02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Minnihlutanál. mitt liggur ekki enn þá prentað fyrir, en ég hef engu að síður ekkert á móti því, þó að málið sé þegar tekið til umr.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er þetta mál framlenging á söluskattinum, og 1. gr. þess byrjar með því að segja, að ákvæðin um tekjuöflun, sem sett eru í 3. kafla laga nr. 100 1948, skuli gilda áfram til ársloka 1953. Það er fróðlegt að rifja upp, ekki sízt á þessari stundu, hvernig þessi l. eru til komin og hvað það er, sem mælt er fyrir um í þessari fyrstu lagagrein, að enn þá eigi að hafa lagagildi af þessum gömlu lögum. Lögin eru sjálf fallin úr gildi, nema það, sem snertir ákveðin tekjuöflunarákvæði í 3. kafla laganna. 1. kafli þessara laga, þegar hann var settur 1948, var um ríkisábyrgð á útflutningsvöru og hljóðaði um, hvernig tryggja skyldi bátaútveginn á Íslandi með því, að ríkið borgaði eða tryggði, að borguð yrði ákveðin upphæð út á hvert kg af fiski. 2. kafli hljóðaði um aðstoð til útvegsmanna, sem síldveiðar stunduðu á tímabilinu 1945–1948, og 3. kaflinn, þessi kafli, sem nú er framlengdur að nokkru leyti, það er að segja nokkrir bókstafir og nokkur orð í lagagreinunum, en ekki lagagreinarnar heilar, heitir „um dýrtíðarsjóð“. Og 1. gr. hans, sem er á vissan hátt framlengd, hljóðaði svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“

Þetta er sem sé 1. gr. í þessum 3. kafla, og þessi 3. kafli er nú framlengdur, þ.e.a.s. öll ákvæðin í honum, sem hljóða um það, að álögur skuli leggja á fólkið í landinu, en engin af þeim ákvæðum, sem samsvara hinum upprunalega tilgangi þessa 3. kafla eða hans heiti, sem sé því að mynda dýrtíðarsjóð til þess að vinna á móti dýrtíðinni og til þess að standa undir fiskábyrgðinni. M.ö.o., þegar þessi söluskattur var settur á í upphafi, þá var því lofað, að hann skyldi vera til þess að tryggja örugga afkomu útvegsins og þar með örugga afkomu sjómanna og örugga atvinnu landsmanna. Mönnum var sagt, að það væri nú alveg óhætt að ganga inn á það að fara að greiða þessar miklu fjárhæðir, sem þarna voru í, vegna þess, hvað tilgangurinn væri góður. Svo líður ekki nema á annað ár. Þá er búið að gleyma öllum þeim fagra tilgangi, sem var með því að leggja söluskattinn á, og þá er fiskábyrgðin afnumin. Og það líður ekki nema skammur tími, þar til hæstv. ríkisstj. kemur fram með ný úrræði, sem eiga nú alveg hreint að bjarga og koma í staðinn fyrir fiskábyrgðina og losa landsmenn að meira eða minna leyti við þær þungu álögur, sem fylgdu söluskattinum. Og það úrræði var gengislækkunin. M.ö.o., fiskábyrgðinni; sem í hæsta lagi kostaði á ári nokkra milljónatugi, kannske tvær, þrjár milljónir eða þar í kring, henni er kippt burt. Síðan eru lagðar á almenning álögurnar áfram hvað söluskattinn snertir, og svo er bætt ofan á gengislækkuninni.

Hvað er gert með gengislækkuninni? Með gengislækkuninni er nú búið að rýra kaupgetu verkamanna á Íslandi, þannig að rýrnun kaupgetunnar og atvinnuleysið, sem hefur verið skipulagt af ríkisstj. samfara rýrnun kaupgetunnar, gerir það nú að verkum, að verkamannafjölskylda á Íslandi hefur ekki nema um helming þeirra tekna, raunverulegra, til þess að lifa af, sem hún hafði 1947. Með stjórnarráðstöfunum er búið að rýra þannig afkomu íslenzkra verkamanna, að í staðinn fyrir að þeir komust mjög vel af fyrir fimm árum, þá býr nú fjöldi íslenzkra verkamannafjölskyldna við þannig kjör, að það er ekki lengur hægt að una við það. Og gengislækkunin, sem ríkisstj. lofaði að ætti að koma í staðinn fyrir þessa þungbæru fiskábyrgð og þennan þunga söluskatt, hefur verið eitt aðalatriðið í því að rýra þannig lífskjörin.

Svo leið eitt ár frá því, að gengislækkuninni var skellt yfir, gengislækkuninni, sem átti að vera allra meina bót. Þá kemur hæstv. ríkisstj. og segir: Ja, söluskatturinn og fiskábyrgðin, það fór nú svona með það. Gengislækkunin hefur nú heldur ekki reynzt nóg. Og nú komum við með nýjar álögur, bátagjaldeyrinn. — Þá þorði hæstv. ríkisstj. ekki lengur að koma fram fyrir Alþingi og reyna að setja þessar nýju álögur í einhvern lagabálk. Þá greip hæstv. ríkisstj. til þess ráðs að setja utan við þing með sérstakri auglýsingu álögur á almenning, sem hafa enga stoð í lögum, bátagjaldeyrinn. Og þannig er nú búið að innheimta af almenningi á hálfu öðru ári, síðan bátagjaldeyririnn var settur á, yfir eitt hundrað millj. kr., án þess að nokkur heimild sé til þess í lögum. M.ö.o., fyrst er söluskattinum skellt á og sagt, að hann eigi að standa undir fiskábyrgðinni og tryggja útveginn og tryggja atvinnu í landinu. Svo er fiskábyrgðin tekin burt, en söluskatturinn látinn haldast og gengislækkuninni skellt á, að því er hæstv. ríkisstj. segir til þess að tryggja útveginn í landinu og til þess að gera það öruggt, að atvinnulífið haldist í fullum blóma. Hálfu öðru ári eða raunverulega ekki nema rúmu ári eftir að gengislækkuninni er skellt á kemur ríkisstj. enn og þorir nú ekki að koma fram fyrir Alþ. og skellir bátagjaldeyrinum á og tekur með honum á ólöglegan hátt af almenningi um 600 millj. kr. á einu ári, eða er búin að taka nú, það af öðru ári, sem þessi bátaútvegsgjaldeyrir hefur verið innheimtur, yfir 100 millj. kr. af almenningi og hefur innheimt það á svo dýran hátt, að dýrari innheimta hefur aldrei þekkzt á Íslandi, vegna þess að mennirnir, sem taka að sér að innheimta þetta, fá að leggja á fyrir innheimtulaunum eins og þeim þóknast, þannig að sjómenn og smáútvegsmenn hafa ekki fengið nema lítinn part af öllu því, sem almenningur hefur orðið að greiða í bátaútvegsgjaldeyri og ríkisstj. hefur pínt menn án nokkurrar lagaheimildar til þess að láta af hendi. Og svo eftir þetta allt saman, eftir afnám fiskábyrgðarinnar, eftir að hafa skellt gengislækkuninni á, eftir að hafa komið hinum ólöglega bátagjaldeyri á, þá kemur nú ríkisstj. og segir: Söluskattinn verð ég að fá að framlengja. — Söluskatturinn er tæpar 80 millj. kr., eftir því sem gizkað er á í fjárl., eða um 80 millj. kr., — verður vafalaust meiri, ætli hann fari ekki að nálgast hundrað milljónirnar? — og þetta gjald vill ríkisstj. láta haldast. Hún er búin að rýra kaupgetu almennings stórkostlega, þannig að hver einasta verkamannafjölskylda í landinu á miklu erfiðara með að standa undir þessum gjöldum, heldur en áður, atvinnan hefur minnkað, raungildi peninganna hefur minnkað, en álögur ríkisstj. hafa vaxið. Og henni hefur ekki nægt að leggja á þær álögur, sem hún kúskar í gegn með lögum hér á Alþ., heldur bætir hún þar á ofan þeim álögum, sem hún knýr fram ólöglega.

Í fjhn. var rætt nokkuð um þennan söluskatt, því að það var vitanlegt, að það hafa komið fram ákaflega margar kröfur og ákaflega víða að um endurskoðun, breytingu eða afnám á þessum l. Þær komu líka fram í fyrra. Engum af þessum kröfum hefur fengizt sinnt, ekki einu sinni svo smávægilegum kröfum eins og þeim, að þessum l. væri þó að minnsta kosti komið í sæmilegt lagalegt form, þannig að þau væru ekki annað eins hrákasmíði og þau eru núna, eins og hæstv. ríkisstj. leggur það fyrir þingið.

Framlenging á ákvæðunum um tekjuöflun þýðir m.ö.o., að úr einstökum greinum laganna eiga að gilda ákveðin orð, sem merkja það, að það eigi að leggja álögur á almenning. En ef það felst í einhverju af þessum orðum, að um leið eigi að nota þetta í einhverju ákveðnu skyni, þá á slíkt að falla niður. Þriðji kaflinn er allur framlengdur, en heiti sjálfs kaflans — hann heitir „Um dýrtíðarsjóð“ — og 1. gr. í honum, 19. gr. laganna, um dýrtíðarsjóð ríkisins, er ekki felld burt, hún er ekki heldur látin standa, hún er látin svífa í lausu lofti. Frágangurinn á þessari stærstu undirstöðu undir tekjuöflun ríkisins er þannig, að lagalega séð er hann ákaflega óviðfelldinn. Ég skil hins vegar, að ríkisstj. þykist náttúrlega ekki þurfa lengur að vera sérstaklega mikið að vanda Alþ. kveðjurnar. Hún er raunverulega búin að segja það, að henni sé nokkurn veginn sama, hvort hér á Alþ. séu samþ. einhverjar heimildir fyrir hana til þess að mega innheimta eitthvað af almenningi. Ef Alþ. samþykki ekki heimild fyrir slíku efni, þá innheimti hún það samt, eins og hún gerir með bátagjaldeyrinn. Ég held þess vegna, að það hefði verið það minnsta, sem hæstv. ríkisstj. gat gert, að ganga inn á að taka þessi lög um söluskattinn til endurskoðunar. Og ég held sérstaklega, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að gera það með tilliti til þess ástands, sem hæstv. ríkisstj. er sjálf búin að skapa í landinu.

Ríkisstj. er, eins og ég hef nú rakið í sambandi við þetta mál, búin að flýja frá einu óyndisúrræðinu til annars á hverju ári, sem hún hefur setið að völdum. Hún eyðilagði fiskábyrgðina, af því að fiskábyrgðin tryggði bátaútveginn og tryggði það, að sjómenn og smáútvegsmenn fengju allt, sem borgað var, en heildsalarnir tóku ekki sinn skatt af því. Hún kippti þannig grundvellinum undan því, að menn gætu öruggir farið að veiða fisk hér á Íslandi, vinna úr honum í hraðfrystihúsunum í þeirri öruggu vissu, að hann væri seldur. Þetta var ákveðinn þáttur í hennar fyrirætlunum um það að eyðileggja okkar markaðsmöguleika erlendis. Ríkisstj. vildi ekki standa uppi, þegar hún væri búin að eyðileggja markaðina fyrir hraðfrysta fiskinn, og vera ábyrg fyrir því að borga út ákveðið verð fyrir hraðfrystan fisk. Hún hefur allan þann tíma, sem hún hefur setið að völdum, stuðlað að því að hindra, að notaðir væru þeir markaðsmöguleikar, sem Ísland hefur haft fyrir hraðfrystan fisk, og horft alveg róleg upp á þessa sömu markaðsmöguleika, sem áður voru í Vestur-Evrópu, hrynja hvern á fætur öðrum. Hennar efnahagssamvinna við Vestur-Evrópulöndin hefur verið fólgin í því að láta smám saman útiloka Íslendinga frá þessum mörkuðum, sparka þeim þaðan út, þannig að, að lokum stæðum við, eins og Morgunblaðið sérstaklega lýsir, hér uppi með megnið af okkar fiski óselt og okkur bannað að landa í Englandi og Þýzkalandi. Ríkisstj. hefur þannig með allri sinni efnahagspólitík markvisst unnið að því að skapa atvinnuleysisástand og stöðvun í okkar útvegi. Og það var náttúrlega skiljanlegt, að ríkisstj., sem þannig vann, kærði sig ekki mikið um, að fiskábyrgð og trygging fyrir því, að útvegurinn væri rekinn, héldist áfram í lögum. Hún skellti gengislækkuninni á án þess að sinna nokkrum af þeim aðvörunum, sem þá komu fram, án þess að þora að setja inn í lögin það, sem hún sjálf hélt fram í sambandi víð gengislækkunina og rökstuddi hana með, að með gengislækkuninni yrði tryggt ákveðið verð fyrir fiskinn og öruggur markaður fyrir hann. Og hún skellti bátagjaldeyrinum á degi eftir að Alþ. var sent heim, án nokkurs lagagrundvallar, þannig að nú væri allt algerlega öruggt, þegar þessi gjaldeyrir væri kominn. Og nú, hálfu öðru ári eftir, tilkynnir hún sjálf í sínu aðalblaði, að meginið af freðfiskframleiðslunni sé óselt og að markaðirnir í Ameríku séu að hrynja. Þetta er árangurinn af hennar efnahagssamvinnu. Á sama tíma hefur hér þrjú þing legið fyrir frv. um að gefa Íslendingum frelsi til þess að mega sjálfir, án þess að vera ónáðaðir af ríkisstj. og án afskipta hennar, framleiða sinn fisk og selja hann út úr landinu og kaupa síðan nauðsynjavörur í staðinn. Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því, að frv., sem að slíku miðaði, væri drepið, og þverneitað á allan hátt að slaka nokkurn skapaðan hlut á þeim einokunarhöftum, sem hún er búin að fjötra alla útflutningsframleiðslu og þar með megnið af öllu atvinnulífi landsmanna í. Meðan ríkisstj. þannig hefur leitt hrun yfir atvinnuvegina og þjarmað meira og meira að verkalýðnum í landinu, þá hefur hún séð um, að það skapaðist stórgróði hjá einstökum aðilum á Íslandi, þannig að það hefur aldrei verið til meiri auðsöfnun á Íslandi, heldur en nú í höndum einstakra stofnana, sem klíkur ríkisstj. og stjórnarflokkarnir ráða yfir. Á sama tíma sem erfiðast hefur gengið fyrir almenningi, núna á síðasta ári, þá hefur gróði þeirra stofnana, sem safna auðnum í landinu, numið fleiri tugum millj. kr. Ég skal taka eitt lítið dæmi, vegna þess að reikningarnir liggja þar ljósast fyrir. Á síðasta ári græðir Landsbankinn samkv. hans reikningum 28 millj. kr. í hreinan gróða. Hvað Eimskipafélagið hefur grætt, hvað aðrir bankar hafa grætt, hvað heildsalarnir hafa grætt, það liggur ekki fyrir með tölum. Hvað olíuhringarnir hafa grætt á útveginum skiptir tugum millj. kr. Gróði, sem ekki er undir 100 millj. kr., safnast fyrir hjá einstökum stofnunum í landinu, sem stjórnarflokkarnir ráða yfir, á sama tíma sem atvinnuvegirnir eru meira eða minna látnir tapa eða stöðvaðir með aðgerðum ríkisstj. að meira eða minna leyti, eins og íslenzki iðnaðurinn.

Það fer fram gífurleg auðsöfnun í okkar þjóðfélagi. En þessi auðsöfnun er látin vera utan við hið eiginlega atvinnulíf, í fjármálaklíkum, sem stjórnarflokkarnir ráða, og þeim auð geta þeir ráðstafað eftir því, sem þeim þóknast. Þeir ráða lánsfjárstarfsemi bankanna, sem safna þessum auð saman. Þeir ráða starfsemi Eimskipafélags Íslands. Á sama tíma sem lögin um framlengingu söluskattsins liggja nú fyrir okkur í þessari hv. d., þá liggur nú á dagskránni í dag fyrir frv. um skattfrelsi Eimskipafélags Íslands. Eimskipafélag Íslands á að öllum líkindum, ef þess eignir eru metnar með fullu verði, um 150 millj. kr. í skuldlausum eignum. Landsbankinn á í sínum sjóðum yfir 150 millj. kr. Aðeins þessar tvær stofnanir eiga í skuldlausum eignum yfir 300 millj. kr. Það er nægilegur auður til á Íslandi. Verkamennirnir á Íslandi hafa skapað nógan auð. En þeir flokkar, sem hér fara með völd í þjóðfélaginu núna, gína yfir þessum auð, þeir nota þennan auð til þess að þrengja kosti almennings dag frá degi og hafa nú notað sitt einokunarvald yfir þjóðfélaginu til þess að stöðva atvinnulíf landsins.

Það er sök þessarar hæstv. ríkisstj. og þeirra flokka, sem hana styðja, hvernig nú er komið í þjóðfélaginu. Það er á hennar ábyrgð, þeirrar ríkisstj., sem með lögum er fyrirskipað að sjá um, að hver einasti maður hafi í fyrsta lagi næga og örugga vinnu, eins og stendur í lögunum um fjárhagsráð, og í öðru lagi réttlátar tekjur fyrir sína vinnu. Það er á ábyrgð þessarar ríkisstj., að sultur og seyra er orðið hlutskipti almennings frá þeirri tiltölulegu velmegun, sem almenningur bjó við fyrir 5 árum. Og þegar þessi hæstv. ríkisstj. núna heimtar framlengdar álögur upp á um 80 millj. kr. án þess að hafa svo mikið sem fengizt til þess að svara því hér á Alþ., hvort hún ætli að leita einhvers lagagrundvallar fyrir bátaútvegsgjaldeyrinum, sem hún er búin að innheimta yfir 100 millj. kr. af án þess að hafa nokkra heimild til, þá er það þó satt að segja von, að okkur stjórnarandstæðingum þyki skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Ég hef þess vegna í fjhn. tekið afstöðu á móti framlengingu söluskattsins eins og hann liggur nú fyrir. Þar fyrir er vitanlegt, að um söluskattinn mætti náttúrlega ræða á ýmsan hátt, ef einhver vilji kæmi fram um að breyta þar eitthvað verulega til, láta hann koma léttar niður á almenningi, undanskilja nauðsynjavörurnar, sem hann leggst að ýmsu leyti allþungt á, undanskilja vörurnar til atvinnurekstrarins. M.ö.o., ef það væri hægt að fá eitthvert samkomulag um það að gera söluskattinn fyrst og fremst að skatti á lúxusvörunum í landinu, þá væri náttúrlega hægt að tala um þessi mál. En núna er ástandið þannig, að nauðsynjavörur almennings eru skattlagðar með honum, og hefur almenningur samt það lítið til þess að kaupa fyrir, að það munar verulega um söluskattinn á þessar nauðsynjavörur. Hins vegar er rétt, að lúxusvörurnar, dýrustu vörurnar, sem koma í fínustu búðirnar í Reykjavík núna, renna út undireins, vegna þess að kaupgeta auðmannastéttarinnar hér í Reykjavík er meiri núna heldur en hún hefur verið nokkurn tíma áður. Og auðmannastéttin hefur meira úrval af vörum heldur en hún hefur haft fyrr. Ástandið er þannig, að verkalýðurinn hefur minni peninga til þess að kaupa sér nauðsynjarnar fyrir, en auðmannastéttin meira úrval af vörum til þess að velja úr, til þess að hafa þær sem dýrastar og finastar handa henni. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað þoka neinu um neitt, sem söluskattinn snertir. Hennar meiri hl. í fjhn. var fyrirskipað að leggja bara til að framlengia söluskattinn óbreyttan.

Ég hef við þessa umr. ekki gert margar brtt. Mín eigin till. er að fella þetta frv., sem ég hins vegar veit að verður samþ., en vil þó við þessa umr. freista að koma fram með brtt. við þetta frv., til þess að það fáist a.m.k. úr því skorið, hvort stjórnarmeirihl. sé til viðtals um nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Ég hef þess vegna leyft mér á þskj. 325 að bera fram tvær brtt. Sú fyrri er við 23. gr., a-liðinn, þar sem ákveðið er, hvaða vörur skuli vera undanþegnar söluskatti, að við þær vörur, sem þar eru upp taldar, bætist; „svo og allar íslenzkar iðnaðarvörur.“ Það mundi m.ö.o. þýða, að íslenzku iðnaðarvörurnar væru undanþegnar söluskatti, ef þessi brtt. mín yrði samþ. Það er vitanlegt, að það hefur verið einn liður í pólitík hæstv. ríkisstj., eins og greinilega hefur komið fram og er í samræmi við það, sem stóriðjuhringarnir erlendis, sem ráða hennar gerðum, hafa heimtað að framkvæmt væri með Marshallpólitíkinni, sem sé, að iðnaður smáu landanna og fátæku landanna væri drepinn niður, til þess að stóriðja ríku landanna gæti skapað sér markaði fyrir sína vöru. Það hefur verið pólitík hæstv. ríkisstj. að þjarma að íslenzka iðnaðinum, leggja alls konar torfærur í veginn fyrir, að hann geti fengið hráefni. Þegar leyfi seint og síðar meir eru veitt til þess, að svo miklu leyti sem þau þarf, þá er venjulega látið standa um tíma á gjaldeyrinum. Og ef verulegt af hráefnunum er veitt, þá er öðru hvoru látið vanta eitthvað af þeim afgerandi hlutum, sem nauðsynlegir eru. Og þegar ekki lengur er skipulagsbundið unnið að því að eyðileggja iðnaðinn, þá kemur sjálf skriffinnskan og þunglamahátturinn og skilningsleysið hjá hæstv. ríkisstj. og hennar nefndum, sem allt samanlagt stuðlar að því að skapa atvinnuleysi í íslenzka iðnaðinum og hindra landsmenn í því að geta hagnýtt sér þær miklu vélar og þá miklu fagþekkingu og þá æfingu, sem verkalýðurinn í iðnaðinum smám saman hefur fengið. Meira að segja svo smáfelld ákvæði eins og þau, sem ég hef lagt hér fyrir þing eftir þing, að íslenzkur iðnaður hefði frelsi til þess að flytja út vörur og kaupa frjálst vörur í staðinn, hafa verið drepin í þessari hv. d. þing eftir þing. Hæstv. ríkisstj. hefur með allri sinni pólitík dregið stórkostlega úr afkastagetu íslenzka iðnaðarins, valdið atvinnuleysi í allmörgum greinum hans og með söluskattinum og öðrum þungum búsifjum, vaxtahækkunum, skriffinnskunni, gjaldeyris- og innflutningstregðunni og öðru slíku valdið því, hve illa iðnaðurinn nú er kominn. Það virðist þess vegna ekki vera neitt stórkostlegt, sem farið væri fram á, þó að söluskatturinn væri afnuminn af íslenzkum iðnaðarvörum. Ég flutti till. um þetta í fyrra. Hún var steindrepin. Það var sýnt fram á þá af fulltrúum, bæði frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, og frá iðnrekendum, sem komu hér og töluðu við formenn allra þingflokkanna og áttu tal líka við iðnn. þingsins, að í sumum tilfellum væri jafnvel þrisvar sinnum innheimtur söluskattur af sömu vörunni. Og ég veit það, að það var það eina litla, sem hæstv. ríkisstj. að nokkru leyti léði máske máls á, að reyna nú eða a.m.k. segjast ætla að koma í veg fyrir það, að söluskatturinn yrði innheimtur þrisvar sinnum. En ég held, að hún hafi bara ekki gert það. Ég legg þess vegna til, að í 23. gr., aftan við a-liðinn, sé bætt sem vörum, sem séu undanþegnar söluskattinum, íslenzkum iðnaðarvörum. Ég veit, að það munu koma fram fleiri till. viðvíkjandi söluskattinum. Hv. meðnefndarmaður minn, sem líka er í stjórnarandstöðu, kvaðst mundu bera fram brtt. við þetta, en mun ekki hafa unnizt tími til þess sökum anna, þar sem flokksþing Alþfl. stendur nú yfir.

Önnur brtt., sem ég flyt, er viðvíkjandi innheimtuaðferðinni, þ.e. við 24. gr. — 24. gr., eins og hún er nú, mælir fyrir um, að svo framarlega sem þeir menn, sem greiða eiga söluskattinn, hafi ekki greitt hann á tilsettum tíma, þá skuli fyrirtækjum þeirra tafarlaust lokað af lögreglunni og þau innsigluð. Þegar þetta ákvæði var sett í lög, mælti ég á móti því hér á Alþ. Og ég veit, að síðan þetta ákvæði var samþ., þá hefur þetta ákvæði orðið með óvinsælustu lagafyrirmælum, sem til eru á Íslandi nú. Þetta lagafyrirmæli minnir máske óþarflega mikið á harðvítugustu aðgerðir fógeta konungsins hér í gamla daga, enda hefur það greinilega komið í ljós við framkvæmdina á þessu ákvæði, að það hefur ekkert tillit verið tekið til neinna aðstæðna og verið gengið svo harkalega fram í þessu sambandi, að hreinasta harðstjórn er. Við höfum satt að segja, þrátt fyrir alla harðýðgi, sem tíðkazt hefur, ekki verið vanir því í okkar þjóðfélagi, að öðru eins harðræði væri beitt eins og beitt hefur verið í sambandi við innheimtu söluskattsins. Ég vissi í fyrra um fyrirtæki hjá smáatvinnurekanda. Það var um miðjan desember. Hann var nýbúinn að fá heim og hafði útleyst með ærnum kostnaði og greitt þunga tolla af vél, sem átti að vinna verk, sem sérstaklega átti að koma út á markaðinn fyrir jólin. Hann skuldaði ofur lítinn söluskatt, ca. 2000 kr. eða eitthvað þess háttar. Það var komið til mannsins. Hann var búinn að leggja sitt fé í að leysa út þessa vél, sem var milli 10 og 20 þús. kr. virði og hann var búinn að borga út og hefði gefið af sér nokkrar þús. kr. fyrir jólin. Hann reyndi að fá að láni 2 þús. kr. til þess að borga söluskattinn, átti skuldlausar ágætar eignir til að veðsetja, en gat ekki fengið svo mikið sem 2000 kr. lán. Fyrirtækið var innsiglað, og því var lokað. Atvinna mannsins var stöðvuð, og hann var hindraður í því að geta aflað sér tekna á þeim tíma ársins, sem hans atvinnurekstur var alveg sérstaklega miðaður við. Manninum var valdið mörg þús. kr. tjóni með þessari harðvítugu aðferð við innheimtu söluskattsins. Og slík dæmi eru mörg. Það hefur verið gengið þannig að með innheimtuna á þessum skatti, að almenningi hefur verið valdið stórtjóni og jafnvei ríkissjóði líka.

Nú vilja menn máske segja: Það er nú ákaflega hart, ef menn, sem innheimta fyrir ríkissjóð skatt, eiga ekki að standa skil á honum í tíma og eiga jafnvel að geta notað hann að einhverju leyti sem verzlun fyrir sig. Já, það væri vissulega mjög hart, svo framarlega sem við lifðum í þjóðfélagi, þar sem einhverjir siðaðra manna hættir væru hafðir um lánsfé og fjármál. Ekkert ríki á Norðurlöndum er þannig, að maður, sem á skuldlausa eign, við skulum segja upp á 100 þús. kr., 200 þús. kr., 300 þús. kr. eða jafnvel minna, ætti annaðhvort hús, vél, íbúð eða bíl, geti ekki hvaða dag sem er, ef hann á þetta skuldlaust, farið í hvaða banka sem er og fengið sér lán upp á nokkur þús. kr., ef honum liggur á, út á slíka eign. Það mundi verða litið svo á á Norðurlöndum, að ef maður gæti ekki fengið slíkt lán, þá væri verið að ræna hann hans eignum. Það væri verið að svipta hann möguleikunum til þess að geta notfært sér eign sína, ef hann gæti ekki fengið smálán út á hana. En hvernig er ástandið hér á Íslandi? Ástandið hér á Íslandi er þannig, að nýlega kom t.d. fyrir, að maður, sem átti hús, sem á uppboði seldist á yfir 200 þús. kr., gat ekki fengið 900 kr. lán til þess að bjarga húsi sínu frá uppboði, þó að hann ætti það skuldlaust, þegar var verið að ganga að með skatt. Svona er ástandið. Er þetta normalt ástand í þjóðfélaginu? Nei, þetta er ástand, sem skapað er af ríkisstj. og samkv. fyrirmælum ríkisstj. og fyrst og fremst hæstv. viðskmrh. Sjálfstfl., sem hefur skrifað bönkunum fyrirmæli, að vísu kurteislega orðuð, um að hafa hömlur á útláni lánsfjár, en hin eiginlega merking orðanna var að sjá um, að svo lítið væri veitt af lánsfé, að það þrengdi að almenningi og smáatvinnurekendunum í landinu, þannig að hægt væri að féfletta millistéttirnar og þá verkamenn, sem eitthvað hefðu eignazt, á meðan auðmennirnir í landinu væru að hrifsa til sín eignirnar. (Gripið fram í.) Hæstv. viðskmrh. spurði, hvort þetta standi í bréfinu. Hæstv. viðskmrh. hefur tvisvar sinnum hér á Alþ. verið beðinn um að lesa bréfið upp, og hæstv. viðskmrh. hefur af n. hér á Alþ. verið beðinn um að sýna þetta bréf. Hæstv. viðskmrh. hefur verið krafinn sagna hér um það, hvað hafi verið í því bréfi, sem hann skrifaði Landsbankanum. Hæstv. viðskmrh. stóð hér fyrir svörum, þegar ég lagði hér fram þáltill. í fyrra um rannsókn á atferli dr. Benjamíns Eiríkssonar og hvers konar eftirlit hann hefði með láveitingum út á hús í bönkunum hérna á Íslandi og hvort hann hefði þetta eftirlit með höndum samkv. fyrirmælum ríkisstj. Hæstv. viðskmrh. varð það á að segja, að hann hefði skrifað þetta bréf. Þessi sami hæstv. viðskmrh. lýsti því svo yfir nokkru seinna, að hann hefði engin afskipti haft af lánsfjármálum bankanna. Þetta seinna skipti var næsta þægilegra að segja, að ríkisstj. hefði ekki komið neitt nærri lánsfjármálunum. Í fyrra skiptið hins vegar þurfti hann að bera blak af dr. Benjamín Eiríkssyni, og þá ætlaði hann nokkuð stórmannlega að taka sökina á sig og segjast sjálfur hafa skrifað bönkunum til þess að fyrirskipa þeim að draga úr lánum. Hæstv. viðskmrh. gerir nú máske svo vel og les upp þetta bréf, því þó að hann tvisvar sinnum hafi talað um bréfið, þá notaði hann ekki sömu orðin í bæði skiptin, þannig að það væri þess vegna mjög gott að fá að vita, á hvern hátt afskipti Sjálfstfl. hafa verið af lánveitingum Landsbankans, ekki sízt lánveitingum til húsa. Hæstv. viðskmrh. man kannske, að ákveðnir þm. úr hans eigin flokki, úr Sjálfstfl., hafa lagt hérna fram á Alþ. í þessari hv. d. allmörg lagafrv., sem mæla fyrir um allmiklar lánveitingar. Ég hef ekki talið saman, hve millj. eru margar. Mig minnir nú, að vissir þm. Framsfl. væru að reyna að telja þetta saman í einu þskj. núna nýlega. Og mig minnir nú helzt, að þeir hafi komizt upp í kringum 100 millj. eða meira, ef það var ekki 200 milljónir, — það voru a.m.k. mjög álitlegar fjárfúlgur, sem sjálfir þm. stjórnarfl. og Sjálfstfl.-þm. alveg sérstaklega hafa flutt viðvíkjandi lánum til íbúðarhúsa, þ. á m. að gerbreyta alveg lánum úr veðdeild Landsbankans. Vissulega væri þörf á þessu. Ég neita því ekki. Eins og hæstv. viðskmrh., sem bankamál heyra undir, er kunnugt, þá eru öll veðlán Landsbankans núna, allt, sem veðdeildin hefur í útláni í öllum sínum 17 flokkum, sem hún hefur gefið út nú í upp undir 50 ár bráðum, 38 millj. kr., allt, sem Landsbankinn lánar út á veð í húsum á Íslandi. Og brunabótamat allra húsa á Íslandi er — eins og hæstv. viðskmrh. veit — 3.000 millj. kr. M.ö.o., það, sem veðdeild Landsbankans á í veðum í útistandandi fé með 1. veðrétti í húsum á Íslandi, er rúmlega 1% af andvirði íbúðarhúsa og húsa yfirleitt á Íslandi. Það er greinilegt, hvað þetta þýðir, að lánin eru litil. Jafnvel þótt maður gizkaði með öllum þeim lánum, sem aðrir bankar veita og sparisjóðir og einstaklingar, þá kæmist það aldrei upp yfir 10%, það kæmist aldrei upp yfir 300 millj., sem lánað er út á öll hús á Íslandi, þannig að það eru ekki 10% af öllum þeim húseignum, sem til eru á Íslandi, sem lánað er út á. M.ö.o., 90% af öllu því verðmæti, sem liggur í húsum á Íslandi núna, á núverandi kynslóð að borga upp, og þegar vitanlegt er, að verkamenn og millistéttarmenn rísa ekki undir því, þá þýðir það, að svo og svo mikið af öllum þessum húseignum fer, þegar þeir missa það, yfir í hendurnar á þeim fáu auðmönnum, sem hafa aðganginn að bakdyrunum á bönkunum og fá lánað þar og geta keypt upp það, sem hinir missa. Þannig er verið að rýja almenning á Íslandi. Svo kemur Sjálfstfl. hér fram á Alþ. með frv. um að breyta veðdeild Landsbankans og fara aðlána öll ósköp út. Á sama tíma skrifar viðskmrh. Sjálfstfl. Landsbankanum bréf og segir: Í guðanna bænum, hafið þið nú hömlur á útlánunum, — m.ö.o. segir: Verið þið nú ekki að lána til húsbygginga og annars slíks, — og setur Benjamín Eiríksson eins og varðhund í bankana til þess að kíkja á hvern einasta víxil, sem látinn er út, til þess að rannsaka, hvort það kunni nú að vera, að einhver af víxlunum sé út á hús. — Þetta var nú bara innskot út af því, sem hæstv. viðskmrh. var að skjóta fram í áðan. Ég vona nú, að hann sýni bréfið frá Landsbankanum.

