11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

31. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Eins og fram kemur í grg. frv., þá er tilgangur þess sá að færa ákvæði íslenzkra l. um ríkisfang til samræmis við þær breyt., sem nýverið hafa verið gerðar á norrænni löggjöf um þetta efni. Slík samræming er ekkert ný að því er þessa löggjöf varðar. Íslenzk löggjöf um ríkisfang hefur jafnan verið sniðin eftir norrænni löggjöf um sama efni. Núgildandi íslenzk löggjöf um ríkisfang er frá 1935 og í öllum meginatriðum er hún sniðin eftir hinni norrænu löggjöf um þetta mál. Ástæðan til þess, að nú þykir þörf fyrir breyt., er sú, að nýverið hafa verið gerðar ýmsar breyt. á Norðurlandalöggjöfinni um þetta efni, einkum vegna þeirra breyt., sem orðið hafa á réttarstöðu kvenna að ýmsu leyti, einkum stjórnmálalega og fjárhagslega. Frv., sem hér liggur fyrir, er þó í meginatriðum sama efnis og gildandi löggjöf um þetta efni er nú. Nokkrar breyt. eru upp teknar hér og hvar í l., og þykir mér rétt að gera grein fyrir þeim í megindráttum.

Í 1. gr. frv. er við haldið þeirri reglu, sem um íslenzkt ríkisfang hefur gilt fyrir börn, þannig að skilgetið barn fylgir föður, en óskilgetið barn fylgir móður. Hér er þó það nýmæli tekið upp, að ef skilgetið barn er fætt hér á landi og móðir þess er íslenzkur ríkisborgari, en faðir þess á hvergi ríkisfang og barnið fær ekki ríkisfang föður af öðrum ástæðum, þá eigi barnið að fylgja móðurinni. Er þetta ákvæði tekið upp til þess að koma í veg fyrir það, að barnið verði ríkisfangslaust þegar svo stendur á, að faðirinn á hvergi ríkisfang eða barnið öðlast ekki ríkisfang hans af einhverjum sérstökum ástæðum.

Í 2. gr. frv. er breyting á aldursákvæði, þannig að aldurstakmarkið er fært úr 16 árum upp í 18 ár fyrir því, hvenær barn öðlast íslenzkt ríkisfang vegna giftingar foreldranna, ef þau hafa verið ógift þegar barnið fæddist. Þessi aldursbreyting er líka tekin upp í frv. til samræmingar við Norðurlandalöggjöfina og til þess að koma í veg fyrir það, að barn verði ríkisfangslaust, ef það er óskilgetið, en foreldrarnir giftast áður, en það verður 18 ára.

Í 3. gr. frv. er enn ein breyting frá þeirri reglu, sem gilt hefur. Gamla reglan var sú, að útlendingur, sem fæddur var hér á landi, en dvalizt hafði hér fram yfir að hann varð sjálfráða, öðlaðist íslenzkt ríkisfang, án þess að hann þyrfti um það að sækja, ef hann afsalaði sér því ekki skriflega. Hér er sú regla tekin upp, að enginn, sem þannig stendur á um, öðlast þetta ríkisfang, nema því aðeins að hann hafi sótt um það skriflega. Og í stað þess að áður var, miðað við sjálfráðaaldurinn 16 ára, miðað við 19 ára aldur, þá er farið hér upp í 21 árs aldur.

Í 4. gr. er svo enn breyting frá því, sem áður var, og er 4. gr. algert nýmæli. Gildandi regla er sú, að sá Íslendingur, sem misst hefur íslenzkt ríkisfang við giftingu, öðlast ekki ríkisfangið aftur, þó að hann flytjist hingað til lands og breyting verði á högum hans, nema því aðeins að honum verði veitt það með sérstökum lögum. 4. gr. gerir ráð fyrir þeirri breytingu, að ef einhver, sem öðlazt hefur íslenzkt ríkisfang við fæðingu og átt hefur hér lögheimili til fulls 18 ára aldurs, hefur misst það vegna giftingar eða af öðrum ástæðum og flytur svo til landsins aftur og dvelst hér í 2 ár, getur hann öðlazt það án þess, að lagafyrirmæli þurfi að koma til.

Í 5. gr. frv. er enn ein breyting að því er varðar ríkisfang barna þeirra foreldra, er öðlazt hafa íslenzkt ríkisfang. Þar er að vísu haldið þeirri aðalreglu, að skilgetin börn fylgi föður, en óskilgetin börn fylgi móður, en þó er því við bætt hér, að á þessu verður breyting, ef barn skilgetinna foreldra er undir forráðum móður sinnar, eftir að hún er skilin við föðurinn, eða ef óskilgetið barn er undir forræði föður, þá fylgir barnið ekki almennu reglunni, heldur er því snúið við, þannig að það fylgir þeim, sem forræði barnsins hefur.

Í 7. gr. er líka nýmæli í löggjöfinni. Gildandi regla er sú, að sá, sem hlýtur erlent ríkisfang, missi íslenzkt ríkisfang, án þess að nokkuð frekar þurfi til að koma. Hér er tekið upp það nýmæli, að maður missi því aðeins íslenzkt ríkisfang við það að öðlast erlent, að hann hafi sótt um hið erlenda ríkisfang eða sýni það á annan hátt skýlaust, að hann sé samþykkur því eða óski eftir því að öðlast hið erlenda ríkisfang.

Önnur ákvæði frv. verða ekki til nýmæla talin.

Eins og menn sjá af öllum þessum nýmælum, sem ég hef hér bent á, þá er tilgangur þeirra í fyrsta lagi sá, að samræma okkar löggjöf við Norðurlandalöggjöfina. Í öðru lagi að koma í veg fyrir, að nokkur geti átt tvöfalt ríkisfang eða ríkisfang í tveimur löndum á sama tíma. Og í þriðja lagi að koma í veg fyrir það, að þeir, sem eðlilegt er að eigi íslenzkt ríkisfang, geti orðið ríkisfangslausir. Þessum þrefalda tilgangi er þessu frv. ætlað að þjóna. Ég fæ ekki betur séð, en þetta sé vel og samvizkusamlega útfært í frv., og virðast öll þessi nýmæli vera til bóta. Er því lagt til, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir.