02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Hæstv. viðskmrh. hefur nú ekki komið hér enn þá með bréfið, sem ég bað hann um áðan, þegar hann greip fram í fyrir mér og vildi efast um, að ég hefði alveg rétt eftir honum bréfið, sem ég gat í raun og veru ekki haft, af því að hann hefur aldrei fengizt til þess að lesa það upp. Og ég vil nú endurtaka mína áskorun til hæstv. viðskmrh., og það væri gott, ef hæstv. fjmrh. vildi athuga það líka, að lofa þingheimi að heyra það bréf, sem viðskmrh. skrifaði Landsbankanum í fyrra um að leggja hömlur á, eða hafa hömlur á, eins og hann orðaði það hérna í þinginu, útlánastarfseminni og virðist hafa haft þau áhrif, að tekið hefur fyrir alla brýnustu lánastarfsemi til t.d. húsbygginga og dregið mjög úr öllum lánveitingum til atvinnurekstrar. Ég minnti hæstv. viðskmrh. á það hér áðan og get gert það nákvæmar, að fimm þingmenn Sjálfstfl. hér í d. hafa flutt frv. til l. á þskj. 192 um, að ríkisstj. taki að láni um 30 millj. kr. til þess að láta veðdeild Landsbankans fé til útlána. Og ég skal þá geta þess um leið, að þetta frv. liggur hjá okkur í fjhn. og einn fjhn.- maður er 1. flm. þess, og ég hef boðið sjálfstæðismönnunum, sem með mér mundu vera í meiri hl. í fjhn., að afgreiða þetta mál, og ég býst við, að hv. 8. landsk. mundi ekki heldur láta á sér standa. En það virðist ekki vera eins mikill áhugi fyrir að afgr. þessi mál, sem mundu ef til vill eitthvað bæta fyrir, eins og að afgr. núna álögurnar á almenning, eins og þann söluskatt, sem hérna liggur fyrir. Sem sé, það er mjög æskilegt, ef hæstv. viðskmrh. vill nú fara að koma með bréfið.

Svo er viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. var að segja, í fyrsta lagi um lögin og tilgang þeirra. Hæstv. fjmrh. virðist ekki einu sinni vera alveg ljóst, hvað þessi l. heita, sem við erum að ræða hérna um. Þau eru um framlengingu á gildi 3. kafla l. nr. 100 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Og dýrtíðarráðstafanir þýðir ekki í þessu sambandi ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina og sjá um hennar vöxt og viðgang, heldur var meiningin upphaflega, að þetta skyldi vera til þess að vinna á móti dýrtíðinni. Það virðist hæstv. fjmrh. nú aldrei hafa verið fullkomlega ljóst, og var hann þó í stjórn, þegar þessi lög upprunalega voru sett. Er nú búið það greinilega að þylja hér fyrir honum, hvað í þessum l. stendur, að þrátt fyrir allt, sem hann kann að hafa sagt, og þó að orð ráðh. séu farin að gilda meira, en lög Alþingis, eins og kemur fram í auglýsingu fjárhagsráðs, þegar það gefur út auglýsingu um bátagjaldeyrinn eftir ósk ríkisstj. og byggir ekki á neinu öðru en ósk ríkisstj. og engum lögum, þá erum við þingmenn ekki búnir að ganga inn á það, að orð ráðh. hafi meira gildi en lög, og í lögunum segir, að þetta fé skuli notað til þess að lækka vöruverð og framleiðslukostnað innanlands. En þetta fé hefur verið notað til þess að auka framleiðslukostnaðinn innanlands, til þess að auka dýrtíðina og til þess að hækka vöruverðið, með þeim afleiðingum, sem ég áður hef rakið.

