18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú lýst því yfir, að hann muni beina því til mþn., sem er nú að endurskoða skattalögin, að láta rannsókn þá fara fram, sem um er getið í minni till á þskj. 453, tölul. a. Og hann hefur einnig lýst því yfir, að hann muni fyrirskipa, að n. hraði svo mikið störfum, að þeim árangri verði náð, sem til er ætlazt að ná með till. minni undir b-lið. Með því að ég ber fullt traust til hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál eins og önnur í hans störfum, þá get ég fallizt á að taka aftur mínar till., eftir að slík yfirlýsing hefur komið hér fram. Ég tek því þessar till. á þskj. 453 aftur, með tilvísun til þess, sem ég þegar hef sagt hér.

Ég skal þó aðeins segja hér nokkur orð út af ræðu hv. þm. S-Þ. Hann taldi, að till. væri ekki skaðleg, en hún mundi tefja fyrir endurskoðuninni. Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvað mikil vinna er lögð í endurskoðunina og með hvaða hugarfari endurskoðunin er gerð, hvort hún þarf að tefja fyrir störfum n. Ef engin hugarfarsbreyt. er hjá hv. þm. S-Þ. frá því, sem kom fram í ræðu hans hér í sambandi við þetta mál, þá getur hann sjálfsagt gert sér það að rannsóknarefni í mörg ár að rannsaka það, sem till. fer fram á. Og hann mun þá kannske, jafnvei þótt hann fái fyrirskipun frá hæstv. ráðh., notfæra sér það að þvælast svo fyrir þessu máli á einn eða annan hátt, að það sé ekki hægt að fá neina niðurstöðu,en þannig hagaði hann nú sínum orðum í sambandi við rannsókn á þessu atriði. Hann sagði enn fremur, að hér væru svo miklir spádómar, að reynslan ein gæti skorið úr því, hvað væri rétt og hvað væri rangt. Ég hygg, að ég sé ekki einn um þá skoðun, að það sé svo mikils virði að fá skorið úr þessu, að það væri síður en svo nokkur goðgá að afnema skattalögin einhvern tíma, til þess að fá þá alveg skorið úr því með reynslunni, hvernig þetta mundi verka. Það eru áreiðanlega fleiri og fleiri menn, sem eru að komast inn á þá skoðun, að skattalöggjöfin, eins og hún er og eins og hún hefur verið í mörg ár, sé slíkt böl í atvinnulífinu, að það sé engin vanþörf á því að gera hér á miklar breyt. Og það eru fleiri og fleiri menn að komast á þá skoðun, að þetta séu langhyggilegustu breyt., en það er að afnema skattalögin. Hins vegar er hér flokkur í þinginu, sem þvælist fyrir því, af því að hann vill m.a. ekki búa við sönnu lög í skattamálum eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Hann vill láta ákveðinn félagsskap, sem hann hefur notað stórkostlega pólitískt hér um tugi ára, samvinnufélögin og kaupfélögin, búa við slík skattfríðindi samanborið við aðra menn eða önnur fyrirtæki, að það má jafna því við þann rétt, sem kaþólska kirkjan hélt í á sínum árum fyrir sig, þegar var verið að taka undan henni eignirnar. Ég býst því ekki við, að það fáist mikil samúð frá þeim mönnum, sem Framsfl. hefur skipað í n. En þess er þá að vænta, að hinir sinni betur þeim verkefnum, sem hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, að