15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. lýsti hér áðan, þá hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara og skal nú nokkuð skýra frá því, hvers vegna ég gerði það, og þá um leið svara nokkuð þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. beindi til mín í sambandi við mína till. á þskj. 453. Þessi till. skýrir nú nokkuð ástæðurnar fyrir því, að ég gat ekki samþ. frv. óbreytt og skrifa því undir það með fyrirvara, og skal ég gera grein fyrir því nokkru nánar.

Þegar sams konar mál var afgr. hér á síðasta Alþ., bar ég einnig fram brtt. við frv., þess efnis, að það skyldi fyrirskipa með lögum að endurskoða skattalögin. Ég færði þá fyrir því mörg og sterk rök, hversu það væri nauðsynlegt, að þetta yrði gert, en hv. meiri hl. fjhn. þessarar d. og hv. deild féllst ekki á þessi rök og felldi þá till. En á sama þingi samþ. þessir sömu menn þáltill. um það að láta endurskoða skattalögin. Þannig er nú samræmið milli skoðana þeirra í hv. Ed. og í hv. Sþ. um sömu mál. Fyrir það, að sú till. var samþ., hefur þó þokazt það áfram, að það hefur a.m.k. verið sett í það mþn. að athuga lögin, og samkv. yfirlýsingu frá hv. frsm. er þess að vænta, að þessari endurskoðun verði lokið, áður en langt um líður. En ég vil biðja hv. dm. að athuga það, að hafi hv. meiri hl. fjhn. haft rangt fyrir sér í fyrra, og það er sýnilegt, að hann hefur ekki haft þá fullan skilning á málinu, þá kann hann engu síður að hafa rangt fyrir sér í ár. Kann þá að vera; að þau rök, sem færð eru fram fyrir því, að ekki megi samþ. mínar till. nú, séu ekki byggð á fastari grundvelli, en rökin voru á s.l. ári, þegar mín till. var felld. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram í sambandi við þetta mál.

Það, að ég flyt þessa till. hér, kemur til af því, að það er vitað fyrir löngu, að langsamlega sterkasta ástæðan fyrir þeim erfiðleikum, sem þjóðin á við að búa fjárhagslega og atvinnulega, er hin ríkjandi skattalög. Og það er einmitt þess vegna, sem meiri hluti Alþ. samþykkti í fyrra, að skattalögin skyldu endurskoðuð. Nú er það vitað, að sú n., sem hefur haft þetta til endurskoðunar, hefur ekki komið sér saman um, á hvaða grundvelli skuli leggja till. fyrir Alþ. í sambandi við breyt. á skattalögunum. Þar vilja menn fara í ýmsar áttir, en enginn í þá átt að afnema skattalögin, ekki af því, að það sé ef til vill ekki skynsamlegasta till., heldur af því, að þeir geta ekki fellt sig við svo róttækar till. um breyt. á skattalöggjöfinni, en vilja einmitt ekki einu sinni, eins og hv. frsm. lýsti hér, koma nálægt því að rannsaka, hvaða áhrif það hefði á fjárhagskerfi þjóðarinnar og atvinnuvegina í landinu, ef slíkt yrði gert. Ég tel hins vegar, að það sé alveg óverjandi, eftir alla þá reynslu, sem við höfum haft af skattalöggjöfinni undanfarin ár, að taka það ekki til nákvæmlegrar athugunar, hvort það væri ekki hagkvæmast fyrir atvinnuvegina og ríkið í heild að afnema skattalögin að fullu og öllu. Og ég tel það enga goðgá, þó að það sé sett inn í lög, að sú nefnd, sem starfar að endurskoðun skattalaganna, skuli einmitt rannsaka þessi atriði, því að ef hún hefur gert það og rannsakað það samvizkusamlega, þá er þó a.m.k. hægt að bera það fram á eftir, að þetta mál hafi verið rannsakað og að þeir menn, sem að því stóðu, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að annaðhvort sé þetta til óhagnaðar fyrir fjárhagskerfi þjóðarinnar eða til bóta. En á meðan ekki er fallizt á að rannsaka þetta mál, þá er einmitt verið að dæma málið án þess að hafa nokkur rök fyrir sér í því. Og það er eins og hv. frsm. þori ekki fyrir sitt líf að koma nálægt því að upplýsa, hvaða áhrif þetta hafi á atvinnumál og fjárhagsmál þjóðarinnar. Ég man eftir því, að fyrst þegar þetta mál var borið fram hér á Alþ., þá sagði þessi hv. þm., að hér væri um fjarstæðukennda hugsjón — einhvern veginn svoleiðis held ég að hann hafi orðað það (Gripið fram í.) — já, skemmtilega fjarstæðu að ræða. Nú er hann þó kominn svo langt frá þeim fullyrðingum sínum, að hann vill ekki endurtaka þau ummæli, heldur telur hann nú, að það sé kannske eitthvað hæft í þessu, enda gel ég fullyrt, að það eru fleiri og fleiri menn að fallast á þá skoðun, eftir að hafa athugað þessi mál, að eina lausnin til þess að fá samkomulag um þessi mál, sé að afnema skattalögin. Og það eru meira að segja menn, sem fjalla um skattamál miklu meira, en bæði ég og hv. frsm. daglega meðal þjóðarinnar. Hann sagði, að þessi skoðun hefði ekki átt fylgi að fagna hér á Alþ. Það er alveg rétt. En hún hefur átt mjög miklu fylgi að fagna meðal þjóðarinnar og því meira fylgi að fagna, því meira sem menn hafa athugað hana og rætt hana. Af þeim ástæðum tel ég það vera rangt að athuga málið ekki, og þyrfti ekki einu sinni lagafyrirmæli til þess, að þeir menn, sem eru í mþn., teldu það skyldu sína að rannsaka einnig þessa möguleika. En úr því að þeir eru það skammsýnir að telja það ekki skyldu sína, þá ber hv. Alþ. að fyrirskipa þeim að láta þessa rannsókn fara fram.

