04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Fjhn. klofnaði um þetta mál, og ég var þar í minni hluta. Ég hef nú ekki skilað neinu nál., enda gerist þess máske ekki þörf. Ég hef hins vegar borið fram brtt. á þskj. 103, og þær eru fyrst og fremst við 3. gr. l. og í öðru lagi um, að á eftir 4. gr. komi ný grein. 3. gr. laganna, eins og hún er nú, mælir fyrir um sérstaka lækkun tekjuskatts af lágtekjum. Það hefur verið þannig 2–3 síðustu árin, að tekjur, sem hafa verið undir 20 þús. kr., eru undanskildar tekjuskatti. Þetta var samþ. 1950 og kemur auðvitað ákaflega fáum að gagni, en þó náttúrlega nokkrum.

Mín brtt. gengur út á það, að tekjuskatturinn sé lagður á eftir þeim reglum, sem nú gilda um það, en síðan sé hann gefinn eftir algerlega hjá öllum þeim aðilum, sem hafa 30 þús. kr. eða lægra í hreinar árstekjur og hafa konu og 1 barn á framfæri, miðað við Reykjavík. M.ö.o., eftirgjöfin af tekjuskattinum, sem nú er miðuð við 20 þús., sé hækkuð upp í 30 þús., og allir þeir, sem hafa 30 þús. eða innan við það í hreinar árstekjur, miðað við að hafa konu og eitt barn á framfæri, sleppi við tekjuskatt. Síðan legg ég til, að tekjuskattur þeirra, sem hafa milli 30 og 40 þús. kr. í hreinar árstekjur, sé gefinn eftir að allmiklu leyti og þá á eftirfarandi hátt, — alltaf miðað við það sama, að maður hafi konu og eitt barn á framfæri, og tölurnar mundu náttúrlega hækka, ef fleiri væru á framfæri mannsins, — þannig að þeir, sem hafa milli 30 og 33 þús. kr., sleppi við 3/4 af skattinum, þeir, sem hafa milli 33 og 36 þús. kr. hreinar árstekjur, sleppi við helminginn af skattinum og þeir, sem hafa milli 36 og 40 þús., sleppi við 1/4 af skattinum.

Að vísu hefði ég gjarnan viljað koma fram með frekari till. í þessu efni, og þeirra hefði verið þörf, jafnvel, í staðinn fyrir að miða við 30–40 þús. þarna, að miða við allt upp í 50 þús. kr. Ég reyndi hins vegar í fyrra að bera fram samsvarandi till. og þessa, sem þýddi þá raunverulega að gefa hlutfallslega meira eftir af tekjum, heldur en upp á er stungið núna, og hún var felld. Ég sá mér þess vegna ekki fært, ef það væri einhver von um að reyna að fá þetta í gegn, að fara hærra, en hér er gert. Þessi till. er sem sé miðuð við það, að það ætti máske að vera einhver möguleiki, að hv. þm. vildu fallast á þessa eftirgjöf, þegar það er vitanlegt, að 30 þús. kr. tekjur eru hreinar nauðþurftartekjur, sem ekki nær nokkurri átt að skattleggja.