hann muni leggja fyrir n. í sambandi við þessi mál. — Hann sagði, að Eimskip hefði orðið skattfrelsið í hag, af því að aðrir hefðu greitt skattinn fyrir félagið. Það kemur nú víða fram fjandskapur Framsfl. gegn Eimskipafélaginu. En ég hélt, að hann kæmi þó ekki fram svona opinberlega eins og hann kom hér fram hjá hv. frsm., að það væru aðrir menn, sem væru að greiða skatt í þjóðfélaginu fyrir Eimskipafélagið, því að sannleikurinn er sá, að ríkið hefur þénað milljónir á skattgreiðslu, sem þeir menn hafa greitt til ríkisins, sem hafa haft lífsframfæri hjá Eimskipafélaginu, vegna þess að hægt var að byggja upp þá starfsemi eins og gert hefur verið, og aldrei hefðu haft þær tekjur, ef Eimskipafélagið hefði ekki lifað og verið látið byggja skip eins og gert var. (Forseti: Kemur ekki sá fjandskapur fram á þskj. 477?) Nei, hann kemur ekki þar fram, en hann sýður undir niðri einnig við afgreiðslu þessa máls. (Forseti: Veit þm., hver er 1. flm. að skattfrelsi Eimskipafélagsins?) Ja, það er öllum kunnugt um það, hvernig andúð Framsfl. hefur verið gegn Eimskipafélaginu, og ég get minnt hæstv. forseta á það, að þegar um þessi mál var rætt hér síðast, fyrir tveimur árum, þá varð að taka tvo hv. framsóknarþm. út til þess að bjarga málinu hér í gegnum þessa d., — ná þeim út úr d., svo að málið ekki félli hér. (Gripið fram í.) Það var hæstv. forsrh., sem gerði það, bara til þess að bjarga málinu. Það er öllum kunnugt. Og hæstv. dómsmrh. er eins vel kunnugt um það eins og mér. (Gripið fram í: Hverjir voru mennirnir?) Það var hv. 8. þm. Reykv. og hv. 1. þm. N-M., sem báðir voru búnir að lýsa því yfir, og ef hæstv. forseti efast um þetta, þá vildi ég bara biðja hann um að fletta upp í bókum d. frá þeim tíma til þess að vita, hvort þessir hv. þm. voru á þessum fundi, þegar málið var afgreitt. Það var vitað, að málið var fallið hér, ef þeir hefðu verið hér inni, og það féllu fleiri menn frá orðinu, hér til þess að koma atkvgr. í gegn á meðan hæstv. forsrh. var að tala við þessa ágætu menn fyrir utan þingsalinn þá. Þetta var nú samúðin með Eimskipafélaginn þá. Og það hefur svo sem ekkert breytzt síðan.

Þá sagði hv. frsm., að hagur Sambandsins og kaupfélaganna væri ekki vegna þess, að það væri skattaívilnun, heldur hversu vel þeim væri stjórnað. (Gripið fram í: Og gott skipulagið.) Já, og gott skipulagið á því. En veit þá ekki hv. þm. það, að það eina, sem hefur bjargað samvinnufélögunum yfir alla örðugleikana, eru fríðindi bæði í skattamálum og verzlunarmálum? Og ef hann ekki veit það, þá held ég, að hann ætti að fara að reyna að kynna sér þau mál alveg alvarlega. Ef þau hefðu átt að vera á samkeppnisgrundvelli við önnur verzlunarfyrirtæki í landinu og ekki hafa þessi fríðindi, þá væru þau fyrir löngu steindauð. En það er einmitt vegna þess, að þau hafa haft þessi fríðindi, að þau hafa blómgazt eins og þau hafa gert. Og það er ein stórsönnunin fyrir því, að það á að afnema skattalögin, eins og ég hef lagt til.

