18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það þýðir nú að sjálfsögðu, ekki að karpa lengi um þetta. Það verður aðeins klippt eða skorið. Hv. þm. Barð. sagði, að það væri aðeins um það að ræða viðvíkjandi sinni till., hvort sömu lög ættu að ganga yfir alla landsmenn. Mér virðist nú, jafnvel þótt frv. yrði samþ. óbreytt, að þá gangi sömu lög yfir alla. Það er öllum heimilt, t.d. öllum iðnaðarfyrirtækjum, að setja upp búðir og selja sínar vörur þar. Ef þeir nota þann rétt, sem þeir þannig hafa, þá ganga sömu lög yfir alla. Yfirleitt er hér engum bannað neitt í þessum efnum. Það er eins og gengur í lífinu, að sumir hafa framsýni og dugnað til þess að koma sér betur fyrir en aðrir, og verður ekkert við því sagt. Og þetta er ekkert sérstakt. Einnig gætu fyrirtæki slegið sér saman og komið því þannig fyrir. Og ekki þarf hann að halda það, — af því að maður heyrir nú oft hug hans til samvinnufélaga landsins, — að þetta sé til verndar samvinnufélögunum sérstaklega, því að það er til fjöldi einstakra manna, sem hafa útsöludeildir, sem taka við iðnaðarvörum, og þetta gildir auðvitað alveg eins um fyrirtæki einstakra manna eins og t.d. samvinnufélög. Mér finnst því, að þetta sé ekki rétt, að hér sé ekki um sömu lög fyrir alla að ræða. Hver sem þessa aðferð hefur á iðnaði sínum og sölu hans nýtur þessara ákvæða, og það er öllum frjálst.

Ég held, að hv. þm. Barð. hafi dálítið misskilið hæstv. ráðh. Ég skildi ekki hæstv. ráðh. svo, að hann væri sérstaklega að tala um það að aflétta tollum á útlendum iðnaðarvörum, eins og hv. þm. Barð. virðist hafa skilið það. Það yrði vitanlega ekki íslenzkum iðnaði til hagsbóta. Hann nefndi áreiðanlega í sinni ræðu í þessu sambandi að leggja einhverja verndartolla á erlendar iðnaðarvörur, til þess þannig að hlynna að íslenzkum iðnaði. Það væri ekki til að draga úr tekjum ríkissjóðs, og það væri ekki til þess að skaða íslenzkan iðnað.

Þá vildu báðir hv. síðustu ræðumenn halda því fram, að það gegni allt öðru máli um aðra tolla, en um söluskattinn. Ég veit nú ekki, hvað á að segja um það, og a.m.k. er það svo um ýmsa tolla, að það mætti þá með sama rétti segja, að þar væri landsmönnum mismunað. Hv. þm. Barð. er t.d. bindindismaður bæði á áfengi og tóbak og geldur ekkert í ríkissjóðinn í toll af þessum vörum, en margir gjalda mikinn toll af þessum vörum. Það mætti með sama rétti halda því fram, að hv. þm. Barð. nyti þarna sérstakra réttinda. Og í raun og veru er ekki hægt að færa nein ákveðin rök fyrir því, að þeir, sem kaupa áfengi og tóbak, eigi að borga meira, en aðrir menn í ríkissjóð, jafnvel þó að þeim sé þetta í sjálfsvald sett. Þeir njóta ekkert meiri réttinda í þjóðfélaginu, en aðrir menn. En við skulum ekki tala um hreinar óþarfavörur eins og áfengi og tóbak. Það eru tollar á ýmsum nauðsynjavörum, eða vörum, sem a.m.k. eru taldar nauðsynjavörur, eins og kaffi og sykri og ýmsum þeim hlutum, áhöldum og öðru, sem allur almenningur þarf að nota. Ég sé ekki, — og það er nú aðallega út af því, sem hv. 1. landsk. var að tala um, að þessi skattur væri ranglátastur allra skatta og tolla, — ég sé ekki neinn grundvallarmun á söluskattinum og þessum tollum.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, þegar ég hafði nefnt 14 millj. kr. í þessu sambandi, að þetta væri út í bláinn hjá mér, þá vil ég geta þess, að ég staðhæfði aldrei neitt um það í minni fyrstu ræðu, að þessar till. mundu lækka tekjur ríkisins um 14 millj. kr. Ég sagðist hafa heyrt þá tölu nefnda, og það er rétt. Ég heyrði hana nefnda, og það var í hv. fjhn. á fundi, þar sem þessir báðir hv. þm. voru viðstaddir. Það var dregið í efa af öðrum nefndarmönnum, það er satt, en talan var nefnd. Ég geri ráð fyrir, að það sé rétt hjá hv. þm. Barð., að hér sé um of háa tölu að ræða, en talan var nefnd, og ég sagði alveg rétt frá því í minni fyrstu ræðu.

