04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

17. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get ekki annað, en látið í ljós undrun mína yfir því, að minn ágæti vinur, hv. þm. NM., skyldi bregða svo út af venjulegri góðvild sinni og háttsemi, að hann notaði þetta mál til sérstakrar árásar á mig. Ég hefði getað búizt við því úr flestum áttum, en ekki frá þeim hv. ágæta vini mínum og einlæga stuðningsmanni. Það kom mér mjög á óvart, að hann skyldi nota þetta tækifæri nánast til þess að lýsa vantrausti á mér og allri minni dómsmálastjórn, og eins og ég segi, ég bjóst allra sízt við því af honum.

En það verður að taka hvern hlut eins og hann er, og allra sízt bjóst ég þó við því, að hann mundi gera þetta, þegar hann er búinn að sýna sjálfur, að hann er í þingnefnd, sem ber fram till., sem fer beint í bága við stjórnarskrána. Það er nú það fyrsta. Skyldi maður þó ætla, að jafnglöggur þm. og útásetningarsamur við alla aðra væri farinn að kynnast fyrirmælum stjórnarskrárinnar eftir alla sína veru hér, þannig að hann flytti ekki brtt. við þingsköp, sem fara í þá átt að hafa að engu ótviræð ákvæði stjórnarskrárinnar. Og ef hann er að tala um það, að ég hafi sérstaklega verið að verja það að halda föstum ákvæðum, sem stöðugt séu brotin, þá er því til að svara, að undanþágur frá þingsköpum eru heimilaðar í sjálfum þingsköpunum, þannig að það er ekkert brot á þingsköpunum, þó að undanþágur séu veittar. Það er sérstök meðferð málsins, sem er fyllilega lögleg. Ég vil algerlega mótmæla því, að það sé þar talað um brot á þann veg, sem hv. þm. gerði, að því er mér skildist.

Ég vil og benda bv. n. á, að það eru fleiri ákvæði í þingsköpunum, sem er mjög hæpið, að eftir sé farið. Við skulum minnast t.d. á nafnaköll. Við vitum það, að í löngum atkvgr., sérstaklega t.d. við fjárlög, þá verður það oft til stórkostlegrar tafar, oft um marga klukkutíma, að þm. rjúka upp á síðustu stundu, oft eftir að búið er að afgreiða mál, og heimta nafnaköll um þau til þess að geta á þann veg sett einhverja aðra þm. í vanda, — oftast nær sýnist nú tilgangurinn vera sá. En í þingsköpunum eru alveg ótvíræð fyrirmæli um það, að til þess að þessi háttur verði hafður á, þurfi að liggja fyrir skrifleg krafa frá ákveðnum fjölda þm. Það er að vísu svo, að forseti hefur það í hendi sér að ákveða sjálfur nafnakall, en þá er auðvitað ætlazt til þess, að sú ákvörðun hans komi frá honum sjálfum, en ekki frá einhverjum þm. úti í salnum, enda heyrum við það oft, að þm. lenda í orðahnippingum við forseta af þessum sökum. Ég vil benda á það aðeins, að úr því að hv. n. með alla sína glöggu spekinga, hv. þm. N–M. og aðra honum sízt lakari, innan borðs fór í þessa endurskoðun, þá hefði mátt taka þetta atriði til íhugunar, ekki síður en þau, sem tekin voru, og þannig eru fjölmörg fyrirmæli í þingsköpunum, sem segja má að betur mættu fara, og sum þeirra eru brotin af hv. þm. N–M. og ýmsum fleirum, án þess að menn hafi enn þá séð ástæðu til þess að gera reka að því og draga þá fyrir lög og dóm, eins og hann virtist ætlast til að gert væri við mig fyrir mín hógværu orð hér áðan.