Þá mótmælir hv. frsm. því, að það hafi verið hægt að ljúka endurskoðun á skattalöggjöfinni. Ég segi, að ef í n. hefðu verið skipaðir þeir menn, sem eingöngu áttu að inna þetta starf af hendi, og það var nauðsynlegt að setja þá menn í n., sem höfðu tíma til þess að sinna því, vegna þess, hversu það var aðkallandi að laga hina ranglátu skattalöggjöf, þá var það ekkert ofverk að ljúka þessu verki á heilu ári, síður en svo. En ef hins vegar mennirnir hafa verið við allt annað starf á tímanum, þá er það ekki því að kenna, að það hefði ekki verið hægt að ljúka störfunum, heldur því að kenna, hvernig hefur verið skipað í n. Hins vegar er mér vel kunnugt um það, að það, sem hefur tafið afgreiðslu n., eru ekki rannsóknirnar á málunum, heldur niðurstöðurnar um það, hvað eigi að leggja til. Mér er vel kunnugt um það, að form. n., — og skal vísa þar í það, sem hann hefur sagt í sambandi við umr. á stúdentafundinum, — vill leggja til, og það er hans skoðun, að það eigi að afnema lögin um stríðsgróðaskatt og skattaviðaukann, og það er vegna þess, að þá er létt á samvinnufélögunum. Það á hins vegar að halda áfram þeim ákvæðum í skattalöggjöfinni, þar sem samvinnufélögin takmarkast við 8%, en hinir hafa allt aðra og hærri viðmiðun. Þetta er hans skoðun. Hann hefur marglýst því yfir. Og alveg skýrt og skorinort lýsti hann því yfir á stúdentafundinum. Hann hélt því þá einnig fram, að það væri nauðsynlegt að hækka nokkuð persónufrádráttinn, en það mætti ekki undir neinum kringumstæðum samt sem áður skipa hinni nýju skattalöggjöf þannig, að ríkissjóður tapaði nokkru sinni nokkru í tekjum við hin nýju lög. En þá var ekki hægt að komast fram hjá því, að það átti að leggja enn þá hærri og þyngri skatt á hina, sem ekki fengju nein fríðindi. Þeir urðu þá að taka á sig byrðina. Þegar búið var að létta stórkostlega þessum milljónum af samvinnufélögunum, sem hv. þm. var að kveina hér undan áðan, þá varð að leggja þær milljónir á einhverja aðra skattþegna þjóðfélagsins, til þess að bera það, ef átti að viðhalda skattalögunum. Það er þetta, sem ekki hefur fengizt samkomulag um enn. Og það er þetta, sem Framsfl. veit ekki enn þá, hvernig hann á að fara með, því að hann sér ekki nokkra leið út úr því að hækka stiga fyrir aðra aðila yfir 90%, eins og nú er gert í gildandi skattalögum, því að hann veit, að það þýðir ekki neitt. Og ég held, að þegar hann er í svona miklum vandræðum með þetta mál og fulltrúar hans í n., þá ættu þeir nú einmitt að fara að hugsa um það, hvort það sé ekki rétt að fara inn á mína till. og afnema skattalögin. Það er alveg bersýnilegt, að það er gersamlega ómögulegt að uppfylla þær óskir og kröfur, sem hér hafa komið fram frá ýmsum mönnum í þinginu í sambandi við breyt. á skattalöggjöfinni, nema því aðeins að ríkissjóður eigi að tapa mjög miklu í tekjum. Það á að hækka persónufrádráttinn stórkostlega. Það á að lækka skattstigann á lágtekjumönnum. Það á að gefa kaupfélögum og Sambandinu miklu meiri skattafríðindi heldur en nú eru. Þetta er stefnan. Og síðan á að halda öllu kerfinu við í sambandi við kostnað og álögur. Og hvað er þá eftir? Ekkert nema til þess að standa undir kostnaðinum. Svona horfir málið við, og þess vegna hefur n. ekki getað skilað áliti, því að hún kemst ekki út úr þessu völundarhúsi. Eina ljósið, sem hún gæti tekið sér í hendur til þess að komast út úr þessum flækjum öllum, er einmitt till. mín um það að fella niður skattalögin alveg.

Nú hefur hv. frsm. lýst því yfir, að n. muni ekki treysta sér til þess að sitja svo lengi yfir þessu máli, að það verði ekki búið að skila því fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþ., og þegar hann annars vegar hefur lýst því yfir og hins vegar hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir, að hann muni fyrirskipa það, að n. skili tillögum áður en reglulegt Alþ. kemur saman næst, þá, eins og ég sagði áðan, sé ég ekki ástæðu til þess að láta ganga atkv. um mínar till. og treysti því annars vegar, að ráðh. haldi þau loforð, og treysti því hins vegar, að það verði farið að volgna svo undan sætunum hjá n., að það sé ekki þess vegna mögulegt fyrir hana að sitja lengur á þessu máli, því að það eru þúsundir manna í þessu landi, sem heimta, að það séu einhverjar endurbætur gerðar á skattalögunum eins og nú er komið, þar sem vitað er, að það er útilokað að reka nokkurt atvinnulíf hér í þessu landi undir lagaákvæðunum eins og þau eru nú.