18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Hæstv. dómsmrh. notaði nú tækifærið til þess að halda hér langa ræðu, eftir að mínum ræðutíma var lokið. Það er náttúrlega gersamlega óþarft að svara svona ræðu. Þetta er nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðh. til þess að skeyta skapi sínu, því að ræðan var náttúrlega ekkert annað, en venjulegt geðvonzkukast, og þarf þess vegna ekki að svara henni.

Auðvitað var hæstv. ráðh. strax kominn austur til Moskva. Hann unir sér hvergi annars staðar í huganum, heldur en austur í Moskva. Hann sagði, að sendiráðið í Moskva hefði verið eitt af dýrustu sendiráðunum. Nú, það hefur nú verið lagt niður, þannig að sá sparnaður er þegar framkvæmdur. En ég held nú raunar, að hefði þetta sendiráð ekki verið lagt niður og hefðu þessi útgjöld ekki verið spöruð, þá væri hag þjóðarinnar þannig komið, að hvorki væri þörf á bátagjaldeyrinum né heldur á söluskattinum. Ég held, að það að eyðileggja viðskiptin við Sovétríkin hafi orðið íslenzku þjóðinni svo dýrt, að einmitt sú eyðilegging eigi einna ríkastan þátt í því, að nauðsynlegt var að leggja á alla þessa viðbótarskatta, sem lagðir hafa verið á frá því núverandi stjórn og fyrrverandi tók við, frá því 1947. — Hæstv.- ráðh. getur nú ekki um annað hugsað sem sagt, heldur en þetta, sendiráðið í Moskva. Það er honum ríkt í huga, og ég býst við því, að það sé eitthvað í samviskunni, sem bítur hann. Það er náttúrlega alveg fullkomin fjarstæða, sem hæstv. ráðh. hefur margsinnis haldið fram, að sendiráðið í Moskva hafi verið lagt niður, áður en hann tók við. Það var alls ekki um það að ræða að leggja sendiráðið í Moskva niður, heldur hitt, að sendiherrann í Moskva tæki um skeið að sér jafnframt sendiherrastörf í París.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi það, að það væri ekki verkefni stjórnarandstöðunnar að semja fjárlög fyrir ríkisstj. og það væri vissulega erfitt verk að semja fjárlög, sem vit væri í, eftir að hæstv. ríkisstj. er búin að koma fjármálalífi landsins í það öngþveiti, sem alþjóð er kunnugt. En þar sem hann var að auglýsa eftir fleiri till. til sparnaðar á ríkisrekstrinum, má vissulega nefna fleiri, það má lengi nefna fleiri. Ég skal til dæmis nefna það, að það væri hægt að spara eitthvað í dómgæzlu og lögreglustjórn, þ.e.a.s. í þeim lið fjárlaganna, sem undir hann sjálfan heyrir. Frá 1946, í stjórnartið hæstv. ráðh., hefur þessi liður bólgnað upp frá 7.8 millj. upp í 25.4 millj., svo að ég held, að hér sé nú liður, sem um munar, og hann ekki lítill. Ég get bent á ótal fleiri liði. Ég get t.d. bent á fjárhagsráð. Það er hægt að leggja það niður og það án nokkurs tjóns, að mínum dómi, fyrir þjóðfélagið, nema síður sé. En það er nú ekki aldeilis verið að hugsa um það að leggja fjárhagsráð niður, heldur er meiningin núna, og kemur frv. um það frá hæstv. ríkisstj., að stofna annað fjárhagsráð, yfirfjárhagsráð, sem á að hafa verkefni fjárhagsráðs „í því stóra“. En það er hreint ekki meiningin, að hið gamla fjárhagsráð eigi að leggjast niður eða það eigi að draga saman seglin, heldur á það einungis að fara með verkefnin „í því smáa“. M.ö.o., það verða tvö bákn, annað, sem á að sjá um fjárfestingarstarfsemina í stórum dráttum, og hitt í smáatriðum. Og eins og ég sagði áðan, þá sýnist mér nú, að þessi till. bendi ekki á sérstaklega mikinn áhuga til þess að draga úr ríkisútgjöldunum.