Hv. frsm. sagði hér, að það væri ekkert við það að athuga, hvaða áhrif það hefði á þjóðarhaginn. Ég veit nú ekki, hvernig hægt væri að mótmæla því, að það væri ekkert við það að athuga að rannsaka það. Mér finnst einmitt alveg sjálfsagður hlutur að rannsaka það. En hann er þó kominn svo nálægt hugmyndinni, að hann viðurkennir nú, að það sé þó ekkert við það að athuga. En hvers vegna er þá verið að mótmæla því, að málið sé athugað, ef það er ekkert við það að athuga, að rannsakað sé, hvaða áhrif þetta hefur á þjóðarhaginn? Hvers vegna er þá hv. þm. að mótmæla því? Jú, hann sagði, að hann væri að mótmæla því vegna þess, að hann vissi ekki, hvernig ætti að fara að að rannsaka þessi mál, ég væri hér að spá í spil. Það voru hans orð um þetta mál. Ég skal þá hér í örfáum orðum gera grein fyrir því, hvernig ég hef hugsað mér, að þessi rannsókn mætti fara fram.

Það ber þá fyrst og fremst að rannsaka, —sem ég hef að vísu nokkuð rannsakað sjálfur, en það hefur verið mjög dregið í efa, hvort þær upplýsingar væru réttar, — hvað þessi skattur er mikill hluti af sköttum ríkissjóðs og hvað hann hefur verið það allmörg undanfarin ár. Ég hafði rannsakað þetta yfir 25 ára tímabil, og samkv. þeirri athugun hafði hann ekki verið að meðaltali meira en 10% af ríkistekjunum, og oft og tíðum ekki meira en 6%.

Annað, sem þarf að athuga, er það, hvað það kostar ríkissjóðinn mikið að leggja þennan skatt á og innheimta hann. Og það ber n. að sjálfsögðu að rannsaka. Ég hef haldið því fram í mínu nál. og mínum ræðum, að þetta kosti 8 millj. kr. og það færi síhækkandi. Hygg ég því, að það kosti meira en 8 millj. nú.

Þá er eitt enn, sem þarf að rannsaka í sambandi við þetta mál, þ.e., hvaða breyt. þarf að gera á launalögunum, þegar búið er að afnema tekjuskattinn, þar sem þeir menn, sem starfa hjá ríkinu, sitja með miklu hagkvæmari kjör þá, en þeir gera nú í dag, því að vitanlega kemur ekki til mála að láta launalögin standa óbreytt, eftir að skattalögin væru afnumin. Það er ýmislegt annað í sambandi við þetta, sem þarf að athuga, því að með því að afnema skattalögin kemur svo margt annað til greina, meðal annarra hluta það að lækka stórkostlega laun opinberra starfsmanna. Ég hygg, að það væri ómaksins vert og ekki einskis virði fyrir hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. að vita um, hvaða áhrif þetta hefði á launakerfi landsins, ef skattalögin væru afnumin.

