því efni hafa verið til bóta. Ég sem sagt þakka hv. n. fyrir starfið í þessu efni, sem ég tel að hún hafi kannske að einhverju leyti innt af hendi sökum þeirra óska, sem ég lét í ljós við 1. umr. málsins.