En viðvíkjandi því, sem gaf mér tilefnið til þessa, sem sé innheimtuaðferðinni á söluskattinum, þá væri ekki mikið við henni að segja, svo framarlega sem eðlilegt lánsfjárástand ríkti í þjóðfélaginu. En þegar allir bankar eru lokaðir, þegar eign er gerð einskís virði við það, að ekki er hægt að fá lánaða út á hana peninga, — það er smám saman verið að gera hana einskis virði, — þá á svona aðferð eins og þarna er beitt ekki við. Og ég vil minna hæstv. ríkisstj. á, að með svona harðvítugum aðgerðum eins og ríkisstj. núna er að beita með innheimtunni á söluskattinum, þá er verið að ganga nær fleirum en iðnrekendunum, sem er verið að blaðra um, þeim, sem er verið að innheimta þennan söluskatt hjá. Það tíðkast nú í vaxandi mæli, að svo og svo margir smærri atvinnurekendur borga ekki lengur út kaup vikulega, eins og þeim ber að gera eftir l. frá Alþ. Fjöldi af verkafólki hér í bænum og vafalaust annars staðar á landinu líka á við þau kjör að búa nú að fá ekki kaup sitt greitt vikulega, þótt fastráðið sé, og verður að bíða eftir kaupgreiðslum dögum, víkum, jafnvel mánuðum saman. Það þýðir lítið að ætla máske að afhemla verkalýðsfélögunum slíkar kröfur og fara að láta ganga hart að þessum iðnrekendum eða öðrum smáatvinnurekendum, sem þannig eru að lenda í vandræðum, vegna þess að verkafólkið veit, hvað yfir þessum atvinnurekendum vofir, — yfir þeim vofir svipa ríkisstj. M.ö.o., þegar hæstv. fjmrh. gengur að atvinnurekstrinum með allri þeirri harðýðgi, sem beitt er við innheimtu söluskattsins, þá er hann að taka kaupið, sem verkafólkið á að fá útborgað, og kúska atvinnurekendur til þess að brjóta l. um greiðslur verkakaups. Samtímis fyrirskipar svo ríkisstj. bönkunum að lána ekki þessum sömu atvinnurekendum eðlilegt rekstrarfé, lána þeim ekki út á skuldlausar eignir og skapa þannig það óeðlilega ástand í þjóðfélaginu, sem er að riða því að fullu.

Hæstv. ríkisstj. starfar samkv. l., eins og l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og gjaldeyrismeðferð o.fl., sem fyrirskipa henni að tryggja hverjum einasta manni í landinu vinnu og fyrirskipa henni að vinna að því að tryggja hverjum þeirra réttlátar tekjur af sinni vinnu. En hæstv. ríkisstj. er svo fjarri því að reyna til þess að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að framfylgja þessum lagafyrirmælum, að hún ekki aðeins sleppir því að framfylgja þeim, heldur hleður álögum á álögur ofan á almenning og innheimtir þær með slíkri harðýðgi, að atvinnureksturinn líður stórkostlega undir því og verkalýðurinn á við lakari og lakari kjör að búa vegna ráðstafana ríkisstj. Ég hef þess vegna leyft mér að flytja þá brtt. við 24. gr., sem er prentuð á þskj. 325,2.b. Með þeirri breyt. er lagt til að setja innheimtuaðferðina í sama form og áður var, og virðist það vera alveg nægilega strangt form. Það virðist engin ástæða til þess að innheimta þannig skatt, sem raunverulega er loginn út úr almenningi, eins og söluskatturinn er, undir fölskum forsendum, settur á til þess að tryggja atvinnuvegina, settur á til þess að standa undir fiskábyrgð, settur á til þess að borga niður dýrtíðina, en síðan notaður til að auka dýrtíðina í landinu, lofað að afnema hann, en skellt á gengislækkun í staðinn, lofað að tryggja atvinnu með henni, skipulagt atvinnuleysi í staðinn, lofað, að það skyldi þó a.m.k. látið nægja með þessa gengislækkun, það svíkið eftir eitt ár, skellt á bátaútvegsgjaldeyrinum í staðinn. M.ö.o., það er nú þrisvar sinnum búið að taka af almenningi þær álögur, sem lofað var að láta hann sleppa við, þegar þessi l., sem við hérna erum að ræða um, voru sett. Söluskatturinn er látinn haldast, þegar fiskábyrgðin er afnumin, gengislækkuninni er skellt á síðan, bátaútvegsgjaldeyrinum þar ofan á. Og svo er þetta heimtað inn með slíkum aðferðum, sem ég nú hef lýst og ekki hafa þekkzt áður, frá því að kóngsins fógetar frá Bessastöðum voru harðvitugastir aðgöngu við landsmenn hér í gamla daga.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þessar brtt. fái góðar móttökur í þessari hv. d. En almennt stendur hins vegar málið þannig, að ég er á móti þessum söluskatti og því öllu, hvernig hann er til orðinn. Mín höfuðtill. er, að þetta frv. sé fellt og ríkisstj. þannig sett í þann vanda að verða að finna tekjustofna, sem innheimti tekjur af þeirri auðmannastétt landsins, sem nú hefur of mikla kaupgetu, en almenningi verði hlíft, sem á við sírýrnandi kaupgetu að búa fyrir tilstilli ríkisstj.