Mér heyrðist á hæstv. fjmrh., að honum fyndist það hálfgerð ósvífni hjá mér að koma hér fram með till. um ýmist að rýra eða jafnvel að afnema að miklu leyti söluskattinn. Það er náttúrlega dálítið svona frekt í farið. Þó eru till. ekki neitt stórkostlegar, sem ég legg fram og hæstv. fjmrh. sagði ekki eitt einasta orð um. En má ég um leið minna hæstv. fjmrh. á, að fyrir liggur frv. hér frá nokkrum þm. hans,flokks, á þskj. 126, sem borið er fram í Ed., sem fer fram á það að taka fé, sem ríkið á, og gefa það einni ákveðinni stofnun í landinn. Það er ekki um neina smáfúlgu. Það eru 44 millj. kr. Og ekki ætla ég neinum hv. þingmönnum Framsfl. það að flytja frv. um að taka úr eigu ríkisins 44 millj. kr. og gefa ákveðinni stofnun í landinu, án þess að þetta sé gert með vilja og vitund og samþykki hæstv. fjmrh. Að vísu er þetta frv. ekki langt komið og virðist ekki lögð öllu meiri áherzla á að afgr. það í þeirri n., sem það er í, heldur en það frv. sjálfstæðisþm. hér í Nd., sem ég gat um áðan, um 30 millj. kr. lánið, sem liggur ákaflega rólega í fjhn. En varla er það nú flutt öðruvísi, en hæstv. fjmrh. sé því fylgjandi, þannig að hæstv. fjmrh. verður að fyrirgefa, þó að við stjórnarandstæðingarnir komum nú kannske til með að koma fram með till. um að rýra eitthvað ofur lítið það, sem ríkissjóður á að fá, þegar fylgjendur stjórnarinnar ganga svona á undan með engar smáræðis kröfur í ríkissjóðinn.

Svo kom hæstv. fjmrh. inn á útreikninginn viðvíkjandi hvað söluskatturinn og vörumagnstollurinn og verðtollurinn mundu þýða, þó að það væri eitthvað lækkað, og hvað það mundi þýða í lækkuðum vísitölustigum. Það er búið að ræða um það, en ég vil bara minna hæstv. ráðh. á eitt, þegar hann er að reikna út dýrtíð, að þá ætti hann aldrei að miða þetta eingöngu við, hvað það mundi þýða í vísitölustigum og hvað kaupið lækkaði þar með. Höfuðgildi þess að lækka verðtollinn eða vörumagnstollinn eða söluskattinn fyrir verkalýðinn felst í því, sem hann lækkar á þeim vörum, sem eru utan við vísitöluna, sem kemur honum raunverulega að gagni, vegna þess að þær vörur verða ódýrari, en rýra ekki að sama skapi hans eigið kaup. Það að taka peninga af almenningi til þess að kaupa niður verðið á þeim vörum, sem koma inn í vísitöluna, er á vissan hátt blekkingastarfsemi gagnvart verkalýðnum. Það að verja fé til þess að lækka vöruna, sem er utan við vísitöluna, kemur honum allt öðruvísi að gagni; vegna þess að þá helzt hans kaupgjald hið sama.

Þá minntist hæstv. ráðh. á innheimtuna viðvíkjandi söluskattinum og hvernig þetta kæmi út. Ég veit nú ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur íhugað að öllu leyti, hvers konar svikamylla er í sambandi við þennan söluskatt. Er hæstv. ráðh. ljóst, hvað Sogsvirkjunin, áburðarverksmiðjan og Laxárvirkjunin, sem eru opinberar stofnanir í landinu, sem mestmegnis ríkið og Reykjavíkurbær eiga hvað Sogsvirkjunina snertir, ríkið eingöngu að heita má hvað áburðarverksmiðjuna snertir og ríkið og Akureyrarbær hvað Laxárvirkjunina snertir, — er hæstv. ráðh. ljóst, hvað þessar stofnanir verða að greiða í söluskatt af þeim vélum, sem verið er að flytja inn? Ég hef ekki nákvæmar tölur, en ég veit, að það er a.m.k. milli 10 og 20 millj. kr., ef ekki yfir 20 millj. kr., sem verður að greiða í söluskatt til ríkisins af vélunum til þessara stofnana, m.ö.o. af vélum til stofnana, sem verða síðan að taka sitt fé ýmist að láni hér innanlands eða með álögum á almenning. Og þessar álögur ríkissjóðsins verða til þess að gera allar þessar stofnanir miklu dýrari, verða til þess að gera t.d. Sogsvirkjunina dýrari, verða til þess að gera rafmagnið, sem framleitt er, dýrara og verða þannig til þess að auka dýrtíðina í landinu, fyrir utan að þetta er náttúrlega ákaflega asnaleg aðferð af ríkinu að vera að heimta tolla upp á tugi milljóna króna af sjálfu sér, sem svo er fært til tekna hjá ríkissjóði og verður bara til þess að auka dýrtíðina í landinu.

Þá kom hæstv. fjmrh. inn á mína brtt. viðvíkjandi innheimtuaðferðinni og sagði, og það var nú svo sem alveg ljóst, hvernig það var, eftir hans orðalagi: Jú, þeir góðu, skilvísu menn, sem innheimtu þennan söluskatt af fólkinu, skiluðu honum í ríkissjóð, og þeir óskilvísu skiluðu honum ekki í ríkissjóð. — Þetta var raunverulega það, sem hann skýrði, að fælist í mínum tillögum. Hverjar eru mínar tillögur? Mínar till. eru alveg orðrétt — bara ártölin breytast — 24. gr. l. frá 1948, — alveg orðrétt fyrirmælin um, að sú aðferð sé viðhöfð, sem sett var í l. 1948, þegar þau voru sett, þegar hæstv. fjmrh. var sjálfur ráðh., stóð sjálfur að þessum l., bar sjálfur ábyrgð á þessum l. Og ég veit ekki, hvort það hefur verið hans meining, þegar hann var að setja þessi l. þá sem ráðh., að þessi 24. gr. ætti að þýða, að allir óskilvísir menn ættu að mega stinga af með söluskattinn og þyrftu aldrei að skila honum í ríkissjóð. Ég veit ekki, hvort það hefur verið hans meining, að það ætti að gefa öllum óskilvísum mönnum í landinn söluskattinn, að þetta væru bara vasapeningar handa þeim. A.m.k. var það ekki skýrt, þegar hæstv. ríkisstj. lagði þetta fyrir þá, sú ríkisstj., sem hann þá átti sæti í. Ég held þess vegna, að hæstv. ráðh. verði að tala ofur lítið gætilegar um þessa innheimtuaðferð, sem ég legg þarna til. Hún er sem sé sú aðferð, sem yfirleitt hefur verið höfð hér á Íslandi, aðferð um, að menn skuli gera skattinn upp fyrir ákveðinn tíma, svo að sé hægt að innheimta hann eftir ákveðinn tíma og dráttarvextir leggist á hann og öll þau viðurlög, sem hann setti sjálfur sem ráðh. í sinni ráðherratíð 1948. Það fer þess vegna fjarri, að það sé verið nokkuð að verðlauna óskilvísa menn. En það er hins vegar ekki verið að hegna og níðast á þeim mönnum, sem ríkisstj. útilokar frá því að geta haft eðlileg rekstrarlán og eðlileg lán út á sína eign í núverandi þjóðfélagi. Og það er ekki verið að beygja þar með mikið af atvinnurekendunum til þess að svíkja verkalýðinn um kaupgjald, til þess að brjóta þau lög, sem mæla fyrir um, að það skuli greiða kaup vikulega, eins og allmargir atvinnurekendur hafa því miður gert nú, og ég veit, að þeir hafa ekki gert það öðruvísi en til neyddir, því að það er hlutur, sem atvinnurekendur venjulega reyna í lengstu lög, að borga sínu verkafólki. En að því eru orðin alvarleg brögð, að lögin um greiðslu verkakaups vikulega séu ekki haldin, séu brotin.

Hæstv. fjmrh. svaraði engu því, sem ég kom fram með viðvíkjandi lánsfjármálunum og hvort þessir menn, sem svona væri búið að með þessari harðýðgi hvað innheimtuna snertir, mættu að einhverju leyti búast við að fá breytt um þá möguleika, sem þeir hafa haft til þess að fá lánsfé, hvort það mætti vænta að einhverju leyti einhverra breytinga hjá hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi hennar lánsfjárpólitík. Það kemur ekki eitt orð frá hæstv. ríkisstj. í þá átt. Ég lagði hér fram till. um, að íslenzkar iðnaðarvörur væru undanþegnar þessum skatti. Hæstv. ríkisstj. er nýlega búin að tala ákaflega fagurlega í sambandi við iðnsýningu, sem hér var haldin í Reykjavík, lofa öllu mögulegu fögru viðvíkjandi því að stuðla að íslenzkum iðnaði. En það kemur ekki eitt orð frá hæstv. ráðh. um, hvernig hæstv. ríkisstj. taki undir till. um það að undanþiggja íslenzka iðnaðinn hvað þetta snertir. M.ö.o., það á ekki af hálfu hæstv. ríkisstj. að ræða við þing eða þjóð um þessi mál. Það er ekki talað um neina tilslökun eða neitt slíkt í þessu efni. Það á að keyra áfram álögurnar í gegnum þingið þann hluta af þeim, sem fer þó í gegnum þingið og ekki er innheimtur utan við lög og rétt — og síðan á að keyra áfram með innheimtuna á þessu. Fjmrh. lætur lögregluna ganga að atvinnurekendunum næstum því með skammbyssuna í hendi og loka svo með hinni hendinni bönkunum fyrir þeim um leið, til þess að ekki sé hægt að komast þangað til þess að fá þó að það væri ekki nema 2–3 þús. kr. lán til þess að borga söluskattinn eða aðra skatta, sem verið er að ganga að mönnum með, þó að þeir eigi nægar eignir, sem í öllum siðuðum löndum mundu þykja gott veð út á smálán til rekstrar.

