13.10.1952
Efri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

61. mál, manntal 16, okt. 1952

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því að koma svona seint, en hafði nú lögmæt forföll, en hugmyndin var að segja aðeins örfá orð, um leið og þetta frv. er hér lagt fram.

Þetta frv. er, eins og þingskjalið ber með sér, til staðfestingar á brbl., sem voru gefin út 10. sept. s.l., og þar sem það þykir nú alltaf heldur óviðkunnanlegt að gefa brbl. út fáum dögum áður en Alþingi kemur saman, þá er rétt að endurtaka — þó að það sé að mestu leyti endurtekning — það, sem sagt er hér í forsendunum fyrir því, að þetta var gert. En það er verið að fá hér miklar vélar til þess að taka upp spjaldskrá yfir alla landsmenn, og að þessu fyrirtæki, sem er alldýrt, standa ýmsar stofnanir, bæði beinar ríkisstofnanir og sömuleiðis Reykjavíkurbær, því að þetta getur komið að miklu gagni við störf þeirra, sem hér er um að ræða. En til þess að væri hægt að fara að vinna að þessu nú — vélarnar eru að koma —, þá var talið nauðsynlegt af hagstofustjóra og öðrum fróðum mönnum í þeim efnum, að sérstakt manntal færi nú fram, — ekki væri látið nægja hið árlega manntal, sem miðað er við áramót og prestarnir annast úti um sveitir, heldur yrði látið fara fram alveg sérstakt manntal sama dag um land allt. Það var talið heppilegast af öllum ástæðum, að það manntal færi fram 16. okt. Og til þess að koma þessu á þennan hátt fyrir, voru þessi brbl. sett. Það skal tekið fram, að hér er aðeins um að ræða þessa breytingu á manntalinu í þetta eina skipti, þannig að það er ekki um neina skipulagsbreytingu á því að ræða með þessum l., nema aðeins nú, til þess að full trygging sé fyrir því, eftir því sem unnt er, að allir landsmenn verði þá skráðir með réttum heimilum og öðrum þeim upplýsingum, sem því fylgja. Ég vænti þess, að hið háa Alþingi geti á það fallizt, að það hafi eftir atvikum verið rétt að fara þessa leið, setja brbl. um þetta, til þess að hægt væri að hefjast handa um að koma þessu í framkvæmd. — Að öðru leyti sé ég nú ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. að svo stöddu, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umr.