08.12.1952
Efri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

17. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. ber hér fram á þskj. 391 tvær brtt. Þær eru báðar varðandi atriði, sem var frestað að greiða atkv. um við 2. umr. málsins, og koma nú þessar till. hér í stað þeirra till., sem allshn. hafði borið fram þá.

Fyrri till. er um það, að í stað þess, sem hafði verið lagt til, að leggja 30. gr. niður, þá verði henni breytt þannig, að þingdeildir eða sameinað Alþingi megi senda forseta lýðveldisins ávarp. En ég sé, að það er prentvilla hér, og vildi ég biðja um leiðréttingu á því, það stendur „hver þingdeild“, en ætti vitanlega að vera „hvor þingdeild“, þar sem ekki er nema um tvær að ræða. — Ég vildi bara fá þetta skoðað sem leiðréttingu í prentun, — minni á það.

Þá er önnur brtt., sem allshn. varð sammála um að bera fram eftir umræðurnar, sem urðu hér við 2. umr., að í staðinn fyrir orðin „ef ráðherra leyfir“ komi „ef ráðherra synjar ekki“.

Þetta eru brtt. á þskj. 391, sem allir allshn.-menn, er mættu til viðræðna um þessar till., voru sammála um. En svo hafði fallið niður og er ekki hér brtt., sem ætti heima aftan við 13. gr. frv., eins og það nú er, og er við 43. gr. Hún er í sömu átt og síðari till. á þskj. 391. Það er skrifleg brtt., sem borin er fram af mér og hv. 1. þm. N-M., vegna þess að okkur hefur ekki tekizt að ná í nefndarmenn síðan ákvörðunin var tekið um það, sem hér er á þskj. 391, og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Aftan við 13. gr. bætist nýr stafliður, svo hljóðandi: Fyrir orðin „og leyfi ráðherra“ í niðurlagi gr. kemur: enda neiti ráðherra ekki um leyfið.“ Þetta er í samræmi við það, sem 1. þm. N–M. talaði um hér við 2. umr. málsins, og er breyting hér á þeim brtt., sem nefndin bar þá fram, en er um sama atriði. — Ég leyfi mér að leggja þessa skriflegu brtt. til hæstv. forseta.