18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef, eins og hv. frsm. upplýsti, skrifað undir nál. á þskj. 473 með fyrirvara, og er minn fyrirvari fólginn í því, að ég vil ekki á þessu stigi málsins fallast á, að 2. gr. frv. sé samþ. óbreytt, og geri tilraun til þess að fá leiðrétt nokkuð það ranglæti, sem hefur verið við haldið í l. síðan það ákvæði var tekið upp í löggjöfina. Ég hef því á þskj. 474 lagt til sem aðaltill. við 2. gr., að orðin „en til heildsölu telst ekki sala fyrirtækja á eigin framleiðslu“ falli niður.

Eins og l. eru nú, þá er þessu þannig farið, að á allt hráefni, sem flutt er inn til iðnaðarins, er greitt 7.7% á innflutningsgjöldin, og er það í samræmi við allar vörur, sem fluttar eru inn, að greitt er 7.7% sem heildsölugjald. Þegar þessi vara er síðan seld í heildsölu til iðnaðarins, þá er ekki greiddur af henni söluskattur, vegna þess að heildsala er ekki söluskattsskyld að öðru leyti, en ég hef hér tekið fram, en síðan, þegar iðnrekandinn selur þetta aftur í heildsölu til kaupmannanna, þá eru reiknuð af þessu 3% í söluskatt, en þá er búið að tvískatta raunverulega þann hluta, sem inn hefur verið fluttur; hann hefur áður verið skattaður með 7.7% og er svo skattaður á ný með 3%. Þetta tel ég að sé engan veginn réttlátt og íþyngi of mjög íslenzkri framleiðslu og þess vegna eigi að fella þetta niður.

Nú hefur því verið haldið fram, að þetta mundi nema um 9 millj. kr., ef það yrði fellt niður. Það hafa nú ekki legið fyrir nein gögn, er sanni það, að svo sé, en hitt er alveg víst, að á móti kæmi aukin framleiðsla iðnaðarins í mjög stórum stíl, ef þetta væri lagfært, svoleiðis að þannig fengi ríkissjóður aftur inn töluvert á móti í söluskatti af nýrri framleiðsluvöru, svo að hér er ekki eingöngu um tekjutap að ræða fyrir ríkissjóð. Ég get að sjálfsögðu ekki á þessu stigi málsins sagt um það, hvað mikil sú upphæð yrði. Það yrði spádómur, eins og svo viða annars staðar í áætluðum tekjum ríkissjóðs, en mér þætti ekki ólíklegt, að með því að örva mjög framleiðslu iðnaðarins, þá kæmi allverulegur hluti af þessu aftur.

En þó að menn vildu ekki fallast á þessa till., þá þykir mér eðlilegt, að þeir vildu fallast á þá till., sem ég ber fram til vara á sama þskj., þ.e., að aftan við 1. efnismálslið gr. bætist: „Þegar verksmiðja selur framleiðsluvörur í heildsölu, skal eigi lagður 3% söluskattur á þann hluta framleiðslunnar, sem 7.7% gjaldið hefur verið lagt á.“ Það væri þó nokkur bót, ef hægt væri að koma því ákvæði inn í löggjöfina, og ég fullyrði alveg, að þessi tilslökun á söluskattinum mundi ekki verða ríkissjóði til neins tekjutaps. Það mundi áreiðanlega vinnast upp aftur í auknum framkvæmdum og framleiðslu hjá iðnaðinum, svoleiðis að hér væri aðeins um réttlætingu að ræða og ekkert annað.

Ég vildi því mjög mælast til þess, að þó að menn sæju sér ekki fært að samþ. aðaltill. til þess að ná fullkomnu réttlæti í málinu, þá verði þó a.m.k. nægilega margir hér í þessari hv. d. til þess að samþ. varatill. og ná þannig nokkrum hluta af réttlætinu með því að setja það inn í löggjöfina.

