02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er um framlengingu á gildi 3. kafla laga nr. 100 frá 1948, sem hefur að geyma ákvæði um söluskatt.

Eins og segir í athugasemdum við lagafrv., þá er þarna um að ræða framlengingu á ákvæðum um tekjuöflun, sem hafa verið í gildi síðustu árin og jafnan hafa verið framlengd fyrir eitt ár í senn. Hv. þdm. er um það kunnugt, að í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir þessum tekjum á næsta ári, og þarf því að afgr. þetta frv. nú á þinginu. Meiri hl. fjhn. hefur skilað um það áliti á þskj. 302 og mælir með því við deildina, að frv. verði samþ. óbreytt. Fram hafa komið hér brtt. á þskj. 325 frá hv. 2. þm. Reykv., en meiri hl. n. leggur gegn því, að þær breyt. verði gerðar á frv., sem þar eru till. um.