03.10.1952
Neðri deild: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

31. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er lagt fram, er samið í dómsmrn. og er byggt á þeim endurskoðuðu ríkisborgararéttarlögum, sem á seinustu árum hafa verið sett í hinum Norðurlöndunum, að minnsta kosti Danmörku, Svíþjóð og Noregi, en okkar löggjöf í þessum efnum hefur lengst af fylgt þessum norrænu fyrirmyndum, og þótti því eðlilegt að semja hin íslenzku lög upp nú að nýju, eftir að frændur okkar höfðu sett ný fyrirmæli um þessi efni hjá sér. Okkur var á sínum tíma gefinn kostur á því að taka þátt í þeirri endurskoðun laganna, sem þeir létu fram fara, en við töldum ekki ástæðu til þess. Við höfum ekki mannafla til þess að taka þátt í slíku samstarfi eins og skyldi, en höfum oft haft þann hátt á, svipaðan eins og hér, að nota okkur niðurstöðurnar af því starfi, sem þannig er unnið, og taka upp hér þau nýmæli, sem við geta átt.

Aðalbreytingin í þessu frv. frá því, sem áður hefur verið hér, er sú, að nú er ætlazt til, að konur geti öðlazt og haldið sérstöku ríkisfangi, án þess að það sé leitt af ríkisfangi eiginmanna þeirra, eins og meginreglan hefur verið fram að þessu. Það má segja, að í þessu komi fram sjálfstæðari réttarstaða kvenna, heldur en áður hafi gilt. Má auðvitað um það deila, hvort fyrirkomulagið í þessu efni sé í raun og veru hentara, en hitt er greinilegt, að eðlilegt er, að þau ríki, sem mest hafa samskipti, hafi um þetta hliðstæðar reglur, þannig að ekki verði árekstur um það, til hvaða ríkis hver skuli vera talinn. Eins og til háttar, er því enginn vafi á því, að þessi meginbreyting laganna er til góðs, og er nauðsynlegt, að hún verði hér lögfest, úr því að svo hefur verið gert í nágrannalöndum okkar.

Þá er einnig breytt nokkuð aldri, hækkað úr 16 árum í 18 ár, hvenær menn öðlist sjálfstætt ríkisfang.

Loks hefur verið gerð breyting á fyrirmælunum um það, með hvaða skilyrðum menn fái ríkisfang með sérstökum lögum. Í núgildandi ákvæðum hér á landi eru fyrirmæli um það, að unnt sé með sérstökum lögum að veita mönnum ríkisfang, ef tilteknum skilyrðum sé fullnægt. Þessi ákvæði fá ekki staðizt, vegna þess að í stjórnarskránni er tekið fram, að Alþingi setji lög um það, hvenær menn öðlist ríkisborgararétt, og getur þess vegna eitt Alþingi ekki bundið hendurnar á síðari þingum. Það er því alveg í valdi hvers einstaks Alþingis, hvort það vill hlíta þessum almennu skilyrðum eða ekki. Almennu skilyrðin gætu haft gildi og mundu vitanlega hafa gildi, ef ríkisborgararéttinn ætti að veita með stjórnarvaldsákvörðun. En úr því að svo er ekki, úr því að ríkisborgararéttinn á að veita með sérstökum lögum hverju sinni, þá eru þessi almennu fyrirmæli þýðingarlaus, þ.e.a.s., þau eru þýðingarlaus að lögum. Þau geta haft þýðingu sem eins konar minnisblað fyrir Alþingi um það, að þessu vilji það fylgja, en slíkt minnisblað geta menn haft alveg án þess að það sé sett í lögum, og er í raun og veru óviðurkvæmilegt að hafa slík almenn ákvæði, sem eru órökvís samkvæmt hinum almennu fyrirmælum stjskr. Mér sýndist því rétt, úr því að lögin voru endurskoðuð á annað borð og átti að semja nýtt frv., að fella þessi fyrirmæli niður. Efnislega má segja, að þetta skipti ekki miklu máli, en frá formlegu sjónarmiði er enginn vafi á því, að rétt var að fara að eins og gert er í þessu frv. Hins vegar er ætlazt til þess, að allnáinna upplýsinga sé aflað um umsækjendur um ríkisborgararétt, áður en kemur til kasta Alþingis, og er nánar kveðið á um það í 6. gr. þessa frv., og í athugasemdunum er, í samræmi við óskir, sem fram komu í Ed. á siðasta þingi, gerð nokkur grein fyrir því, hvernig slíkra gagna er aflað í nokkrum nágrannalöndum okkar.

Ég hygg, að þetta séu aðalbreytingarnar, sem fólgnar eru í þessu frv., en rétt er að skýra frá því, að eitt meginatriði norrænu laganna tók ég ekki upp í frv., heldur geri aðeins grein fyrir því í athugasemdum. Það er sem sagt ráðgert, að borgarar þeirra Norðurlanda, sem um það gera samning sín á milli, geti með vissum skilyrðum og eftir tiltekna dvöl í landinu öðlazt ríkisborgararétt, án þess að lagaákvæði komi til. Þetta ákvæði, sem mun vera komið í gildi milli Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, er í sjálfu sér skiljanlegt þeirra í milli, þar sem þar er um að ræða þjóðir, sem eru mjög skyldar að tungumáli, búa mjög nærri hver annarri og eru tiltölulega jafnstórar, ekki mjög mikill fjöldamunur á íbúatölu þeirra. Hér á landi horfir þetta allt öðruvísi við, og ég mundi telja það hættulegt ákvæði hér, ef útlendir menn, hverjir sem eru, gætu fengið ríkisborgararétt hér á landi án afskipta löggjafarvaldsins, einungis ef þeir eru búnir að dveljast hér svo og svo langan tíma og fullnægðu öðrum skilyrðum. Hér er eitt dæmi þess, að þó að það sé gott fyrir okkur að taka þátt í norrænni samvinnu, þá eiga ekki öll ákvæði, sem þessir aðilar koma sér saman um, við um okkar þjóð, og þess vegna verður með varúð að taka upp þau samningsatriði, sem þessir aðilar kunna að semja um sín á milli. Vera kann, að einhverjir hv. þm. séu á öðru máli, en ég um þetta, en þá er hægurinn hjá að gera á því breyt. við meðferð málsins og láta Alþingi skera úr, en ég tel sjálfur eftir allrækilega íhugun, að þetta ákvæði hinna norrænu laga geti ekki átt við á Íslandi. Að svo mæltu vil ég leggja til, að frv. verði afgr. til 2. umr. og sent til hv. allshn.