Ég skal viðurkenna, að eins og löggjöfin er nú og eins og er ætlazt til þess að hún verði með frv. á þskj. 13, þá mætti nokkuð laga þetta í meðferðinni hjá hæstv. ráðh., ef hann hefði löngun til þess, og vil ég í sambandi við það leyfa mér að lesa hér upp tvö bréf, annað frá rannsóknarnefnd ríkisins í iðnaðarmálum til fjmrn., dags. 11. okt. 1952, með leyfi hæstv. forseta, en það hljóðar svo:

„Vér leyfum oss að spyrjast fyrir um það hjá hinu háa ráðuneyti, eftir hvaða reglum er farið við greiðslu söluskatts af framleiðsluvörum innlendra verksmiðja, sem seldar eru öðrum innlendum verksmiðjum til frekari vinnslu.

Forstjóri Dúkaverksmiðjunnar h/f, Akureyri, hefur tjáð oss, að henni sé heimilt að greiða ekki söluskatt af vinnuvettlingaefni, er hún framleiðir og selur til innlendra vinnuvettlingaverksmiðja. Á hinn bóginn hefur forstjóri iðnaðardeildar S.Í.S. tjáð oss, að skinnaverksmiðjan Iðunn greiði söluskatt af leðri, er hún selur öðrum skóverksmiðjum, en skódeild Iðunnar, og sama gildir um framleiðslu Gefjunar.

Með því að fyrirkomulag þessara mála varðar verðmyndun margra innlendra iðnaðarvara og nefndin lítur svo á, að tryggja beri, að framleiðslusöluskattur verði aðeins greiddur einu sinni af sömu framleiðslu, væntir n. þess að fá svar hins háa ráðuneytís hið fyrsta.“

Þessu svarar svo rn. með bréfi 10. nóv., er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Til svars bréfi yðar, dags. 11. f.m., varðandi söluskatt skal þetta tekið fram:

Sala á hálfunnum iðnaðarvörum, sem seldar eru öðrum framleiðendum til frekari vinnslu, er söluskattsskyld, sbr. t.d. 2. gr. l. nr. 107 1951. Sala telst í þessu sambandi einungis raunveruleg sala, en ekki tilflutningur vöru milli deilda í sama fyrirtæki, þó að hann kunni í bókhaldi að líta út sem sala. Til skattlagningar slíkrar sölu er ekki heimild í l.

Eins og þetta er framkvæmt, er sýnilegt, að sama vara, sem unnin er á mismunandi stöðum, getur verið með mismunandi verði beinlínis vegna þess, að það þarf að greiða af henni mismunandi söluskatt. Ef vara t.d. er unnin úr garni í dúka og seld í heildsölu þannig til verksmiðju, ber að greiða af henni söluskatt. Ef hún svo aftur vinnur úr þessu vettlinga eða annað og selur það enn annarri heildsölu, þarf enn að greiða af því söluskatt, og svo þarf að síðustu að greiða söluskatt af þessu, þegar það er selt út í smásölu. Hins vegar getur sama fyrirtæki aðeins látið sér nægja að greiða 7.7% innflutningstollinn eða innflutningsskattinn, en ef það vinnur þessa framleiðslu í deildum, sem eru í eigu sama eiganda, þá sleppur hann við að greiða allan skattinn, nema 2% í smásöluskatt.“ Þetta er náttúrlega algerlega óhæfa og þarf að sjálfsögðu að leiðrétta, og því hef ég borið fram mínar till. á þskj. 474. Verði aðaltill. samþ., þá er um leið réttlætt þetta atriði, sem er mjög ranglátt að mínu álíti og kemur mismunandi niður hjá hinum ýmsu fyrirtækjum í landinu.

Ég skal ekki tefja lengur við þetta atriði á þessu stigi málsins, en vil aðeins geta þess, að ef þessar báðar till. mínar verða felldar, sem ég vænti að verði nú ekki, þá mun ég neyðast til að bera fram aðrar till. við 3. umr., sem fara í þá átt að láta alla aðila búa við sömu kjör í sambandi við iðnaðinn, þannig að hækka þá einnig skattinn á þeim fyrirtækjum, sem vinna sjálf úr efnunum frá einu stigi til annars, en skal ekki ræða það nánar hér. Ég vænti hins vegar, að till. mínar verði samþ., helzt aðaltill., en ef ekki, þá a.m.k. varatill.