21.10.1952
Neðri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var á Alþingi 1950, að lagt var fram frv. til l. um hitaveitur utan Reykjavíkur. Þetta frv. náði ekki afgreiðslu. Var það til meðferðar í hv. Ed., og komu fram ýmsar aths. við frv., sem sendar voru til félmrn., sem hafði undirbúið þetta frv. á sínum tíma, og dagaði frv. þá uppi.

Ráðuneytið hefur nú látið endursemja þetta frv. og m.a. tekið tillit að mestu leyti, held ég sé óhætt að segja, til þeirra ábendinga, sem komu fram af hálfu Alþingis þá. Auk þess hefur ráðuneytið natið aðstoðar Gunnars Böðvarssonar, yfirverkfræðings jarðborana ríkisins, við samningu frv., og hefur hann ráðið miklu um efnisatriði þess.

Það þykir rétt, að þetta frv. fjalli einungis um hitaveitur utan Reykjavíkur, vegna þeirrar sérstöðu, sem Reykjavík hlýtur að hafa að ýmsu leyti með sína stóru hitaveitu. Hins vegar er orðin knýjandi nauðsyn, að sett verði löggjöf um hitaveitur utan Reykjavíkur. Það eru nú þegar starfræktar hitaveitur í tveimur kauptúnum, og sú þriðja tekur til starfa nú í árslok, hitaveitan á Sauðárkróki, og vonandi bætast fleiri við. áður en mjög langt líður, og er þá nauðsynlegt, að til sé almenn löggjöf um þessi efni, sem fjalli um ýmislegt varðandi þessi fyrirtæki. Þess vegna er það, að þetta frv. á að skapa heildarlöggjöf um aðrar hitaveitur, en Reykjavíkurhitaveituna.

Það getur mjög orkað tvímælis, hvað á að taka upp í löggjöf eins og þessa, og vil ég beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að athuga, hvort ekki geti verið rétt að taka fleira upp í frv. heldur en nú er gert. Vil ég þar sérstaklega nefna eitt atriði, sem ég hef ekki sjálfur tekið neina efnislega ákvörðun um; hvort ég teldi rétt eða ekki, en það er, hvort eigi að vera í þessari löggjöf ákvæði um það, að hvað miklu leyti ríkissjóður ábyrgist stofnkostnað slíkra hitaveitna. Það mun ekki vera fullt samræmi í því, hvernig þetta hefur verið að undanförnu með þær hitaveitur, sem gerðar hafa verið. Spursmálið er, hvort það væri rétt að setja einhver ákveðin ákvæði um þetta inn í þetta frv. eða láta það vera eins og hér er. En það, að þetta er ekki tekið inn í frv., er hér rökstutt með því, og mun vera að ráði Gunnars Böðvarssonar, að aðstæður geti verið svo ólíkar á ýmsum stöðum, að það sé heppilegra og eðlilegra, að Alþingi fjalli um það í hvert skipti, hve mikinn hluta af stofnkostnaði hitaveitunnar ríkið skuli ábyrgjast. En rétt er, að n. athugi einmitt gaumgæfilega, hvað hún telur rétt í þessu efni.

Ég legg töluverða áherzlu á það, að Alþingi gæti afgr. þetta frv. nú. Það hefur fengið rækilegan undirbúning, er búið að koma hér áður, og hef ég varla trú á að minnsta kosti, að ráðuneytið geti lagt meira til þeirra mála að sinni, en hins vegar full þörf á því, að löggjöf eins og þessi verði nú sett.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en leyfi mér að leggja til að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.