04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

17. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má nú segja, að þessar umr. séu nokkuð deila um keisarans skegg. Þetta skiptir ekki ýkjamiklu máli sumt af því, sem deilt er um. Þó er skylt að hafa það, sem réttara reynist í þessu.

Ég vil taka það fram út af því, sem hæstv. forseti sagði, að það væri einhver afbrýðissemi hjá mér, að mér væri illa við sem ráðh. að fella niður heimild ráðh. til þess að stöðva afbrigði frá þingsköpum, að þetta er auðvitað mesti misskilningur. Enda er það svo, að af öllum stólum hér eru ráðherrastólarnir þeir völtustu, og það getur auðvitað verið mjög varhugavert að láta þetta vald vera hjá andstæðingum sínum í ráðherrastóli, ef þeir leggja mikið upp úr því, — svo að ég held nú, að slík tillit komi þarna alls ekki til greina.

Það, sem ég vildi benda á í orðum mínum áðan og hæstv. forseti hlýddi ekki á, vegna þess að hann var að tala við ágætan gest, sem við sáum að hann var að ræða við, var, að það er misskilningur hjá hæstv. forseta, að það þurfi út af fyrir sig að vera illt eða merki gamallar íhlutunar í okkar mál, þó að ríkisstj. hafi nokkur áhrif á gang þingmála. Ég færði rök að því, að þingstörf ganga í raun og veru ekki skaplega, og reynslan hefur margfaldlega sýnt það, nema ríkisstj. hafi örugga forustu um framgang þingmála og það, hvernig starfstíma þingsins er varið. Ég tel að vísu, að þetta atriði þingskapanna skipti þar sáralitlu. En ég vildi vekja athygli á þessu, úr því að það er verið að breyta atriðinu, að það er ekki vist, að það sé einhliða til bóta. (Gripið fram í.) Það kemur stundum fyrir um frv. stj., að enginn ráðh. er til staðar til að veita nauðsynleg afbrigði. Það getur þá sýnt, að það þurfi annaðhvort að skipta um ráðh. eða fjölga ráðh., en ég skal ekki segja um það. Við ræddum það á dögunum, að þessar ásakanir, sem oft heyrast hér um það, að ráðh. séu ekki viðstaddir, hvíla á miklum misskilningi, vegna þess að á ráðh. hvíla svo margvísleg störf, auk þess sem deildirnar eru tvær og þeir þurfa málum að sinna í báðum, þannig að það er alveg ástæðulaust að vera að gera ráðh. tortryggilega fyrir það, þó að þeir geti ekki alltaf verið við. En ef það eitt vakir fyrir mönnum í þessu, að það sé óviðurkvæmilegt að lýsa því yfir, að samþykki stj. sé fyrir hendi, ef það er ekki formlega fyrir hendi, þá hefði nægt að breyta þessu á annan veg og segja t.d.: Ríkisstj. getur neitað um afbrigði. — Með þeirri einföldu breyt. væri hægt að synda fram hjá skeri, sem bæði hæstv. forseti að nokkru leyti og þó sérstaklega minn ágæti vinur, hv. þm. N-M., talaði um, þannig að það er hér eitthvað annað og meira á bak við, eins og hæstv. forseti sagði um afstöðu okkar, sem ekki erum jafnhrifnir af þessum breyt. eins og hann er. En eins og ég segi, þetta skiptir ekki ýkjamiklu máli, en mig skortir sannfæringu fyrir því, að þessar breyt. í heild séu til bóta.

Varðandi það, sem hér var haldið fram af bæði hæstv. forseta og hv. 1. þm. N-M., að það væri ekkert því til fyrirstöðu að hafa engin ákvæði í þingsköpunum um ávarp, þá kom það glögglega fram hjá hv. 8. þm. Reykv., frsm. n., að hann hafði ekki veitt því athygli, að þetta fyrirmæli er í stjskr. Hann hagaði orðum sínum þannig, og ég þori að fullyrða, að hann muni hafa rétt tekið eftir, að n. byggði till. sínar á því. Þetta kemur ákaflega oft fyrir, að menn aðgæta ekki öll fyrirmæli laga. Það er ekkert sérstakt í því, en þeir, sem hafa gert sig seka um slíka skyssu, eiga þá ekki alveg í sama málinu að vera að vaða upp á aðra með ókvæðisorðum, eins og hv. 1. þm. N-M. gerði í minn garð. Hann gat alveg sparað sér þjóstinn, meðan hann var að þvo af sér blettinn, sem hann hafði sett á sig sjálfan. Hæstv. forseti hefur sjálfur viðurkennt með þeirri brtt., sem hann boðaði, að það fer a.m.k. miklu betur á því að hafa þetta ákvæði í þingsköpunum, og það er ætlazt til þess. Þingsköpin eru þannig, að þau taka upp öll hliðstæð ákvæði stjskr. við þetta. Það sér hv. 1. þm. N-M., ef hann vill leggja á sig að lesa þetta, og hélt ég raunar, að hans minni væri svo gott, að hann hefði það í huganum án þess að þurfa að lesa það enn þá einu sinni yfir. Það er vitanlega nauðsynlegt að segja til um, hvernig með þessi ávörp á að fara. Það er engan veginn víst, að það eigi að fara með þau eins og þáltill., eins og hv. 1. þm. N-M. hélt fram. Nú er þvert á móti tekið fram, að það á ekki að fara með þau eins, vegna þess að það er bannað að senda ávörpin á milli deilda, svo að það er brýn nauðsyn að hafa einhver fyrirmæli um ávörpin. Hitt er rétt að athuga, að núverandi fyrirmæli þingskapa um þetta eru ekki alveg í samræmi við stjskr., vegna þess að þar stendur: „Ávarp má hvor þingdeildin fyrir sig senda konungi“ — við skulum sleppa þessu með konunginn, en í 38. gr. stjskr. segir: „Einnig má hvor þingdeild eða sameinað Alþingi senda forseta lýðveldisins ávarp.“ Og það er eðlilegt, að þingsköpin séu að þessu leyti færð til samræmis við stjskr.

Út af því, sem hæstv. forseti sagði um, að „konungur“ stæði í þingsköpum í stað „forseta“, vil ég segja, að almenn lögskýring leiðir til þess,að þar sem áður var „konungur“ í lögum, kemur nú „forseti“. Þetta er almenn lögskýringarregla, sem liggur í augum uppi. Það er í fjölmörgum fyrirmælum, sem sagt er, að konungur geri þetta og þetta eða að þetta eigi að leggjast undir konung, og leiðir af sjálfu sér, að stjskr. hefur breytt þessu á þann veg, að nú er átt við forseta. Það má segja, að formlega er réttara að setja „forseta“, og það er sjálfsagt að gera það, þegar l. er breytt á annað borð. En menn hafa ekki talið ástæðu til þess að vera að tína þetta upp á þeim óteljandi stöðum, sem það er, heldur breyta því jafnóðum og fyrirmælunum er breytt af öðrum ástæðum. Það hefði líka verið hægt að setja í lög, að alls staðar þar sem talað er um konung, væri átt við forseta Íslands. Þetta hefur verið talið óþarfi, vegna þess að þetta er sagt í stjskr. Og stjskr. hefur það gildi gagnvart almennum l., að það er enginn vafi á því, að hún er þeim sterkari, og verður að skilja þau í samræmi við hana.