Með svona pólitík eins og hæstv. ríkisstj. rekur nú í fjármálunum og skattamálunum, þá er ekkert undarlegt, þó að hún sé að valda því hruni í þjóðfélaginu, sem nú er greinilega að koma í ljós fyrir hennar tilstilli.

Tveir hv. þm. hafa hér áður nokkuð talað um bæjar- og sveitarfélögin og þeirra kröfur í þessu sambandi. Það er ekki undarlegt, að bæjar- og sveitarfélögin geri þessar kröfur. Sem stendur hefur ekkert af þessum litlu bæjar- og sveitarfélögum úti um land, sem mörg stunda mjög mikla framleiðslu, frjálsræði til þess að framleiða, selja út úr landinu og kaupa inn í landið án afskipta ríkisstj. Ríkisstj. bannar öllum þessum bæjar- og sveitarfélögum allar bjargir. Öll þessi bæjar- og sveitarfélög gætu bjargað sér ágætlega og haldið sínu atvinnulífi af fullum krafti, ef ríkisstj. kæmi hvergi nærri því. Það er engum öðrum aðila að kenna en hæstv. ríkisstj., að atvinnulíf bæjar- og sveitarfélaganna er lamað, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að lina nokkurn skapaðan hlut á þeim fjötrum, sem hún hefur bundið þessum bæjar- og sveitarfélögum. Hæstv. fjmrh. gat. ekki komið í veg fyrir það hér á árunum, að ýmis af bæjarog sveitarfélögunum úti um land fengju nokkuð af togurum. Honum tókst ekki að hindra, að stofnlánadeild sjávarútvegsins væri sett á stofn og þessum fátæku bæjar- og sveitarfélögum gert mögulegt að fá allhá lán til þess að geta keypt sér dýr tæki. En með einokunarfjötrum ríkisstj. er hann hins vegar að hindra þau í því að geta hagnýtt þessi tæki. — [Fundarhlé.)

Herra forseti. Það var viðvíkjandi bæjar- og sveitarfélögunum, að það hefði ekki verið nema eðlilegt, að eitthvað hefði verið orðið við þeirra kröfum, þar sem ríkisstj. raunverulega hefur tekið á sig alla ábyrgð af þeirra atvinnulífi, vegna þess að hún hefur neitað þessum bæjar- og sveitarfélögum sjálfum um að fá að reka sinn atvinnuveg og fyrst og fremst sjávarútveginn án afskipta ríkisstj. og þar með raunverulega tekið á sig þá siðferðislegu ábyrgð, að þessi bæjar- og sveitarfélög geti komizt sæmilega af. En svo hefur reynslan sem sé orðið þessi: Annars vegar hefur þeim verið bannað að nýta sín tæki til fulls, sumpart beinlínis með einokunaraðstöðu ríkisstj., sumpart með valdi hennar yfir lánsfé. En hins vegar, þegar bæjar- og sveitarfélögin svo komast í halla út af vaxandi atvinnuleysi, þá vill ríkisstj. ekki sinna þeim að neinu leyti.

Hins vegar hafði ég nú ekki sérstaklega flutt neina till. viðvíkjandi þeim málum. Mér er kunnugt um, að það hafa verið hér fundir um þau mál, og má þá vel vera, að ýmsir aðrir, eins og líka reyndist í fyrra, komi fram með slíkar till.

En ég vil svo að síðustu aðeins fara nokkuð inn á það við hæstv. fjmrh., að það er raunverulega orðið þannig með þennan söluskatt, að það er farið að leggja hann á eins og þetta væri nokkurs konar tekjuskattur og þó með þeim mun, sem er mun lakara fyrir þá, sem hann eiga að greiða, að menn geta aldrei verið öruggir um það, hvort þeir eiga að greiða þennan skatt eða ekki. Sjálf 22. og 23. gr. eru ákaflega ónákvæmar í þessu efni. Og ég vil segja hæstv. fjmrh. það, að ég hef orðið var við, að nú undanfarið hefur hann verið að ganga lengra og lengra í því að rukka þennan skatt inn af mönnum, sem raunverulega eru ekki annað en verkamenn, t.d. af mönnum, sem eru bifvélavirkjar, pípulagningamenn, múrarar, en vinna máske einir sér í verkstæði, sem þeir eiga. Og ég vil vekja eftirtekt hæstv. fjmrh. á því, að skattstjóri hefur haft þá aðferð nú upp á siðkastið, að hann sendir allt í einu mönnum kröfu um söluskatt fyrir árið 1951 og fyrir árið 1952, sem alls ekki hafa greitt neinn söluskatt fram að þessu og aldrei hafa fengið að vita það, að þeir ættu að greiða neinn söluskatt eða innheimta neinn söluskatt af almenningi, og aldrei hafa lagt hann á. Ég vil vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að það er rannverulega á hennar ábyrgð að sjá um að kynna aðilum í þjóðfélaginn lögin, þannig að þeir hafi hugmynd um, hvort þeir eiga að gjalda svona skatt eða ekki. Í 23. gr., b-liðnum, 6. undirlið, þar sem verið er að telja upp það, sem er undanþegið söluskatti, stendur, að þeir séu undanþegnir eða sala þeirra,sem ekki eru bókhaldsskyldir samkv. l. nr. 62 1938, ef söluskattskyld velta þeirra yfir árið nemur ekki 30 þús. kr. Þeir menn, sem ég er hér að ræða um, menn, sem rannverulega eru bara verkamenn, eins og bifvélavirkjar, pípulagningamenn, múrarar, sem vinna hins vegar bara einir sér, hvernig eiga þeir að ganga út frá því, — þeir eru ekki bókhaldsskyldir eftir lögunum, — að þeir eigi að greiða söluskatt? Þeir ganga út frá því, að þeir eigi ekki að greiða hann, og hafa aldrei innheimt hann. Núna er verið fyrir tilstilli hæstv. fjmrh. að ganga að þeim, sem engan söluskatt hafa innheimt, sem ekkert hafa lagt á sínar vörur fyrir söluskatti, eða réttara sagt á sína vinnu, sem þeir hafa verið að vinna. Nú koma erindrekar hæstv. fjmrh. til þessara manna og heimta af þeim, að þeir borgi söluskatt fyrir árið 1951 og söluskatt fyrir árið 1952, og mennirnir hafa aldrei gengið út frá því, að þennan söluskatt ættu þeir að greiða, aldrei fengið neina tilkynningu um það, ekki verið einu sinni rukkaðir fyrr. Hvað gera þessir menn? Þessir menn fara kannske til einhvers lögfræðings og fara að spyrja hann: Ja, hvernig er nú þetta? Eigum við virkilega að fara að borga söluskatt, við, sem aldrei höfum lagt hann á, við, sem aldrei höfum reiknað með honum? — Það, sem lögfræðingarnir segja við þá, er í flestum tilfellum það, að það vill enginn lögfræðingur taka að sér svona mál gagnvart ríkisstj. Menn eru alveg réttlausir orðnir í þessum efnum. Og hvernig kemur þetta svo út? Ekki eru þessir menn að stinga neinu undan. Ekki eru þetta einhverjir óskilvísir menn, sem hafa innheimt söluskatt og ekki skilað honum. Þeir hafa aldrei lagt neinn söluskatt á. En hvernig er svo eftir lagagreininni um innheimtuaðferðina gengið að þeim? Jú, það er gengið þannig að þeim, að einn góðan veðurdag kemur lögreglan til þeirra og lokar hjá þeim, meira að segja þótt þeir væru í máli við ríkisstj. um það, hvort ríkisstj. hefði nokkurn rétt til þess að leggja þennan skatt á, og stöðvar þá í þeirra atvinnurekstri. Svona er aðstaðan viðvíkjandi innheimtu söluskattsins og viðvíkjandi álagningu söluskattsins.

Þetta er alveg óþolandi ástand. Það er orðið algert réttleysi manna gagnvart því opinbera. Ég vil þess vegna í fyrsta lagi eindregið mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessi mál til alvarlegrar athugunar, verði viðtalshæf viðvíkjandi breyt. á þessum l., lini á þessum harðvítugu innheimtuákvæðum þeirra og geri það alveg skýrt fyrir almenningi fyrir fram með nógu glöggum upplýsingum og nógu ákveðnum auglýsingum, hverjir eigi að greiða þennan skatt; en í öðru lagi, þ.e. höfuðatriðið, þá vil ég eindregið leggja til, að þær brtt., sem ég hér hef borið fram, séu samþ. og að reynt sé að semja um meiri rýrnun á söluskattinum, meiri tilslökun á honum, heldur en í þeim felst.