Þá hef ég haldið því fram, og ég hygg, að það sé aðallega það, sem hv. þm. á við með því, að ég sé að spá í spil, — ég hef haldið því fram, að ef skattalögin væru afnumin, þá kæmi það miklu meira líf í öll viðskipti í landinu, að með óbreyttum söluskatti hlytu að koma mjög miklu meiri tekjur inn í ríkissjóðinn, en nú. Ég skal viðurkenna það, sem hv. þm. segir, að það geti ekki verið annað, en spádómur. En það eru spádómar, sem byggðir eru á þeirri reynslu í lífinu, að því hærri tekju- og eignarskattar sem eru hjá þjóðinni, því meira dragast saman viðskipti hinna einstöku manna. Og ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á, að þau fyrirtæki í landinu, sem ekki eru háð hinum þungu skattaákvæðum, eins og Eimskipafélagið, geta ein staðizt þá erfiðleika, sem á hverjum tíma koma yfir þjóðina. Eimskipafélagið hefur getað á þessum árum safnað fé og mætt alls konar erfiðleikum, vegna þess að það hefur fengið leyfi til þess að safna sjóðum og þeir hafa ekki verið teknir til eyðslu fyrir ríkissjóð. Nákvæmlega sama má segja um S.Í.S. og kaupfélögin, því þó að þau hafi ekki verið skattfrjáls, þá hafa þau búið við allt aðra og miklu mildari skattalöggjöf, og fyrir það hefur þeim tekizt að safna sjóðum, sem eru þeirra varaforði til þess að mæta erfiðleikunum. Fyrir önnur fyrirtæki, sem hafa orðið að búa við skattalögin, þar sem þau hafa orðið að láta af hendi svo að segja allar sínar tekjur til ríkissjóðsins, þegar vel hefur gengið, en orðið að standa undir áföllunum, þegar illa hefur gengið, þá hefur það leitt til þess, að þau hafa orðið að hætta rekstrinum, hrópa síðan á ríkissjóð og bæjarsjóðina til þess að aðstoða síg við áframhaldandi rekstur, sbr. útveginn nú, þar sem togararnir koma í hópum og krefjast hvorki meira né minna en frá 500 þús. og upp í 3 millj. kr. aðstoðar árlega frá ríkissjóði til þess að geta haldið áfram sinni starfrækslu. Þetta er svo stórkostlegt umhugsunarefni, að menn, sem bæði eru á Alþ., í hv. fjhn. og í mþn. í sambandi við endurskoðun skattalaganna, ættu að finna hjá sér hvöt til þess að athuga, hvort meinið í öllu þessu stafi ekki einmitt frá skattal., eins og ég hef margsinnis tekið fram hér. Það eru engin rök á móti því að segja, að ég aðeins spái hér í spil í þessu máli.

Ég vil einnig í sambandi við þessi ummæli hv. þm. benda á, hvað mikið er spáð hér í spil í sambandi við fjármál á þessu þingi eða á þingum yfirleitt. Hvað var það mikill spilaspádómur, þegar fjárl. voru afgreidd fyrir árið 1950 og gáfu um 109 millj. kr. meiri tekjur, en áætlað var? Og hvað er það mikill spilaspádómur, þegar á hverju þingi eru afgreidd hér fjárl. með þeim árangri, að tveimur árum seinna koma ríkisreikningar, og þá er beðið um fjáraukal. fyrir 30, 40, 50, 60 upp í 200 millj., eins og hefur verið á sumum árunum? Ég verð að segja það, að sumt af því hygg ég að sé meiri spilaspádómur heldur en það að athuga, hvaða áhrif það mundi hafa á reksturinn í landinu, ef skattalögin væru afnumin. Og ég er alveg viss um það, að minn spádómur í sambandi við auknar tekjur ríkissjóðs að óbreyttum öðrum l., þ.e.a.s. öðrum skattal. og tollal., væri nær sannleikanum, um það, að ríkissjóður fengi þessar upphæðir allar eða meira inn, heldur en sá spádómur, sem bæði þessi hv. þm. og aðrir hv. þm. hér gera á hverjum tíma í sambandi við afgreiðslu fjárl., svo að af þeim ástæðum einum ætti ekki hv. þm. að veigra sér við að fylgja till. og reyna að athuga þessi mál.

