18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Það er nú þýðingarlaust að vera að deila frekar við hv. frsm. um þetta mál. Það, sem hv. frsm. sagði um . einkasölurnar, að ekkert væri hægt á þeim að græða, eru nú rök, sem ég tel harla lítils virði. Hv. frsm. sagði, að einkasölur hefðu ekki gefizt vel. Hér er um að ræða einkasölur og einkaframleiðslu ríkissjóðs til þess að afla tekna. Má ég spyrja: Hafa áfengisverzlunin og tóbakseinkasalan ekki gefið ríkissjóði allvænan skilding í tekjur? Og þá vil ég spyrja: Hvers vegna getur ríkissjóður ekki haft tekjur af því að selja t.d. sælgætisvörur, öl og gosdrykki, alveg eins og áfengi og tóbak? Það hafa engin slík rök komið fram hjá hv. frsm., sem gætu bent til þess, að hér sé um nokkurn eðlismun að ræða, þannig að þær athugasemdir hv. þm. eru algerlega haldlausar. Þá segir hv. þm., að það sé ekki hægt að spara meira af útgjöldum ríkissjóðs og að um það hafi engar raunhæfar till. komið fram. Það er náttúrlega hægt að benda hv. þm. á ótal margt, en ég vil nú t.d. benda honum á þær till., sem við höfum flutt um, að útgjöld til Evrópuráðsins og til Atlantshafsbandalagsins féllu niður, svo að dæmi séu nefnd. Það væru kannske líka möguleikar á því að fækka eitthvað sendiráðunum. Það væru kannske möguleikar á því að komast af með eitt sendiráð á Norðurlöndum, ef ríkissjóður er raunverulega í eins mikilli fjárþröng og hv. frsm. og hæstv. ríkisstj. vill vera láta. Nei, okkar flokkur hefur borið fram fjölda af slíkum till. um niðurskurð á óþörfum útgjöldum ríkisins eða útgjöldum, sem vel væri hægt að komast af án, og allar þær till. hafa verið felldar af stjórnarliðinu. Annars er það náttúrlega alveg fjarstætt að ætla að gera þá kröfu til stjórnarandstöðunnar, að hún eigi að semja fjárl. fyrir hæstv. ríkisstj. og hún megi ekki gagnrýna fjárl. og tekjuöflunarleiðir fjárl., nema því aðeins að hún komi jafnframt með frv. að fjárl. fyrir hæstv. ríkisstj. Slíkt er vitaskuld ekki annað, en fjarstæða. Ef stjórnarandstaðan færi með stjórn í landinu, þá mundi hún semja fjárl. á allt öðrum grundvelli og á allt öðrum efnahagsgrundvelli, en nú er fyrir í landinu, svo að það er ekki hægt að koma fjárl. saman, þannig að nokkurt vit sé í frá sjónarmiði stjórnarandstöðunnar, á grundvelli þess efnahagsástands, sem nú ríkir í landinu og er á ábyrgð núverandi ríkisstj. Þetta ættu hv. frsm. og hæstv. fjmrh. að geta skilið.