Með þessu er nú raunar svarað hv. 1. landsk. þm., og þarf ekki að ræða hans ræðu sérstaklega. Mér finnst, að það, sem hann sagði, ef það má telja það rétt, eigi við alla tolla eða svo til alla tolla. En hann gerði loksins nokkra tilraun til þess að svara því, hvað ætti að koma í staðinn, ef söluskatturinn yrði afnuminn. Það hefur hann ekki gert fyrr, a.m.k. ekki undir umræðum um þetta mál á undanförnum þingum. Þá nefndi hann í fyrsta lagi einkasölur, það mætti hafa einkasölur á ýmsum vörum, og ríkissjóður gæti grætt á því stórfé og að því er mér skildist eins mikið og söluskattinum nemur. Einkasölur hafa nú nokkuð verið prófaðar og gefizt misjafnlega, svo að ekki sé meira sagt. En hvað sem því líður, þá held ég, að hann geti varla fært rök fyrir því, að einkasölur á vörum geti gefið stórgróða í ríkissjóðinn á annan hátt en þann, að sá gróði komi frá viðskiptamönnum einkasalanna. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki sama, hver varan er náttúrlega. Það er ekki heldur kannske alveg sama, hver tekur gróðann, en þeir, sem taka gróða af verzlun, verða að borga tekjuskatt í ríkissjóð, svo að þetta étur sig töluvert upp, og a.m.k. er sú reynsla, sem fengizt hefur af einkasölum, sem reyndar hafa verið hér á landi, ekki á þann veg, að mér finnist mikils að vænta þar. Það gegnir nokkuð sérstöku máli að vísu um áfengiseinkasöluna og tóbakseinkasöluna. Ég vildi ekki mæla með því, að verzlun með þær vörugreinar væri fengin einstaklingum í hendur, en það er bara af allt annarri ástæðu. Það er af þeirri ástæðu, að það er yfirleitt ekki æskilegt, að mikið sé keypt af þeim vörum. Það er þess vegna, sem rétt þykir að hafa þær vörur í einkasölu, til þess að enginn einstaklingur hafi sérstakan áhuga fyrir því að koma þeim vörum út.

Þá nefndi hann í öðru lagi sparnað á útgjöldum ríkissjóðs. Það væri gott og blessað, ef till. lægju fyrir um það, hvað ætti að spara. Þetta eru nú margtuggin orð og kenning þeirra, sem vilja afla sér lýðhylli, að það eigi að spara ríkisútgjöldin, en hvernig kemur þetta fram í verki? Ég veit ekki annað ,en þessi hv. þm. og allur hans flokkur hafi yfirleitt greitt atkvæði ævinlega móti öllum sparnaðartill., sem fram hafa komið. Það mun vera alger undantekning, ef svo er ekki. Það eru engar sparnaðartill., sem þeir hafa stundum borið fram, að færa niður áætlunarliði fjárlaganna. Það er ekki nokkur sparnaður. Það er tilraun til þess að falsa fjárlög og láta þau sýna allt aðra niðurstöðu, en nokkrar líkur eru til, að landsreikningurinn á sínum tíma sýni. Það er enginn sparnaður í slíku. Ef t.d. á að leggja niður embætti, þá er það venjulega, að þeir menn, sem eru að tala um sparnað, greiða atkvæði á móti því að leggja slíkt embætti niður. Ef á að fjölga embættum, og það er skemmst að minnast, að till. voru um það, þá greiða þeir venjulega atkv. með slíkum till. um að fjölga embættum. Nei, það þarf að koma nánari skilgreining á því, hvað á að spara. Það er ekki nóg að segja þetta í einni setningu, að ráðið sé að spara útgjöld ríkissjóðs. Það verður ekki tekið gilt.