Eitt af því, sem verkalýðssamtökin hvað eftir annað hafa farið fram á í sambandi við kröfur þeirra um eðillegri og meiri og þar með réttlátari hlutdeild í þeim auði, sem verkamennirnir skapa í þjóðfélaginu, er, að lækkaður yrði og jafnvel afnuminn tekjuskatturinn af þeim lægst launuðu. Þetta er það, sem ég legg hérna til í þessari brtt. Þetta er það form, sem kemur þeim lægst launuðu ótvírætt mest að gagni, án þess að rýra nokkuð sem heitir tekjur ríkisins. Ég hef sjálfur á ýmsum undanförnum þingum flutt till. um hækkun persónufrádráttarins, að nokkru leyti til þess, að þeir lægst launuðu fengju þannig nokkru meiri eftirgjöf í tekjuskatti. Allar mínar till. um hækkun persónufrádráttarins hafa verið felldar af öllum þrem flokkunum í einu, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., á þeirri forsendu, eins og stendur í gömlu nál. frá meiri hluta fjhn. þessara þriggja flokka, að hækkun persónufrádráttarins, þó að hún kæmi lágtekjumönnum að nokkru gagni, kæmi hátekjumönnum að enn þá meira gagni, og það eru viss rétt rök í því, sem ég aldrei hef mótmælt. Ég hef aðeins haldið því fram, að ef engin önnur leið væri til þess að bæta fyrir um skattálagningu láglaunamannsins, heldur en jafnvel að gefa hátekjumönnunum enn þá meira eftir, þá væri það þó betra, en að bæta ekkert fyrir lágtekjumanninum. Til þess nú að svara þessari röksemd meirihlutaflokkanna út af persónufrádrættinum og ganga til móts við þá, þá kom ég með þessa till. mína, sem hér liggur fyrir. M.ö.o., ef persónufrádrátturinn væri bara hækkaður, þá mundi t.d. hátekjumaður með 60–70 þús. kr. fá miklu meiri eftirgjöf á tekjum heldur en þá litlu eftirgjöf, sem lágtekjumaðurinn fær. Hins vegar með þessari till. minni hérna á þskj. 103 fær lágtekjumaðurinn, sem hefur undir 30 þús., og að nokkru leyti lágtekjumaðurinn, sem hefur undir 40 þús. kr. í hreinar árstekjur, ýmist eftirgjöf á öllum tekjuskattinum eða nokkrum hluta hans, en hátekjumaðurinn enga, þannig að fyrir þá, sem eru að hugsa um hag ríkissjóðsins í þessu efni, er þetta sú till., sem er sanngjörnust. Hins vegar, eins og ég tók áður fram, hefði það verið æskilegt, og enginn er fúsari til þess heldur en ég, að þarna væri gengið lengra, þarna væri gefið meira eftir, t.d. að tekjur undir 40 þús. kr. og allt upp að 50 þús. kr. yrðu skattfrjálsar að meira eða minna leyti. En með tilliti til þess, að ég veit nú, hvernig hv. d. er skipuð, þá þori ég ekki að fara lengra í þetta mál, en ég hef hins vegar lagt þessa till. fram fyrir mjög löngu, líklega meira en mánuði. Hún hefur líka verið til umr. í fjhn., en ekki fundið náð fyrir augum meiri hlutans.

Svo er á þessu þskj. mínu önnur brtt., sem þm. er nú kunn. Það er um það, að giftar konur, sem stunda sjálfstæða atvinnu utan heimilis, megi telja fram sérstaklega til skatts. Þarna hefði ég líka kosið, að hægt hefði verið að ganga lengra, og eins og hv. þm. muna, þá lá fyrir síðasta Alþ. og liggur nú aftur fyrir þessu þingi frv. flutt af nokkrum hv. þm. um sérsköttun kvenna, frv., sem hins vegar ýmist hefur verið fellt eða hvað snertir þetta þing núna, er ekki farið að koma fram til 2. umr. enn þá. Og það væri náttúrlega, eins og ég líka gerði grein fyrir í fyrra, þegar þetta mál kom hér fyrir, enn þá heppilegra, ef hægt væri að ganga svo langt sem þar er lagt til, og þessi til. mín er hins vegar miðuð við, að ef nú hv. þm. ekki vildu sýna þá sanngirni, sem í því frv. felst, þá ættu þeir að minnsta kosti að geta fallizt á þetta, sem er ofur lítið spor í áttina. Þess vegna lagði ég þessa till. mjög snemma fram. Hún var líka rædd í fjhn. og fann ekki náð fyrir augum meiri hlutans, stjórnarflokkanna þar.

Þessar tvær brtt. liggja fyrir frá mér viðvíkjandi þessum l., og ég vildi mjög eindregið leggja til, að hv. þd. gæti á þær fallizt. Ég hef ekki flutt fleiri brtt., en hins vegar liggja hér fyrir á öðru þskj. brtt., sem eru í þeim anda, sem rætt var um einmitt af hálfu stjórnarandstöðunnar við 1. umr. málsins, og er mjög nauðsynlegt og mjög æskilegt að fengjst framgengt.