03.10.1952
Efri deild: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

7. mál, innheimta

Haraldur Guðmundsson:

Þetta frv. er glöggt dæmi þess, hvernig skattamálum og skattinnheimtu nú er háttað. Samkvæmt þessu litla frv. er ríkisstj. veitt heimild til að innheimta með 50–740% álagi, ýmsa tekjustofna ríkissjóðs. Á þskj. 9 er frv. til laga um bráðabirgðabreyt. á l. nr. 62 1939, um tollskrá o.fl., sem er að nokkru hliðstæðs efnis eins og þetta frv. Ég hygg, að hæstv. fjmrh. vilji ekki bera á móti því, að slík aðferð við álagningu og innheimtu skatta sem hér er um að ræða sé mjög óheppileg, vægast sagt.

Að loknu síðasta Alþingi mun hafa verið skipuð mþn. til þess að framkvæma heildarendurskoðun skatta- og tollalaga, og var þá gert ráð fyrir því, að þessi nefnd mundi skila till. sínum til ríkisstj. svo snemma, að hún gæti lagt málið fyrir þetta Alþ., sem nú er byrjað. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hversu starfi þessarar mþn. miði og hvort þess megi vænta, að niðurstöðurnar af starfi hennar verði lagðar fyrir þetta þing, sem væntanlega verður það síðasta, áður en gengið verður til almennra kosninga.