03.10.1952
Efri deild: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

7. mál, innheimta

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í þessu frv. eru nokkrir viðaukar við tekjustofna ríkisins, og taldi ég nú upp áðan, við hvaða gjöld þessir viðaukar eru aðallega. Ef menn veita þessu athygli við upptalningu, þá kemur í ljós, að þeir eru aðallega á þau gjöld, sem hafa verið ákveðin með vissri krónutölu í tollalöggjöfinni, en ekki á þau gjöld, sem hafa verið ákveðin sem hundraðshluti af verði. Þess vegna er það ekkert einkennilegt, þó að það hafi verið lagðir viðaukar á þessi gjöld á undanförnum árum, þar sem gildi peninga hefur svo gerbreytzt sem raun er á orðin. Er því ekkert einkennilegt við þessa aðferð, eins og þróunin hefur verið hér, að leggja slík álög á gjöld, sem eru ákveðin í krónutölu, en ekki hundraðshluta.

Ég vil minna á lið eins og f-liðinn, þ.e. 560% álag á gjald af innlendum tollvörutegundum. Þetta sýnist vera há prósenta, en það er þó ekki sexföldun á þessu gjaldi frá því, sem það var fyrir stríð, og þess vegna hefur þetta gjald sízt hækkað. Ef við tökum dæmi eins og stimpilgjöld og aukatekjur, sem eru með 140% álagi, en með sömu krónutölu, grunnurinn, eins og var fyrir stríð, þá hafa þau lækkað stórkostlega í raun og veru samanborið við aðrar greiðslur. Ég vil játa, að það er ekkert einkennilegt, þótt orðið hafi að grípa til þessara viðauka á gjöld, sem eru ákveðin á þennan hátt, þegar verðlag hefur gerbreytzt, svo sem raun hefur á orðið.

Um störf mþn. í skattamálum get ég ekki gefið skýrslu hér í dag, vegna þess að nefndin hefur ekki skilað til mín áliti enn þá. Þarf víst tæpast þess að vænta, að hún hafi getað gert það, því að nefndinni er ekki aðeins ætlað að endurskoða skattalög ríkisins. Mér er ekki ljóst, hvort nefndin hefur skilið þáltill. þannig, að hún ætti líka að endurskoða tollalöggjöfina, en hún á að endurskoða að minnsta kosti löggjöfina um beinu skattana og alla löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Þetta er vitanlega gífurlega víðtækt verkefni. Mér er kunnugt um, að nefndin hefur unnið mikið, en skýrslu hefur hún ekki skilað enn þá, og get ég því ekki fullyrt um það, hvenær hún skilar af sér eða hvort till. hennar verða lagðar fyrir þetta þing, en ég hafði hugsað mér að víkja nánar að þessu í sambandi við framsöguna fyrir fjárlögunum og fer því ekki nánar út í það að sinni.