Þá sagði hv. þm., að þessi till. væri ekki laus við viljayfirlýsingu og því mætti ekki samþ. hana eins og hún væri. Það er einmitt vegna þess, að hún er viljayfirlýsing, að það á að samþ. hana, og hv. þm. hefur ekkert leyfi til þess að halda því fram, að það eigi ekki að samþ. till. vegna þess, að hún sé viljayfirlýsing, nema því aðeins að hann sé fyrir fram alveg ákveðinn í því að vilja ekki samþ. að fara inn á þessa braut, þó að rannsókn sýndi, að það væri þjóðinni til hagsbóta, og því vil ég ekki trúa á hann. Till. er einmitt viljayfirlýsing, sterk viljayfirlýsing um það, að það sé athugað, hvort ekki liggi þarna meinið í okkar fjárhags- og atvinnumálum, og ef það liggur þar, þá á að laga það. Ef það liggur ekki þar, þá er það upplýst og þarf ekki að ræða um það þing eftir þing, heldur verður maður þá að beygja sig fyrir þeim rökum, sem fram hafa komið, en hitt eru engin rök, að slá hnefanum í borðið og segja: Þetta eru fjarstæður, og þetta má ekki rannsaka, af því að því fylgir viljayfirlýsing, og ef það er rangt, ef það er til böls fyrir þjóðina, þá má samt sem áður ekki afnema það. — Öðruvísi verður ekki yfirlýsing frá hv. frsm. skoðuð í sambandi við þetta mál.

Minar till. á þskj. 453 eru tvær, eins og hv. frsm. lýsti. Önnur er sú, að það sé falið mþn. að rannsaka þessi mál. Ég tel, að ég hafi, ekki einungis nú, heldur margsinnis áður, fært fyrir því fullkomin rök, að það sé ekki einasta ósanngirni, heldur sé það beinlínis rangt að láta ekki þessa rannsókn fara fram. Og ég hef einmitt sett þessa till. sérstaklega, undir sérstökum lið, vegna þess að það er ekkert annað, sem hún fjallar um, heldur en þetta, að rannsóknin skuli fara fram og hún skuli fara fram í sambandi við þá rannsókn, sem nú er látin fara fram út af heildarlöggjöf um skattamál. Og að sjálfsögðu, ef niðurstöðurnar benda til þess, að það sé rétt að afnema l., hvað ætti þá að fylgja annað, en að tekið sé tillit til þess í till. um heildarlöggjöf um skattamál? Mig undrar því mjög á því, hvernig hv. frsm. einmitt gat um það, að það mætti ekki undir neinum kringumstæðum samþ. till., af því að þetta væri innifalið í henni. En það er einmitt þetta, sem þarf að fylgja till., því að annars væri athugunin á málinu einskis virði. Eða hvað mundi hv. frsm. hafa sagt, ef í staðinn fyrir það stæði í till., að þó að rannsókn leiddi í ljós, að þetta væri eina rétta leiðin, þá mætti ómögulega taka tillit til þess í till.? Hyggur hv. frsm., að það væri eðlilegra, skynsamlegra og betra fyrir þjóðina?

Hin till. er um það, að ríkisstj. skuli hraða svo endurskoðun skattalaganna, að till. um heildarlöggjöf liggi fyrir, þegar næsta Alþ. kemur saman. Hv. þm. sagði, að þessa þyrfti ekki með, vegna þess að þetta væri í endurskoðun og það væri komið svo langt nú, að það stæðu vonir til þess, að hægt væri að ljúka þessu innan skamms, ef hægt væri að komast að nokkurri niðurstöðu um það, hvernig ætti að ákveða um tekjur fyrir sveitarfélögin, en það væri nú svo erfitt mál, að þess vegna væri þetta ekki búið, eða það tefði svo mikið fyrir. Ég vil nú í sambandi við þetta leyfa mér að benda hv. þm. á, að það var, eins og ég sagði áðan,lögð á það ákaflega mikil áherzla á síðasta þingi, að skattal. yrðu endurskoðuð, og það voru færð fyrir því svo ótal rök, að það var ómögulegt að standa lengur á móti þessu máli. Og þótt það ekki væri tekið fram í þáltill., þá var það ætlun þm., að þessari endurskoðun væri lokið, áður en þing kæmi saman nú, og ég fullyrði, að þessari endurskoðun gat verið lokið, ef hv. formaður n. og meiri hl. n. hefðu viljað ljúka málinu fyrir samkomudag reglulegs Alþingis. Það þurfti að sjálfsögðu að leggja töluvert mikla vinnu í það, en það var líka nægilega mikill tími til þess að leggja vinnu í það á milli þinga. En það er einmitt það, sem var, að hv. form. n. og hæstv. ráðh. vildu ekki láta þessi mál koma fyrir þetta þing. Það er sannleikurinn í málinu. Þeir höfðu ekki vilja á því samkomulagi, sem þurfti, til þess að væri hægt að framkvæma málið. Annars hefði það verið gert. Og ég veit ekkert um, hvernig sá vilji er hjá hæstv. fjmrh. í dag. Það getur verið; að hann noti nákvæmlega sömu aðferðirnar til þess að draga endurskoðunina og segi síðan: Ja, það þarf að athuga þetta, það er ekki samkomulag um þetta, og það er ekki samkomulag um hitt, — og þannig verði hægt að draga málið ár eftir ár. En það er lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina og fyrir atvinnuvegi landsmanna og fyrir hvern og einn einasta mann í þessu landi, að endurbætur séu gerðar á skattalöggjöfinni. Það sést líka hér. Á hverju einasta þingi eru settar út margvíslegar till. til þess að reyna að fá lagað það, sem mest rekur á eftir, og nú er talað um að vísa þessum till. frá hér í þessari hv. deild, beinlínis vegna þess, að lögin séu undir endurskoðun. Ég veit, að hæstv. forseti, sem er formaður fjhn., hefur talað um það að afgreiða þannig skattamálatill. í nefndinni, vegna þess að önnur hv. þingnefnd hafi gengið þar á undan með góðu eftirdæmi, að afgreiða annað mál, með tilvísun til þess, að það væri einnig í endurskoðun í n. og þess vegna sjálfsagt að bíða eftir endurskoðuninni. Ef slíkur háttur á að vera á, þá er hægt að halda endurskoðuninni áfram annars vegar árum saman og hins vegar árum saman, þing eftir þing, að vísa hverri endurbótatill. frá með tilvísun til þess, að ekki sé búið að ljúka endurskoðuninni, og sjá menn, hvaða vit er í slíkum vinnubrögðum.

Hv. frsm. gat um það hér áðan, að það, sem mest tefði fyrir að ljúka þessari endurskoðun, væri, hvernig ætti að skipta tekjunum milli sveitarfélaga og ríkisins. En er þar ekki verið að spá eitthvað í spil? Ætli sé ekki meira verið að spá þar í spil, heldur en um það, hvað mikið ríkissjóður fær aftur af þeim skatti, sem hann tapar við tekju- og eignarskattinn, í tollum og söluskatti. Ég hygg, að það sé miklu meiri spilaspádómur þar á ferðinni heldur en um það, hvað ríkissjóður tapar miklu fé, ef lögin verða afnumin.

Ég tel, að það sé misskilningur hjá hv. frsm., að það sé alveg óþarfi að ákveða með l., að flýta skuli skattalöggjöfinni. Það er knýjandi nauðsyn, eins og sést bezt af öllum þeim till., sem fram hafa komið hér á hverju þingi. Það er svo knýjandi nauðsyn, að ef ekki er hægt að knýja það fram öðruvísi, en með lagafyrirmælum, þá á að gera það. Og það virðist vera full ástæða til þess í dag að setja um það lög, til þess að mþn. viti, að henni ber að ljúka þessu máli fyrir ákveðinn dag, og hæstv. ráðh. viti, að það er ekki hægt að draga það lengur, en þau lög koma til með að mæla fyrir um. Ég vil því mjög mælast til þess, að mínar till. séu samþykktar, og því miður treysti ég mér ekki til þess að fylgja frv., ef þær verða felldar. Það er á valdi ráðh. að láta framkvæma þessi mál þannig, og vilji hann fá þann skatt, sem hér um ræðir, í ríkistekjur, sem hann sjálfsagt þarf mjög á að halda, þá á hann a.m.k. að vinna það fyrir að taka á sig þá kvöð að verða að láta rannsaka málin annars vegar og verða að láta ljúka rannsókninni á eðlilegum tíma hins vegar.